Bergsveinn Haralz Elíasson fæddist í Reykjavík 21. september 1958. Hann lést á heimili sínu 19. apríl 2014.

Foreldrar hans eru Ragnhildur Guðrún Bergsveinsdóttir, f. á Gimli í Ólafsvík 13. apríl 1931 og Jóhannes Elías Baldvinsson, f. á Litla-Árskógssandi í Eyjafirði 27. nóvember 1922, d. 2011. Þau skildu 1964. Systkini Bergsveins eru Baldvin Elíasson, f. 1952 og Magdalena Elíasdóttir Coakley, f. 1954, d. 2000. Maki Magdalenu var Dennis Charles Coakley og þeirra börn eru Georg Christopher Coakley, f. 1977, eiginkona Kiaran Zaina Khan Coakley og barn Eli Noah Coakley, f. 2011, Atli Heimir Coakley, f. 1981 og Ellen Grace Coakley, f. 1991.

Útför Bergsveins fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 2. apríl 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Ljúfur drengur er kallaður heim löngu áður en kvölda tekur í lífi manns, nánast á miðjum degi. Einstaklega samhent fjölskylda, sem áður mátti færa dýra fórn þegar dóttirin var kölluð frá þremur ungum börnum í fjarlægu landi, fær nú aftur að takast á við örlögin.

Snemma þurfti móðirin að takast ein á við lífið og framfærslu þriggja ungra barna sinna. Með dugnaði og ósérhlífni tókst henni að komast frá kröppum dansi við lífið og tilveruna þegar leiðir hjóna skildi, og koma sér upp eigin ranni og öryggi fyrir börnin sín, enda mikil móðir á ferð, sem fórnaði öllu fyrir ungana sína.

Við þessar aðstæður efldust fjölskylduböndin og styrktust og nándin varð mikil. Bergsveinn var yngsta barnið, blíður og dagfarsprúður mömmustrákur í æsku, sem horfði með stórum augum á lífið og trúði á hið góða í veröldinni.

Bernskuárin líðu, skólaganga og unglingsárin tóku við og vandi að velja sér svið, rafeindavirkjun og tækni heilluðu hann, en framhaldsnámi var skotið á frest. Hann gegndi ýmsum störfum en lengst vann hann að silfursmíði enda dverghagur í fínvinnu hins eðla málms.

Við fráfall systurinnar dró ský fyrir sólu í lífi litlu fjölskyldunnar, og afkomendur hennar sem yljuðu og vermdu hjörtun vaxa nú upp fjarri ömmu og frændum, en tölvusamband og heimsóknir eru vegur yfir. Vegir skilja um sinn, þökk fyrir samveruna og góða heimkomu frændi, á Guðs þíns fund.

Hreinn Bergsveinsson og fjölskylda.

Elsku Bessi frændi minn.

Langaði aðeins að minnast þín eins og ég þekkti þig. Þú varst yngstur af þremur börnum hennar Ragnhildar systur mömmu. Elstur var Baddi, síðan Mallý og þú. Alltaf varstu snyrtilega til fara, rólegur og hlédrægur. Kannski var minningin um þig ólík sögunum sem ég heyrði af þér þegar þú varst lítill eða sögum eins og litlir strákar eru oft. Sagan af blómapottinum hennar mömmu var sérstaklega eftirminnileg. Svo seinna, þegar þið Ásgeir urðuð eldri, þá man ég eftir að þið gerðuð eitt og annað gaman saman, stundum var það frekar ævintýralegt, lífið framundan og margt ókannað. Brosi út í annað með tárin í augunum þegar ég rifja upp nokkrar af þessum sögum, gaman af því. Þú varst einstaklega handlaginn, gerðir við tæki og tól, vannst eitt sinn við viðgerðir á hjólum og var ég svo heppin að þú lagaðir hjólið mitt af og til og síðast kíktir þú á hjólin okkar Gísla. Þú vannst lengi sem silfursmiður á verkstæði fjölskyldu minnar í Ernu ehf. Minnist þess vel þegar verið var að ræða tíðarandann þar, vissi ég að þú hafðir miklar skoðanir á hlutunum og fylgdist mjög vel með öllu, þó þú værir ekki endilega að láta skoðanir þínar í ljós, en það kom þó fyrir. Eins fylgdist þú með fjölskyldu okkar systkina og minnist ég þess hvað þú varst ánægður eftir skírn yngri dóttur minnar þar sem hún fékk sama millinafn og mitt en mér þótti vænt um að heyra það. Eitt sinn vorum við í slíperíinu á verkstæðinu og ekkert heyrðist nema í mótornum í slípirokknum. Ég sagði við þig hvað mér fyndist Mallý systir þín falleg og þú lifnaðir allur við og tókst undir það. Hún var stolt ykkar fjölskyldu, Ragnhildar móður þinnar, Badda og þín, auk barna hennar, þeirra Georgs, Atla og Ellenar. Það var því mikið áfall þegar hún varð bráðkvödd langt um aldur fram, hennar er sárt saknað. Ég á erfitt með að hugsa til enda missinn hjá móður þinni og bróður þegar þú varðst svo bráðkvaddur á heimili þínu á besta aldri.

Elsku Bessi minn, ég kveð þig að sinni, blessuð sé minning þín.

Elsku Ragnhildur, Baddi, Georg og fjölskylda, Atli og Ellen, ég og fjölskylda mín vottum ykkur okkar dýpstu samúð, við hugsum til ykkar, megi guð styrkja ykkur í þessari miklu sorg.

Ragnhildur Sif Reynisdóttir.