Fyrir nokkrum vikum skiptumst við Guðmundur Andri Thorsson á skoðunum um þá Stein Steinarr og Tómas Guðmundsson á Snjáldru (Facebook).

Fyrir nokkrum vikum skiptumst við Guðmundur Andri Thorsson á skoðunum um þá Stein Steinarr og Tómas Guðmundsson á Snjáldru (Facebook). Af því tilefni er fróðlegt að rifja upp viðbrögð sósíalista, þegar Steinn sagði endanlega skilið við þá eftir að hafa setið í sjö manna sendinefnd íslenskra rithöfunda til Ráðstjórnarríkjanna sumarið 1956. Þegar Steinn gagnrýndi ráðstjórnarskipulagið í viðtali við Alþýðublaðið 19. september, helgaði Magnús Kjartansson, ritstjóri málgagns sósíalista, honum leiðara í blaði sínu. „Steinn Steinarr skáld er orðinn spámaður í föðurlandi sínu,“ skrifaði hann háðslega. „Hann kvaðst hafa séð myrkur um miðjan dag.“ Með þessu vísaði Magnús til þess að komið hafði út á íslensku fræg skáldsaga Arthurs Koestlers, Myrkur um miðjan dag , um sýndarréttarhöld, sem Stalín skipulagði í Moskvu 1938. Magnús rifjaði líka í leiðaranum upp gömul vísuorð Steins:

Er stríðinu lokið? Er loksins til þurrðar gengið

það litla af ærlegri hugsun, sem fannst hjá mér?

Ferðafélagi Steins, Agnar Þórðarson rithöfundur, leyfði sér líka að gagnrýna ráðstjórnarskipulagið opinberlega. Vöktu lýsingar þeirra Steins á lífinu þar eystra mikla athygli. Einn harðskeyttasti sósíalisti landsins, Jón Múli Árnason útvarpsþulur, gekk að þeim í Austurstræti og spurði: „Því voruð þið að kjafta frá?“ Annar sanntrúaður sósíalisti, en einlægari, Jóhannes skáld úr Kötlum, settist hjá þeim Steini og Agnari í Hressingarskálanum og sagði í öngum sínum: „Ég veit ekki, hverju ég á að trúa!“ Steinn svaraði rólega: „Oo, þú skalt bara halda áfram að trúa.“ Sjálfur birti Steinn síðan tvö kvæði um ráðstjórnarskipulagið, „Kreml“ og „Don Quijote ávarpar vindmyllurnar“. Niðurstaðan í síðara kvæðinu er, að hið frjálsa hagkerfi Vesturlanda sé ekki gallalaust, en hið miðstýrða austræna kerfi miklu verra: „Með hálfum sannleika berst ég gegn algerri lygi.“ Hér hefur Steinn bersýnilega orðið fyrir áhrifum af Koestler, að vísu ekki skáldsögunni Myrkri um miðjan dag , heldur grein frá 1943, þar sem Koestler skrifaði um baráttuna gegn sósíalismanum: „We are fighting against a total lie in the name of a half truth.“ Við berjumst gegn algerri lygi með hálfum sannleika. Íslenskir sósíalistar höfðu vitaskuld ekki næga þekkingu á verkum Koestlers til að benda á þessi rittengsl. En einnig er það umhugsunarefni, að flestir hinna boðsgestanna fimm í sendinefndinni þögðu ýmist þunnu hljóði eða héldu áfram að lofsyngja ráðstjórnina. Þeir „kjöftuðu ekki frá“, eins og Jón Múli orðaði það.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is