Nokkrar umræður urðu nýlega á Snjáldru (Facebook), eftir að Guðmundur Andri Thorsson hafði vitnað þar í vísu Steins Steinars um Tómas Guðmundsson: Hér situr Tómas skáld með bros á brá, bjartur og hreinn sem fyrsta morgunsárið.

Nokkrar umræður urðu nýlega á Snjáldru (Facebook), eftir að Guðmundur Andri Thorsson hafði vitnað þar í vísu Steins Steinars um Tómas Guðmundsson:

Hér situr Tómas skáld með bros á brá,

bjartur og hreinn sem fyrsta morgunsárið.

Ó, hvað mig, vinur, tekur sárt að sjá,

að sál þín skyldi grána fyrr en hárið.

Ég fræddi Guðmund Andra og fleiri Snjáldrumenn á því, að vísunni var kastað fram í Hressingarskálanum um 1951, þar sem Tómas sat við eitt borð, en Steinn við annað ásamt kunnum Reykvíkingi, að vísu aðfluttum, Dósóþeusi Tímóteussyni. Hafði Dósóþeus sagt við Stein „Hér situr Tómas skáld“ og Steinn botnað hið snarasta.

Steinn var Tómasi gramur um þær mundir, því að Tómas hafði undir dulnefni skopstælt órímuð ljóð eftir Stein í vinsælum hláturleikjum, revíum, sem færðar voru upp í Reykjavík undir nafninu „Bláu stjörnunni“ frá 1948 til 1952. Rek ég þessa sögu í bókinni Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku , sem kom út 2010 og er til á öllum ofstækislausum íslenskum menningarheimilum.

En Tómas hafði ekki lifað sjálfan sig eins og Steinn gaf í skyn í vísunni, heldur var hinn sprækasti. Skar Tómas upp herör gegn kommúnistum í snjallri framsöguræðu á fjölsóttum fundi Stúdentafélags Reykjavíkur 1950. Haustið 1951 gaf hann út ljóðabókina Fljótið helga með kvæðinu „Að Áshildarmýri“, sem var í senn ádeila á kommúnisma og nasisma. Kommúnistar tóku bókinni illa. Einn dimman desemberdag það ár kom einn helsti leiðtogi þeirra, Einar Olgeirsson, eins og vindsveipur að borði þeirra í kaffistofu Alþingis, veifaði bókinni framan í félaga sína og sagði: „Ég skil ekkert í honum Tómasi!“ Bókmenntagagnrýnandi Þjóðviljans skrifaði síðan 1952, að Tómas væri „sprellikarl“. Þá var Steini nóg boðið þrátt fyrir fyrri væringar. Birti hann grein í Þjóðviljanum , þar sem hann kvað mörgum góðum sósíalista „renna það til rifja að sjá málgagn sitt undirorpið svo marklausu bulli og mannskemmandi kjaftæði“. Seinna átti Steinn eftir að snúast eftirminnilega frá sósíalisma og yrkja um það, en það er önnur saga.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is