Árið 1982 kom út í íslenskri þýðingu Hersteins Pálssonar skáldsagan Óhæft til birtingar eftir blaðamennina Arnaud de Borchgrave og Robert Moss. Á ensku nefndist hún The Spike .

Árið 1982 kom út í íslenskri þýðingu Hersteins Pálssonar skáldsagan Óhæft til birtingar eftir blaðamennina Arnaud de Borchgrave og Robert Moss. Á ensku nefndist hún The Spike . Hún var um tök rússnesku leyniþjónustunnar KGB á ýmsum vestrænum blaðamönnum, sem birtu ekki fréttir óþægilegar Kremlverjum.

Leiðir það hugann að tvennum frægum ummælum, sem ég hef stundum vitnað í. Önnur eru eftir dr. Björn Sigfússon háskólabókavörð, sem sagði í formála Ljósvíkinga sögu : „Þögnin er fróðleg, þó að henni megi ekki treysta um hvert einstakt atriði.“ Hin er eftir Arthur Conan Doyle, höfund leynilögreglusagnanna um Sherlock Holmes. Gregory lögreglufulltrúi segir eitt sinn í sakleysi sínu: „Hundurinn gerði ekkert sérstakt þá nótt.“ Holmes svarar að bragði: „Það er líka einmitt það skrýtna við þetta.“

Í svipuðum anda var mælt um æsifréttablað, sem Agnar Bogason gaf út áratugum saman í Reykjavík, Mánudagsblaðið , að það, sem birtist þar, væri venjulega miklu síður forvitnilegt en hitt, sem ekki birtist þar. Efnamenn, sem kærðu sig ekki um blaðaskrif, greiddu Agnari að sögn stórfé fyrir að þegja, jafnvel þótt eitthvað væri bitastætt að segja.

Því minnist ég á þetta, að á Amazon.com er til heimasíða um bók, sem koma átti út 4. febrúar 2008 hjá John Blake Publishing í Lundúnum. Hún var eftir bresku blaðamennina Jonathan Edwards og Ian Griffiths, hét The Ice Man Cometh (með augljósri tilvísun í leikrit O'Neills) og var um engan annan en Jón Ásgeir Jóhannesson. Löng lýsing er á síðunni á efni bókarinnar. Átti hún að vera um uppgang og umsvif Jóns Ásgeirs á Íslandi og í Bretlandi, ýmis hneyksli tengd honum og lögreglurannsóknina á fjármálum hans. Í mars 2007 hitti ég höfundana tvo stuttlega að þeirra ósk á Vínbarnum við Kirkjustræti, en þeir voru þá staddir hér á landi í efnisleit. Þeir voru skrafhreifnir, vingjarnlegir og vínhneigðir hrappar, eins og vefarar út úr ævintýri eftir H.C. Andersen. En hvað skyldi hafa orðið um bókina, sem þeir skrifuðu? Reyndist hún óhæf til birtingar? Og hver skyldi hafa ákveðið það?

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H.

Gissurarson

hannesgi@hi.is