Hannes Þ. Sigurðsson fæddist í Reykjavík hinn 3 . júlí 1929. Hann lést á líknardeild LSH í Kópavogi 17. apríl 2014.

Hann var sonur hjónanna Sigurðar Jónasar Þorsteinssonar, stórkaupmanns og iðnrekanda, frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal og Kristínar Hannesdóttur frá Stóru-Sandvík í Flóa. Hannes var elstur þriggja systkina en hin eru: Margrét Kristín og Axel og lifa þau bróður sinn.

Hann kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Margréti Erlingsdóttur, húsmóður, f. 19. júlí 1930, dóttur hjónanna Erlings Jónssonar vélstjóra og Helgu Eyþórsdóttur. Börn Hannesar og Margrétar eru: 1) Sigurður, fæddur 1951. Eiginkona hans er Margrét Karlsdóttir. Sonur Sigurðar og Halldóru Bjarkar Jónsdóttur er Hannes Þorsteinn. Dóttir hans og Ingunnar Guðbrandsdóttur er Freyja. 2) Kristín, fædd 1956. Eiginmaður hennar er Páll Einar Kristinsson. Börn Kristínar og Páls Kristjánssonar eru: Hannes Páll, sambýlismaður Vilhjálmur Vilhjálmsson, Margrét Lilja, eiginmaður Ingvar Már Karelsson. Þeirra synir eru Daníel Ingvar, Bjarki Már og Hilmar Trausti. Sigríður Hrönn, sambýlismaður hennar er Búi Baldvinsson og sonur þeirra er óskírður. Dóttir Páls Einars er Ósk. 3) Erlingur, fæddur 1962. Eiginkona hans er Halldóra Halldórsdóttir. Börn þeirra eru Jens Arnar, sambýliskona hans er Sigrún Guðjónsdóttir. Heiða Björg. Dóttir hennar og Arnars Þorleifssonar er Elma Rún. Rúnar Ingi. Sonur Rúnars og Kristínar Friðriksdóttur er Óliver Daði.

Hannes lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1948 og framhaldsnámi við Verslunarháskólann í Stokkhólmi. Hann hóf störf hjá Sjóvátryggingafélagi Íslands haustið 1950, en hann hafði áður verið þar við sumarstörf um nokkurra ára skeið. Hann starfaði allan sinn starfsaldur hjá Sjóvá og síðar Sjóvá Almennum, eða í 50 ár. Hannes iðkaði íþróttir á yngri árum, bæði fótbolta og handbolta með Fram. Hann var þjálfari í báðum greinum og milliríkjadómari í báðum greinum og hélt fjölda dómaranámskeiða um allt land. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum innan íþrótta- og verkalýðshreyfingarinnar og annarra samtaka. Hann var heiðursfélagi ÍSÍ, KSÍ, HSÍ, Fram, VR og víðar. Hann var sæmdur gullmerkjum margra félaga auk annars heiðurs. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1997. Úför Hannesar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 28. apríl 2014, kl. 13.

Elsku pabbi minn.

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima.

Ó, elsku pabbi, ég enn þá er

aðeins barn, sem vill fylgja þér.

Þú heldur í höndina mína.

Til starfanna gekkstu með glaðri lund,

þú gleymdir ei skyldunum eina stund,

að annast um ástvini þína.

Þú farinn ert þangað á undan inn.

Á eftir komum við, pabbi minn.

Það huggar á harmastundum.

Þótt hjörtun titri af trega og þrá,

við trúum, að þig við hittum þá

í alsælu á grónum grundum.

Þú þreyttur varst orðinn og þrekið

smátt,

um þrautir og baráttu ræddir fátt

og kveiðst ekki komandi degi.

(Hugrún)

Blessuð sé minning þín.

Elska þig mikið.

Landið þitt.

Kristín Hannesdóttir.

Elskulegur tengdafaðir okkar er nú fallinn frá eftir stutt en erfið veikindi. Okkur er efst í huga mikill söknuður, en jafnframt þakklæti og gleði. Hann var ekki aðeins tengdafaðir heldur líka einlægur og góður vinur. Hann var alltaf kallaður afi. Allar samverustundirnar með honum og ömmu voru miklar gleðistundir. Fjölskyldan, börnin, afa- og langafabörnin voru gimsteinarnir hans og ávallt glatt á hjalla þegar allur hópurinn var saman kominn. Hann átti sínar einkastundir, sem voru fréttatímar og beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum og ef eitthvað stóð til var allt tímasett út frá þeim. Afi hafði ákveðnar skoðanir á þjóð- og heimsmálum og spunnust oft skemmtilegar umræður. Afi var heiðarlegur, réttsýnn og ráðagóður. Alltaf var hann reiðubúinn til aðstoðar í stóru sem smáu. Hann var þakklátur og glaður með allt sem við gerðum saman og okkur mikil gleði að upplifa og njóta þess fallega sambands, sem hann og amma áttu saman. Takk fyrir samfylgdina, elsku tengdapabbi okkar.

Margrét, Halldóra

og Páll Einar.

Elsku afi minn

Engin orð fá því lýst hversu mikið ég sakna þín. Það er svo sárt að missa þig, þú varst svo góður við okkur, besti afinn af öllum.

Ég sit hérna og rifja upp allar góðu stundirnar sem við áttum saman, ég veit hvað ég var lánsöm að eiga þig að svona lengi og að eiga afa sem kenndi mér svona mikið. Þú gafst þér alltaf tíma til þess að tala við mig og spjalla um heima og geima. Það er yndislegt að minnast símtalanna sem ég fékk þegar ég bjó ýmist í Noregi, Svíþjóð eða í Danmörku og þú talaðir það tungumál sem passaði við hverju sinni.

Afííííí, ég man þegar þú kenndir mér að ganga í rauðu mölinni og þú kenndir mér líka að keyra. Ég heyrði alltaf þegar þú kallaðir á mig, „Mí Bei“. Það var svo gott að vita af því að þú kallaðir alltaf á mig, sama hvar ég var stödd í heiminum.

Ég gleymi því aldrei þegar ég og amma stríddum þér og helltum gulri mjólk yfir í bláa fernu og þú fékkst þér sopa og fannst engan mun. Ég og amma hlógum mikið að þeim hrekk. Ógleymanleg stund er einnig þegar við vorum í sveitinni og gáfum músunum að borða, það var svo gaman hjá okkur alltaf í bústaðnum með græna hliðinu.

Afi, þú varst sá allra hreinskilnasti, sagðir alltaf nákvæmlega það sem þér fannst og það var svo frábært að koma til þín og fá allskonar ráð og heyra þínar skoðanir. Það var svo gaman að hlusta á þig segja sögur, þú sem hefur ferðast út um allt og búinn að gera svo mikið á þinni góðu ævi.

Þú varst alltaf svo glaður þegar ég kom í heimsókn og það voru ómetanlegar stundirnar sem ég átti með þér og ömmu nú í vetur þegar ég og amma vorum í prjónaklúbbnum okkar. Ég minnist þess að sitja með ömmu að prjóna í stofunni og fylgjast með þér í stólnum þínum að horfa á fréttirnar nú eða Alþingi og alltaf svo fyndið að sjá þig tala við sjónvarpið, ef þú varst ósammála því sem um var að ræða þá ræddir þú það bara beint við sjónvarpið. Þú heyrðir líka alltaf bara það sem þú vildir heyra. Stundum vorum við amma að hvísla eitthvað og það heyrðir þú – eitthvað sem þú áttir kannski ekkert að heyra.

Afi minn, ég er svo þakklát fyrir að þú náðir að hitta nýfædda son minn áður en þú kvaddir okkur, það sem þér fannst hann sætur – þú varst svo hamingjusamur að sjá hann og þér fannst ótrúlegt að beyjan þín væri orðin mamma.

Ég er sorgmædd yfir því að hann fái aldrei að kynnast þér, að hann fái ekki að fara á „hoho“ afanum sínum nú eða fá kaffi afanum sínum. Ég mun sjá til þess að hann heyri sögur af því hversu frábæran langafa hann átti og ég veit að þú munt passa uppá okkur og vaka yfir okkur. Það ómar í höfðinu á mér núna það sem þú sagðir svo oft við mig síðustu daga: Mí Bei mamma.

Nú er hljótt heima hjá ömmu, enginn afi í stólnum sínum að hlusta á útvarp eða horfa á sjónvarpið. Þú skilur eftir stórt skarð í fjölskyldunni þar sem þú spilaðir svo stórt hlutverk í lífi okkar allra. En þú ert kominn á góðan stað hjá Guði og þangað til næst, afi minn: Ég elska þig og við munum hugsa vel um ömmu.

Þín

Sigríður (Sigga Bei).

Elsku afi okkar.

Það að kveðja þig er með því erfiðasta sem við höfum gert. Þú varst án efa skemmtilegasti og yndislegasti afi sem hægt var að óska sér og þú varst alltaf til staðar þegar við þurftum á þér að halda, hvort sem það var til að fagna með okkur sigrum í íþróttum eða til að lesa fyrir okkur á kvöldin þegar við vorum í pössun hjá þér og ömmu. Það skipti engu máli hvað það var sem við systkinin tókum okkur fyrir hendur, þú varst alltaf til í að styðja við okkur og veita okkur alla þá hjálp sem var í boði.

Það er yndislegt að hugsa til baka þegar við förum með langafabörnin þín að gefa öndunum, um allar þær ferðir sem var farið í Grensás-bakarí og keypt brauð og kíkt niður að tjörn að gefa öndunum. Þetta var svo mikil rútína sem þú hafðir svo gaman af, telja strætó-a útum gluggann í Rauðagerðinu fyrir hádegi, fá skyr hjá ömmu sem var algjört lykilatriði og svo beinustu leið niður að tjörn.

Það má segja, þegar við systkinin förum yfir minningarnar með þér, elsku afi okkar, að það sé óraunhæft að gera þeim nógu góð skil í svona grein, við gætum auðveldlega sett það í eina góða bók. Sendiferðirnar fyrir „yfirvaldið“ eins og þú kallaðir það alltaf með bros á vör, matarinnkaupin í BK Kjúkling sem við teljum að séu löngu búin að gera þig að heiðursfélaga og svo ekki sé minnst á allar sumarbústaðaferðirnar, bæði í Sjóvá-bústaðinn og í Þjórsárdalinn. Alltaf varst þú svo glaður, áhugasamur og góður. Það sem lýsir þér líklega best er hvernig þú, í síðustu ferðinni okkar í Þjórsárdalinn, hljópst á eftir yngstu gríslingunum upp og niður grasblettinn að leika hoho eða meme, svo hress og ungur í anda og svo ákveðinn að gleðja alla sem í kringum þig voru.

Það væri erfitt að finna betri fyrirmyndir í lífinu fyrir okkur barnabörnin en ykkur ömmu. Búin að vera gift í 63 ár, ala upp 3 börn og eignast hóp af barna- og barnabarnabörnum. Það voru forréttindi að eiga þig að afa og eiga minningarnar og sögurnar eftir að ylja okkur um hjartarætur um ókomna framtíð.

Elsku afi, við munum alltaf geyma þig í hjarta okkar og passa uppá litlu langafabörnin þín, Elmu Rún og Óliver Daða. Við munum segja þeim sögur af þér og passa uppá að þau gleymi engu og leyfa þeim að hjálpa þegar við gefum systkinum þeirra og litlum frændum og frænkum eina teskeið af kaffi líkt og þú gafst okkur öllum fyrsta kaffisopann.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Prestshólum)

Þín barnabörn

Jens Arnar, Heiða Björg og Rúnar Ingi.

Elsku afi.

Það eru margar yndislegar minningar sem ylja og hugga á þessum erfiða tíma því söknuðurinn er mikill.

Allar samverustundirnar sem við höfum átt saman. Fyrst í Rauðagerðinu og svo í Miðleitinu. Svo ekki sé minnst á allar sumarbústaðaferðirnar sem við fórum saman. Bústaðurinn með stóra græna hliðinu, gönguferðir í þúfum og rauðri möl, fallega sólarlagið og mýsnar sem við sáum skjótast á milli hola. Þú kenndir mér og gafst mér svo margt.

Frétta- og íþróttaáhugi þinn var engu líkur. Þú máttir ekki missa af einum einasta fréttatíma, varst svo vel að þér í öllum málum, hafðir sterkar skoðanir og varst hreinskilinn með þær. Það var alltaf gaman að spjalla við þig um lífið og tilveruna. Þú sýndir öllu því sem við vorum að gera mikinn áhuga og varst alltaf svo mikill þátttakandi. Þú spurðir iðulega út í hvernig mér gengi í kennslunni, hvað væri að frétta af vinkonum mínum og baðst fyrir góðar kveðjur.

Þegar ég fór á samkomu í Hörgshlíðinni á páskadag sl. var erfitt að sitja við hliðina á stólnum sem þú varst vanur að sitja í þegar ég kom til að spila á flautuna. Þar var enginn afi lengur. Þið amma voruð svo dyggir aðdáendur og styrktuð tónlistarnámið mitt alla tíð. Flautan mín og fallega statífið kom frá ykkur.

Eftir að ég eignaðist strákana mína endurtókstu alla afaleikina sem þú fórst í með okkur barnabörnunum þínum. Þeir fengu að fara á hoho afanum, þú purraðir á mallann þeirra og þú gafst þeim kaffi afanum sínum. Þegar þeir byrjuðu að spila fótbolta komstu að horfa á og fylgjast með þeim á mótum. Rétt áður en þú kvaddir sagðir þú Hilmari Trausta að þegar hann yrði sex mánaða fengi hann kaffi afanum sínum. Við höldum minningu þinni á lofti, elsku afi minn, og Hilmar fær sitt afakaffi á miðju sumri.

Elsku afi, ég veit að þú ert nú hjá Drottni vini þínum, ég sakna þín mikið.

Fyrir örfáum dögum þegar ég var svo sorgmædd fór amma, sem er svo sterk og dugleg, með huggunarljóð fyrir mig. Það snerti mig djúpt og læt ég það því fylgja hér.

Mér himneskt ljós í hjarta skín

í hvert sinn, er ég græt,

því drottinn telur tárin mín, –

ég trúi´ og huggast læt.

(Kristján Jónsson)

Þín

Margrét Lilja.