[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Reykjavíkurborg hefur uppi áform um stofnun samráðsvettvangs um þróun og hönnun á verkefninu Reykjavíkurhúsin.

Sviðsljós

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Reykjavíkurborg hefur uppi áform um stofnun samráðsvettvangs um þróun og hönnun á verkefninu Reykjavíkurhúsin. Um er að ræða byggingu á leigu- og búseturéttaríbúðum fyrir einstaklinga og fjölskyldur í Reykjavík sem hafa síður færi á að leggja eigið fé í húsnæði. Íbúðirnir yrðu jafnframt fyrir félagasamtök til framleigu.

Samkvæmt tillögu sem lögð var fram á fundi borgarráðs á fimmtudag á þetta að vera samstarfsverkefni Félagsbústaða, Búseta, Félagsstofnunar stúdenta, Samtaka aldraðra og verkalýðshreyfingarinnar. Afgreiðslu málsins var frestað til næsta fundar borgarráðs en jafnframt var hugmyndum vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs um fimm mögulega byggingarreiti á þéttingarsvæðum borgarinnar undir íbúðir á vegum Reykjavíkurhúsa.

Þarf að standast viðmið ESA

Umræddar lóðir eru við Vesturbugt, Þorragötu/Suðurgötu, Bólstaðarhlíð/Stakkahlíð, Kirkjusand og í Laugarnesi. Þar er í fyrstu gert ráð fyrir 450-530 íbúðum en gætu orðið allt að 800 á næstu fimm árum.

Ætlunin er að embættismenn borgarinnar, ásamt framkvæmdastjóra Félagsbústaða, vinni tillögur að fjárhagslegum forsendum og frekari umgjörð verkefnsins. Grunnforsenda er að útfærslan standist viðmið Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um félagslegt hlutverk hins opinbera á húsnæðismarkaði, að því er fram kemur í tillögunni fyrir borgarráði. Í verkefninu á einnig að horfa til niðurstaðna hönnunarverkefnisins „Hæg breytileg átt“ á vegum hönnunarsjóðs Auroru. Stefnt er að því að endanleg útfærsla Reykjavíkurhúsanna byggist á niðurstöðum opinnar hönnunarsamkeppni.

Samkvæmt tillögunni verður í hverju húsi lögð áhersla á fjölbreytni einstaklinga og fjölskyldugerða á ólíkum lífsskeiðum, með ólíkan bakgrunn, eins og það er orðað.

Íbúar í húsunum myndu sitja í stjórn húsfélaga þeirra en í hverju húsi yrði aðeins einn eigandi, sem gagnvart leigutaka bæri ábyrgð á öllum rekstri, s.s. viðhaldi, íbúaskiptum, orkukaupum og leiguinnheimtu.

Félagsbústaðir myndu koma að þróun og uppbyggingu á Reykjavíkurhúsunum og 20-25% íbúða í hverju húsi yrðu félagslegar leiguíbúðir á þeirra vegum. Félagsbústaðir myndu verða eigandi að sumum húsanna en leitað yrði samvinnu um eignarhald og rekstur annarra við óskyld félög sem ekki væru rekin í hagnaðarskyni, eins og fram kemur í tillöguni. Þar segir einnig:

„Reykjavíkurhúsin verða á svæðum sem liggja vel að almenningssamgöngum en gert verður ráð fyrir fáum einkabílastæðum. Komið verði fyrir yfirbyggðum hjólaskýlum og athugaðir möguleikar á því að sameiginlegir rafbílar fylgi húsunum.“

Reitir í skipulagsvinnu

Í annarri tillögu er umhverfis- og skipulagssviði ætlað að vinna tillögu að deiliskipulagi fyrir fyrrnefnda byggingarreiti. Þeir eru tilgreindir nánar á meðfylgjandi korti og hve margar íbúðir gætu mögulega risið þar. Reitirnir eru mislangt komnir í skipulagsferli. Einn þeirra, Vesturbugt, er á samþykktu deiliskipulagi en borgin hyggst kanna hvort hluti íbúðanna geti hentað fyrirkomulagi Reykjavíkurhúsa.

Fram kemur að samningar hafi tekist við ríkið um nýja lóðaafmörkun við Kennaraháskólann við Stakkahlíð og gengur stór hluti lóðarinnar til borgarinnar. Af 80-120 íbúðum færu 30-50 íbúðir til Samtaka aldraðra. Þá vinnur borgin að nýju deiliskipulagi á Kirkjusandi í samráði við Íslandsbanka, en borgin á hluta þeirrar lóðar. Íbúðir við Laugarnesveg eru háðar samkomulagi við ríkið um skil á hluta lóðarinnar.

Flóknar hugmyndir rétt fyrir kosningar

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir í samtali við Morgunblaðið að stefnt sé að byggingu 450 til 800 íbúða á næstu fimm árum með þessum hætti.

Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, vekur athygli á því að meirihlutinn í Reykjavík hafi haft fjögur ár til að hrinda húsnæðisstefnu sinni í framkvæmd og svonefndum Reykjavíkurhúsum. „Nú eru lagðar fram hugmyndir rétt fyrir kosningar sem eru mjög flóknar og enn langt í land að þær geti talist tilbúnar. Með Reykjavíkurhúsunum er stefnt að því að koma til móts við efnaminni hópa í samvinnu við marga aðila. Það er auðvitað vel og sjálfsagt að skoða allar leiðir sem geta verið færar í þeim efnum. Við leggjum okkar á vogarskálarnir í því.

Ljóst er að þetta kemur ekki til framkvæmda á þessu kjörtímabili. Þrátt fyrir vanda mjög margra hafa Félagsbústaðir ekki mætt vaxandi þörf fyrir félagslegt húsnæði og úr því þarf að bæta,“ segir Júlíus Vífill.

„Þetta eru hús sem ætlunin er að byggja samkvæmt nýrri hönnun í þéttri byggð, umhverfisvæn hús sem eiga að gefa fjölbreyttum hópi tækifæri á húsnæði. Skipulagsyfirvöld eiga eftir að skoða þessar staðsetningar betur, þetta þarf að falla vel að núverandi byggð,“ segir Dagur.

Hann segir samstarfsaðila borgarinnar hafa samþykkt þátttöku í verkefninu. „Þetta er hugsað sem leigu- og búseturéttaríbúðir. Hluti byggingarréttar gæti verið boðinn út til verktaka og aðrar byggðar upp sem hluti af fjölbreyttri heild. Við hugsum þetta fyrir fólk sem ekki hefur efni á að leggja út fyrir nýrri íbúð. Stærð íbúðanna yrði fjölbreytt, allt frá því að vera fyrir einstaklinga upp í barnafólk,“ segir Dagur, sem á von að tekið verði af skarið með þetta á fundi borgarráðs í næstu viku.