Fjölmargir lesendur Fróðleiksmolanna hafa haft samband og bent á margt, sem ýmist mátti betur fara eða hafa mætti í huga, og kann ég þeim hinar bestu þakkir. Hér ætla ég að leggja út af einni athugasemdinni, eftir Unu Margréti Jónsdóttur.

Fjölmargir lesendur Fróðleiksmolanna hafa haft samband og bent á margt, sem ýmist mátti betur fara eða hafa mætti í huga, og kann ég þeim hinar bestu þakkir. Hér ætla ég að leggja út af einni athugasemdinni, eftir Unu Margréti Jónsdóttur. Hún er dóttir Jóns Óskars, sem fór í fræga boðsferð til Ráðstjórnarríkjanna 1956 ásamt þeim Steini Steinari og Agnari Þórðarsyni. Benti Una Margrét á, að faðir sinn hefði gagnrýnt stjórnarfar þar eystra í bók sinni, Páfinn situr enn í Róm .

Jón Óskar gerði það svo sannarlega. Hann gaf bókina út hjá Almenna bókafélaginu vorið 1964. Svo vildi til, að hann fékk 18 þúsund króna listamannalaun, um svipað leyti og bókin kom út. Orti þá Þorsteinn frá Hamri háðkvæði í Þjóðviljann :

Sem ég á blíðum beði

bílífis vaknaðe

úthlutun einnig léði

átján þúsund í té

Jóni þeim sama, sama,

er svalt um árabil.

Heita þeir honum frama —?

Hví er rokið til —?

Þorsteinn taldi svarið við spurningu sinni liggja í augum uppi. Það væri „sérlegt ferðastjá“ Jóns Óskars. Eflaust hefur þetta kvæði Þorsteins ekki spillt fyrir því, að hann var sjálfur boðinn til Ráðstjórnarríkjanna ári síðar og þáði boðið. Skylt er þó að geta þess, að Þorsteinn iðraðist síðar kvæðisins.

Einn rithöfundur sósíalista, Friðjón Stefánsson, kvaddi sér hljóðs á fundi í Rithöfundafélagi Íslands um þær mundir, kvartaði undan úthlutun listamannalauna og vék að Jóni Óskari: „En nú hafði komið út ferðabók eftir hann, þar sem í er að finna nokkuð af óhróðri um sósíölsk ríki, Sovétríkin, í Morgunblaðsstíl. Og eins og við manninn mælt: Hann skal upp í 18 þúsund króna flokk.“ Jón úr Vör hélt að vísu uppi vörnum fyrir skáldbróður sinn á fundinum, en í endurminningum sínum sagði Jón Óskar, að eftir þetta hefði Þjóðviljinn snúist gegn sér og sósíalistar hætt að heilsa sér á förnum vegi.

Íslenskir sósíalistar sáu til þess, að það kostaði að ganga úr liði og neita að bera lof á ráðstjórnina rússnesku.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is