13. maí 2014 | Minningargreinar | 6205 orð | 1 mynd

Helgi Biering Daníelsson

Helgi Daníelsson var fæddur á Akranesi 16. apríl 1933. Hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 1. maí 2014.

Foreldrar Helga voru Daníel Þjóðbjörnsson, f. 13.7. 1897, á Læk í Leirársveit, d. 6.10. 1945, múrarameistari á Akranesi, og s.k.h. Sesselja Guðlaug Helgadóttir, f. 7.5. 1908 í Hrísey, d. 17.1. 1996, húsmóðir.

Hálfbræður Helga samfeðra eru Kristfinnur Björgvin, f. 8.10 1920, d. 10.12. 1938, Árni Örvar f. 20.6. 1922, d. 28.9. 1985, verkstjóri á Akranesi; Friðþjófur Arnar, f. 11.11. 1923, d. 5.6. 1947, trésmiður á Akranesi; Viðar Guðbjörn, f. 3.6. 1925, d. 21.7. 1992, múrarameistari í Reykjavík.

Alsystkini Helga eru Bára, f. 18.2. 1935, d. 26.8. 1975, bókavörður á Akranesi; Björgvin, f. 14.5. 1938, prentari í Reykjavík; Hafdís, f. 4.9. 1941, bókavörður á Akranesi; Hlín, f. 1.4. 1944, kennari í Reykjavík.

Helgi kvæntist 19.9. 1953 Steindóru Sigríði Steinsdóttur, f. 18.7. 1934, verslunarmanni. Hún er dóttir Steins Jónssonar, f. 24.7. 1902, d. 20.7. 1973, vélstjóra, og k.h. Steindóru Albertsdóttur, f. 31.7. 1903, d. 6.2. 1980, húsmóður.

Börn Helga og Steindóru eru Friðþjófur Arnar, f. 27.2. 1953, ljósmyndari og kvikmyndatökumaður, kvæntur Guðfinnu Steinunni Svavarsdóttur jógakennara og eiga þau tvö börn og fimm barnabörn. Steinn Mar, f. 18.2. 1954, trésmíðameistari og kennari, kvæntur Elínu Klöru Svavarsdóttur og eiga þau fimm börn og 9 barnabörn. Helgi Valur, f. 22.6. 1956, starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sambýliskona hans er Erla Skarphéðinsdóttir leikskólakennari og eiga þau eina dóttur saman, auk þess á Helgi eina dóttur úr fyrri sambúð og Erla á tvö börn úr fyrra hjónabandi.

Ævistarf Helga var við löggæslu en hans helstu áhugamál voru knattspyrna auk ljósmyndunar. Helgi varð þjóðþekktur sem landsliðsmarkvörður í knattspyrnu árin 1951 til 1965 og lék 25 landsleiki. Hann var auk þess aðalmarkmaður gullaldarliðs ÍA og sem slíkur Íslandsmeistari þrisvar sinnum ásamt félögum sínum. Hann lék einnig með Val. Helgi lærði prentiðn og starfaði eftir það um tíma hjá Ísafoldarprentsmiðju. Hann vann hjá Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi en varð lögreglumaður og síðar lögregluvarðstjóri á Akranesi. Hann var síðan ráðinn sem rannsóknarlögreglumaður hjá Sakadómi Reykjavíkur árið 1972 og síðar lögreglufulltrúi hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins og yfirlögregluþjónn. Helgi var virkur í félagsmálum, meðal annars fyrir Alþýðuflokkinn á Akranesi og í Vesturlandskjördæmi og síðast dyggur stuðningsmaður Samfylkingarinnar. Helgi starfaði mikið að íþróttamálum á Akranesi sem stjórnarmaður og um tíma formaður Knattspyrnusambands Íslands. Helga hefur verið sýndur sómi á ýmsum vettvangi og m.a. fengið viðurkenningar fyrir störf sín að íþróttamálum. Helgi skrifaði mikið í staðarblöð og dagblöð um íþróttir og þjóðmál. Eftir starfslok í lögreglunni gaf hann sig enn meira að ljósmyndun sem var um áratugaskeið áhugamál hans. Þannig hefur Helgi Daníelsson átt drjúgan þátt í skráningu samtímasögu Akurnesinga með ljósmyndun sinni. Helgi gaf út einnig út nokkrar bækur, meðal annars um ættfræði, sögu og mannlíf Grímseyjar þaðan sem hann var ættaður.

Útför Helga verður gerð frá Akraneskirkju í dag, 13. maí 2014, klukkan 14.

Það er hásumar og ég stend úti á horni á Reynigrundinni, átta ára gamall, að bíða eftir ömmu og afa sem voru nýkomin frá Skotlandi. Afi hafði sagst ætla að kaupa handa mér golfsett og ég beið að því er virtist heilan dag á horninu. Loksins birtust þau og afi dró fram John Letters kylfur í svörtum poka og ég varð alsæll. Upp frá því spilaði ég mikið golf með ömmu og afa. Við spiluðum oftast á Nesvellinum eða á Korpúlfsstöðum en afi var á þeim tíma í báðum klúbbunum enda gífurleg félagsvera sem mátti varla vita af félagi án þess að ganga í það. En það var ekki bara á golfvellinum sem ég þvældist um með afa. Hann virtist alltaf nenna að hafa mig í eftirdragi og við félagarnir fórum víða. Við keyrðum um borgina og skoðuðum svæði þar sem til stóð að byggja golfvelli og ég fór með honum í vinnuna og hafði gaman af. Hann fór líka með mig til Akureyrar þar sem ég spilaði á mínu fyrsta Íslandsmóti í golfi, með afa á hliðarlínunni. Hvert sem við komum þekktu allir afa og afi þekkti alla. Þetta voru frábærir tímar. Ég gat setið allan daginn og hlustað á afa segja sögur, ýmist hetjusögur af sjálfum sér í fótboltanum í gamla daga, eða sögur af fólki sem hann hafði haft afskipti af sem lögreglumaður. Oftast enduðu sögurnar af smákrimmunum þannig að málin leystust svo farsællega að á milli afbrotamannanna og afa myndaðist ævilöng vinátta. Hvort sem það var satt eða ekki skipti engu máli.

Afi var einstakur maður og það var gott að eiga hann og ömmu að. Hann fylgdi allri fjölskyldunni vel eftir og lagði sig mikið fram um að vera þátttakandi í lífi okkar fram á síðasta dag.

Það er með miklum söknuði sem ég kveð afa minn en ég er jafnframt fullur þakklætis fyrir allt sem hann hefur gefið mér og mínum með nærveru sinni.

Takk, nafni, fyrir allt.

Helgi Dan Steinsson.

Afi Helgi var alltaf til staðar fyrir okkur, alltaf með puttann á púlsinum. Hann vissi alveg upp á hár hvað var að gerast í lífinu hjá öllum í fjölskyldunni, ekki bara vegna þess að hann var afi okkar heldur vegna þess að hann hafði einlægan áhuga á því sem við vorum að gera. Við vorum alltaf velkomnar á heimili þeirra ömmu, alveg sama þótt það væri með nánast engum fyrirvara með heilt fótboltalið með okkur eða einar með litla tösku og sólgleraugu í margra daga sumarfrí til þeirra í Reykjavík. Það var alltaf jafn gaman þegar maður fékk að gista í Fellsmúlanum, þar taldi afi á okkur tær og fingur og endaði yfirleitt á að telja okkur trú um að við værum með að minnsta kosti 13 tær og 12 putta. Það var mikið hlegið með afa Helga og hann var mikill og góður sögumaður, yfirleitt voru sögurnar af honum sjálfum og hann hló alltaf manna hæst með sínum smitandi hlátri. Eins og hann var nú stoltur af okkur öllum og ánægður með knattspyrnuáhuga og afrek okkar systra þá minnti hann okkur alltaf reglulega á að við ættum að vera sætar, með sítt hár og á háum hælum, þá hafði hann alltaf orð á því ef eitthvað misfórst í fatavali hjá okkur enda smekkmaður mikill. Það var nánast alveg sama hvar á landinu maður var, þar var alltaf einhver sem maður hitti sem þekkti afa: „Já ertu barnabarn Helga Dan!?“ var eitthvað sem við heyrðum oftar en einu sinni og allir höfðu bara gott af honum að segja, enda náði hann til allra með hjálpsemi og góðlæti sínu. Með myndavélina að vopni mætti hann á alla merkisviðburði í okkar lífi, fótboltaleiki, fermingar, giftingar og fleira, allt okkar var vel skrásett af afa. Þó hann hafi afrekað margt í sínu lífi hafði hann oft orð á því að hans stærsta afrek værum við fjölskyldan, hann var svo glaður með hvað við værum öll hjálpsöm, góð, heilbrigð og vel gerð, við áttum ekki langt að sækja það enda öll af honum og ömmu komin. Maður lærir það sem fyrir manni er haft.

Elsku afi Helgi, takk fyrir samveruna, mikið var gaman að fá að vera með þér. Þínar

Steindóra, Íris, Helena og Marella Steinsdætur.

Það var í landsliðsferð eldri golfara til Frakklands sem kynni mín við Helga Daníelsson hófust. Við áttum þar góða samferð og tókust góð kynni sem staðið hafa síðan.

Það var sérstaklega gaman og fróðlegt að tala við Helga um allt sem sneri að golfi. Það brást ekki að afloknum hverjum keppnisdegi í áðurnefndri ferð, að Helgi var við lokaflötina með myndavél og fullur af áhuga fyrir gengi manna þann daginn.

Nokkru seinna þegar ég tók við sem formaður LEK urðu kynni okkar enn nánari og var ómetanlegt að hafa Helga með í þeim góða hópi sem skipaði stjórnina.

Helgi var alltaf tilbúinn að leggja sitt að mörkum af ómældri vinnu og hugkvæmni í þágu samtakanna. Hann lagði mikla vinnu í hvort sem var að gefa út mótaskrá LEK eða útvega verðlaun og annað fyrir samtökin. Við í stjórn LEK nutum þess í mörgu hvað Helgi var víða vel kynntur og vinsæll.

Hann stóð meðal annars fyrir og átti hugmyndina að Golfgleði LEK sem var vel heppnuð og vinsæl uppskeruhátíð LEK og var haldin hvert haust.

Helgi var einnig mjög góður myndasmiður. Til er mikið myndasafn eftir hann, og meðal annars mikið úr starfi LEK sem vissulega er ómetanlegt.

Í minni formannstíð leitaði ég oft til hans um upplýsingar og aðstoð. Helgi var einn af þeim mönnum sem voru svo einstaklega bóngóðir að það var beinlínis gott að biðja hann um aðstoð. Hann var líka sérlega ötull við allt það sem hann tók að sér, og ég gat vitað að þau atriði voru í góðum höndum.

Helgi var á margan hátt einstakur sögumaður og gat haldið þeim sem á hlýddu föngnum með fróðleik, krydduðum skondnu ívafi og glöggu innsæi hvort sem hann sagði frá atburðum úr starfi LEK eða af sinni vegferð í lífinu.

Kæri Helgi, ég þakka þér góða samferð og ríkan velvilja í okkar samskiptum, það var sama hvar við hittumst, á fundum eða heima hjá þér uppi á Skaga, alltaf varstu vökull og fullur af áhuga fyrir að láta gott af þér leiða, Sú samferð skilur eftir hjá mér minningar um góðan dreng.

Ég sendi ástvinum Helga innilegar samúðarkveðjur.

Henry Þór Granz.

Heiðursmaðurinn Helgi Daníelsson, f.v. yfirlögregluþjónn, lauk jarðvist sinni 1. maí sl. eftir baráttu við erfiðan sjúkdóm. Helgi var sérlega mörgum hæfileikum gæddur. Framúrskarandi á ýmsum sviðum. Einn besti markvörður sem Ísland hefur eignast í knattspyrnu, frábær og einstaklega hæfur og afkastamikill ljósmyndari, með næmt auga fyrir því hvað væri varðveislu vert á filmu. Hann skilur eftir sig mikinn menningararf í þeim gífurlega fjölda ljósmynda sem hann tók á langri vegferð sinni. Held að hann hafi helst aldrei skilið myndavélina við sig. Auk þess liggur mikið eftir hann af rituðu máli, en hann var með sérlega næmt auga fyrir því sem fréttnæmt var meðal vor, í dagsins önn. Hann var auk þess mikill húmoristi, sagði skemmtilega frá, og naut þess að spjalla og ræða málin í góðum hópi. Árum saman kom hann þegar tíminn leyfði, flesta morgna á bensínstöð Skeljungs, sem síðar hlaut nafnið Stöðin, og hitti okkur þar fyrir, allmarga karla sem höfum hist þar, sumir jafnvel áratugum saman í morgunkaffi, og krufið dægurmálin til mergjar, af einurð, skipst ótæpilega á skoðunum, og ekki alltaf verið sammála, en skilist sáttir. Fótbolti og pólitík oft á dagskrá. Við kölluðum okkur „Spjallverja“, en líka „Öldungaráðið“. Helgi var virkur í þessum félagsskap eins og öðrum málefnum sem hann kom að, og tók þátt í, enda félagsmálamaður af lífi og sál. Hann átti þátt í því að við gáfum Stöðinni stóra og glæsilega loftmynd af Akranesi sem tekin var af Friðþjófi syni hans. Þessi mynd prýðir nú vegginn fyrir ofan kaffiborðið þar sem morgunfundir okkar „Spjallverja“, fóru fram, og gera enn, þó að nú sé einn horfinn úr hópnum. Og er hans sárt saknað af okkur sem eftir sitjum. Það var alltaf líf og fjör í kringum Helga þegar hann var mættur á svæðið, aldrei nein lognmolla, hann hafði sínar skoðanir, og stóð við þær. Arsenal var hans lið í enska boltanum, en hér heima áttu Kári, ÍA og Valur hug hans allan. Kynni mín af Helga spönnuðu tugi ára, þau voru góð, enda maðurinn drengur góður, heiðarlegur og orðheldinn. Hann var sanngjarn í garð náungans, og hikaði ekki við að biðja afsökunar, fyndist honum ástæða til. Ég held að hann hafi ekki átt neina óvildarmenn, og farið héðan sáttur við Guð og menn. Hugsa ég þá til samtals okkar, þess síðasta sem við áttum, skömmu fyrir vistaskiptin. Fyrir mína hönd og annarra „Spjallverja“ á Stöðinni á Skaganum, þakka ég fyrir samveruna og allar ánægjustundirnar. Far þú í friði, vinur, minning þín lifir.

Stefán Lárus Pálsson.

Félagi til margra ára er fallinn frá. Kynni okkar Helga hófust fyrir rúmlega tuttugu árum og var það sameiginlegt áhugamál okkar, golfið, sem kynnti okkur. Svo vildi til að við lentum í nánu samstarfi í stjórn LEK, Landsamtaka eldri kylfinga. Fyrst í stjórn undir formennsku Tómasar Árnasonar fv. ráðherra og hafði Helgi með upplýsingamál samtakanna að gera auk útgáfu fréttabréfs og mótabókar. Fleira var á könnu Helga s.s. umbrot mótabókar, auglýsingamál og myndvinnsla hvers konar sem hann kom ávallt smekklega og vel til skila. Helgi hafði í sér fréttamannshæfileika og var einnig ljósmyndari góður og tengist það m.a. langri sögu LEK og veit ég til þess að hann ánafnaði samtökunum nokkrum ljósmyndamöppum sem fróðlegar eru og styrkja sögu LEK. Árið 1995 er ég kjörinn forseti samtakanna og svo heppinn var ég að fá Helga í stjórnina og treystust vináttubönd okkar enn frekar. Ég taldi mig og samtökin farsæl að hann skyldi annast mótabókina ásamt öðrum trúnaðarstörfum og get ég því ekki látið hjá líða að láta þessa getið, svo mikilsverð voru störf hans fyrir samtökin.

Fyrir utan félagsstörfin áttum við notalegar og skemmtilegar stundir saman og naut ég oft gestrisni þeirra hjóna. Helgi hafði góðan húmor og glöggt auga fyrir samferðamönnum sínum. Félagshyggjumaður og jafnaðarmaður var hann, trúr og traustur sínum hugsjónum. Ekki vissi ég um erfið veikindi sem plöguðu hann og ekki var hann kvartsár. Fyrir nokkrum árum gengu þung áföll yfir þau hjónin er eiginkona Helga missti heilsuna og hann greindist með þann sjúkdóm sem nú hefur lagt hann að velli eftir erfiða baráttu. Samt var það svo að ekki kvartaði hann er ég heimsótti hann uppá Akranes síðastliðið haust og var ekki að sjá að þessi tíðindi væru svo skammt undan sem raun ber vitni.

Ég þakka forsjóninni fyrir að hafa átt þess kost að kynnast Helga Daníelssyni. Ég votta konu hans, börnum og nánustu ættingjum samúð mína.

Ásgeir Nikulásson.

Fallinn er öflugur forystumaður, vinur og liðsfélagi, Helgi Daníelsson. Markmaðurinn sem átti það til að flauta eða syngja lagstúf fyrir sóknarmenn andstæðinganna. Félagsmálamaðurinn með óþrjótandi hugmyndir og áræði. Lífskúnstnerinn, sem fangaði augnablikið með myndavélinni sinni þannig að kynslóðir gætu horft inn um glugga liðinnar tíðar. Helgi Dan., maðurinn sem skilaði einstöku ævistarfi á lífsgöngu, sem er umvafin mannúð, velvilja og hlýju. Hann skilur eftir sig góðar minningar og vini.

Samfélagið á Akranesi var heppið að njóta krafta Helga Dan. Hann var einn liðsmanna Gullaldarliðs Skagamanna, sem ævintýraljómi leikur um. Að keppni lokinni eftir 166 leiki með ÍA, fjölda leikja með Val og 25 landsleiki fyrir Íslands hönd tók við þjálfun auk starfa fyrir ÍA og KSÍ. Þar dró hann hvergi af sér og nálgaðist öll verkefni af ríkum vilja og starfsgleði. Helgi Dan. kom víðar við í íþróttahreyfingunni, m.a. Íþróttabandalagi Akraness, Sundfélagi Akraness og Golfklúbbnum Leyni, en hann var heiðursfélagi Knattspyrnufélags ÍA og Knattspyrnufélagsins Kára. Það er endalaus upptalning verkefna, sem Helgi Dan. kom að, en í starfi sínu sem lögreglumaður og íbúi á Akranesi hafði hann ætíð að leiðarljósi velferð og virðingu þeirra sem hann átti samskipti við, enda skín björt sól á alla vegferð hans og ævistarf.

Helgi Dan. var umfram allt samfélagsmaður, sem í bjó römm taug til Akraness, þar sem hann fæddist og bjó lengst af ævinni. Hann velti því ef til vill ekki fyrir sér hverju það myndi skila þegar hann hóf að taka ljósmyndir af ýmsum viðburðum, fólki og samfélaginu á Akranesi fyrir margt löngu. Það skilaði hins vegar ótrúlegu safni og heimildum fyrir samfélagið á Akranesi og varð hryggurinn í stofnun Ljósmyndasafns Akraness árið 2003, en við stofnun þess gaf Helgi Dan. til safnsins myndir sem hann hafði tekið í gegnum tíðina. Þar mun arfleifð hans m.a. lifa um ókomin ár. Helgi Dan. hafði meðfæddan skilning um gildi þess að halda til haga munum og gögnum ýmiss konar starfsemi og ófáa gripina og fundargerðarbækur tók hann til handargagns og kom á rétta staði til þess að forða frá glötun. Hann var í raun bjargvættur og velgjörðarmaður samfélagsverkefna, en hugsaði minnst um upphefð eða eigin hag.

Þær eru margar stundirnar og sögurnar sem við minnumst þegar þessum góða manni er send hinsta kveðja. Síðustu misserin hittumst við í góðum hópi getraunaspekinga og þar nutum við frásagna Helga og sagnagleði. Hans verður sárt saknað, en við leiðarlok eru það fallegar minningar, þakklæti fyrir samferðina og vináttan sem er í öndvegi. Við fráfall Helga Dan. er höggvið skarð í vinahópinn, en þær hlýju kveðjur sem berast víða að segja allt um hvern mann Helgi hafði að geyma. Vináttu hans, vilja og áræði munum við varðveita með okkur og minnast um ókomin ár.

Fjölskyldu Helga og eftirlifandi eiginkonu, Steindóru Steinsdóttur, sendum við innilegustu samúðarkveðjur með þökk fyrir að hafa fengið að njóta vináttu þessa höfðingja sem nú er fallinn.

Magnús Guðmundsson, formaður Knattspyrnufélags ÍA, Gísli Gíslason, fyrrverandi formaður Knattspyrnufélags ÍA, Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi formaður Knattspyrnufélags ÍA, Jón Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Knattspyrnufélags ÍA, Haraldur Sturlaugsson, fyrrverandi formaður Knattspyrnuráðs ÍA, Hörður Helgason, fyrrverandi formaður Knattspyrnufélags ÍA.

Helgi Dan. var sjarmör, glæsilegur á velli, glettinn, ræðinn, forvitinn um menn, málefni og vel íþróttum búinn. Hann bar jafnan myndavél um hálsinn og Skagamenn eiga honum að þakka þúsundir minninga og viðburða sem varðveist hafa á prenti og í myndum vegna vakandi áhuga hans og eljusemi. Ekki fékk hann laun fyrir, heldur var þetta miklu fremur hugsjón og einlægur áhugi fyrir lífinu og tilverunni og hann var einstaklega bóngóður, vildi allra vanda leysa. – Léttleikinn var einstakur, hann var allt í öllu á Skaganum, blaðamennsku, íþróttaþjálfun og hvers konar félagsmálum. Hann var alla tíð einlægur jafnaðarmaður og vann mikið starf í þeirra þágu, stappaði ávallt stálinu í þá, eins og aðra, og sagði þeim líka til syndanna. Þannig var Helgi, félagsmálamaður af bestu gerð.

Hann setti sterkan svip á Akranes og var mjög umhugað um vöxt og viðgang bæjarins. – Það var auðvelt að láta sér þykja vænt um Helga.

Mér eru ógleymanleg fyrstu kynni mín af honum sem síðan urðu lýsandi fyrir framhaldið. Ég var tíu ára uppburðarlítill og feiminn strákur en með brennandi áhuga á að æfa fótbolta. Titrandi á beinunum fór ég upp í gamla íþróttahúsið við Laugarbraut í von um að fá að æfa með liðinu. – Loksins þegar ég hafði í mér burði til að knýja dyra, á hurð sem mér fannst ógnarstór, opnaði ekki nema Helgi fyrir mér, þessi frægasti markmaður Skagamanna fyrr og síðar, og bauð mig innilega velkominn og gleðin og gáskinn í fari hans ruddu öllum hindrunum úr vegi! Ég hef aldrei getað fullþakkað honum móttökurnar, því lengi býr að fyrstu gerð.

Við strákarnir sáum ekki sólina fyrir honum og engan annan markmann, fyrr né síðar, hef ég heyrt syngja hástöfum í alvöruleikjum. Það glumdi úr markinu og upp í stúkuna í Laugardal, þegar Helgi söng Þórsmerkurljóðið um hana Maríu, Maríu. Þetta kom mótherjunum algerlega í opna skjöldu og kom þeim oft út af sporinu þegar þeir reyndu að skora hjá söngvaranum.

Myndir og saga voru Helga ástríða, jafnvel má líkja því við köllun. Það voru forréttindi að kynnast óeigingirni hans og krafti þegar hugsjónir hans voru annars vegar. Allt fram til þess síðasta var Helgi að skrá og mynda íþróttasöguna á Akranesi. Víða má sjá afrakstur af eljusemi hans, en segja má að íþróttamiðstöð okkar Skagamanna á Jaðarsbökkum sé betrekkt með myndum úr hans smiðju.

Akurnesingar eiga honum mikið að þakka, nokkuð sem aldrei verður goldið með neinum hætti, nema að halda minningu hans hátt á lofti.

Við Ingibjörg höfum átt margar ánægjustundir með honum síðastliðin ár þar sem hann hefur dælt í okkur sögum og myndum, en fyrst og fremst erum við þakklát fyrir vináttuna sem hann sýndi frá fyrstu tíð.

Við vottum Steindóru og aðstandendum öllum okkar dýpstu samúð.

Haraldur

Sturlaugsson.

Vinur minn Helgi Daníelsson er allur. Að honum er mikil eftirsjá. Helgi var yndislegur maður, hreinskiptinn, glaðvær og góðviljaður. Hann kom jafnan til dyranna eins og hann var klæddur, lá ekki á skoðunum sínum og mátti aldrei aumt sjá. Þar að auki var hann allra karla skemmtilegastur með sögum sínum og einlægum hlátri.

Öll íslenska þjóðin þekkti Helga Dan., markmanninn fræga með Akranesi í fótbolta. Raunar lék hann með Val á sínum fyrstu árum sem keppnismaður í meistaraflokki, meðan hann var að læra prentiðn í Reykjavík, en lengst af lék hann með sínum heimamönnum af Skaganum. Þar var hann flottur, bæði í markvörslunni og tauinu. Hann var sjálfskipaður í landslið Íslendinga í fjöldamörg ár og var erfiður hjalli til að yfirstíga fyrir okkur hina, sem ekki voru með honum í liði. Hann gerði meira en að verja frá okkur, því hann átti það til að taka lagið í bókstaflegum skilningi, svo heyra mátti um allan völl. Það var völlur á karli og brosið breitt og þannig kom hann mér alltaf fyrir sjónir, seinna þegar leiðir okkar lágu saman á öðrum vettvangi. Við Helgi sátum saman í stjórn Knattspyrnusambandsins um árabil og mikið var það skemmtilegur tími. Helgi með sögur, Helgi með hlátur og Helgi með skoðanir.

Það er svona fólk sem maður vill eiga samleið með, fólk sem tekst á við lífið, mótbyrinn og erfiðleikana af einurð, áræði og lífsgleði. Og gefur af sér.

Við Helgi Dan. áttum mörg ár saman í vináttu og starfi. Enda var hann félagsmálatröll og var alls staðar kosinn til forystu og stjórnarsetu, hvort heldur í atvinnu sinni, lögreglunni, íþróttamálum eða þar sem hann á annað borð lagði hönd á plóginn. Hann var vinur vina sinna og honum var annt um Steindóru konu sína og strákana, sem þau áttu. Þar var honum rétt lýst í hjálpsemi og tröllatryggð. Ég hugsa til Steindóru, því ég veit hvað mikið hún hefur misst. Nú er bakhjarlinn farinn.

Minning Helga Daníelssonar mun varðveitast meðal okkar sem kynntust honum, í þeim sterka og góða persónuleika sem geislaði af honum. Hún mun lifa, þótt Helgi sé farinn.

Takk fyrir samferðina.

Ellert B. Schram.

Nú er fallinn frá Helgi Dan. samstarfsfélagi og vinur okkar til margra ára. Þrátt fyrir að hann hafi glímt við veikindi að undanförnu kom fráfall hans okkur á óvart og hefðum við svo gjarna viljað eiga stundir með honum lengur.

Helgi varð snemma þjóðþekktur afreksíþróttamaður sem markvörður með ÍA á Akranesi, Val og á annan áratug landsliðsmarkvörður í knattspyrnu. Eftir farsælan íþróttaferil hóf hann störf hjá lögreglunni, fyrst á Akranesi en 1972 hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík og síðar rannsóknarlögreglu ríkisins. Hjá rannsóknarlögreglunni var honum fljótlega falið að annast um rannsókn og meðferð afbrota barna og ungmenna. Því starfi sinnti Helgi af miklum eldmóði og svo mikilli óeigingirni að eftir var tekið og hann varð fljótlega landsþekktur af þeim störfum einnig. Helgi leit þannig á að það væri vegna óhappa og tilviljana að börn og ungmenni rötuðu af réttri braut. Hann hafði þá trú að það þyrfti svo lítið til þess að rétta hlutina við hjá börnum. Gæta þyrfti þess fyrst og fremst að hafa góð orð, leiðsögn og stuðning við börnin og fjölskyldu þeirra.

Hann hafði sterka trú og sannfæringu fyrir því að það vildu allir verða og vera góðir og nýtir þjóðfélagsþegnar og það þyrfti ekki mikið til að vekja það og viðhalda. Helgi var ekki refsiglaður maður en trúði á það góða í öllu fólki og var umhugað um, jafnframt því að upplýsa um það sem aflaga hefði farið, að aðstoða bæði ungmenni og fullorðna í að rétta við líf sitt. Hann brýndi það oft fyrir samstarfsfélögum að það þyrfti yfirleitt svo lítið til. Þrátt fyrir áratuga starf í lögreglu var Helgi viðkvæmur fyrir örlögum fólks og fann til með þeim sem áttu undir högg að sækja eða rötuðu í raunir.

Helgi var lögreglumaður hjá rannsóknarlögreglu ríkisins og yfirlögregluþjónn vel á annan áratug eða þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Þar lágu leiðir okkar saman. Við höfum oft minnst þess með Helga að þegar hann var að ljúka störfum var tölvutækni og upplýsingaöflun með notkun tölva að hefja innreið sína.

Þótt hann fylgdist með í þeim efnum var hann ekki ofurseldur tölvunum í starfinu. Við rannsókn alvarlegs afbrots og mikils harmleiks voru samstarfsmennirnir uppteknir við að upplýsa málið m.a. með því að færa sér í nyt tölvurnar. Helgi hélt sínu striki með uppflettingum í íbúaskrám, símaskrám og öðrum doðröntum og að tala við fólk til að afla upplýsinga. Það er skemmst frá að segja að á meðan starfsfélagarnir stumruðu yfir tölvunum, eins og Helgi orðaði það, upplýsti hann málið á skammri stundu einmitt vegna þess að hann stólaði ekki á tölvuna, eða kunni ekki á hana eins og við vændum hann um.

Helgi var góður félagi og vinur. Skemmtilegur og líflegur á vinnustað, þar sem naut sín góð kímnigáfa og hvað hann var frábær og skemmtilegur sögumaður. Hann lagði sitt af mörkum til að halda uppi og efla góð samskipti og starfsanda á vinnustað. Hann var að öðrum ólöstuðum fyrstur og fremstur í félagslífi og að skipuleggja samverustundir utan vinnu til upplyftingar og ánægju.

Í þeim málefnum var hann óspar á tíma sinn og alltaf tilbúinn að leggja sameiginlegum málefnum lið.

Við sendum Steindóru eiginkonu Helga, sonum, tengdadætrum og afkomendum innilegar samúðarkveðjur.

Kveðja frá fv. starfsfélögum.

Arnar Guðmundsson, Bogi Nilsson, Hörður Jóhannesson, Jón HB Snorrason og Þórir Oddsson.

Kveðja frá Ljósmyndasafni Akraness

Einn af litríkustu og atorkumestu sonum Akraness er nú fallinn frá, 81 árs að aldri. Helgi Daníelsson var einn af upphafsmönnum Ljósmyndasafns Akraness og kom fyrsta framlag til safnsins frá þeim feðgum, Helga og Friðþjófi syni hans. Við stofnun Ljósmyndasafnsins árið 2002, afhentu þeir hluta af ljósmyndaverkum sínum og undirritað var samkomulag um að þeir afhentu safninu allar ljósmyndir sínar og filmur í fyllingu tímans og nú þegar er heildarsafn Helga Daníelssonar komið til varðveislu.

Sporin sem Helgi skilur eftir sig eru mörg því vegir hans hafa víða legið. Hér hjá okkur markar hann spor í söguna með heimildum sem felast í því myndefni sem við geymum. Helgi var fréttahaukur sem hafði mikinn skilning á sögulegu mikilvægi ljósmyndunar og í gegnum auga linsunnar fangaði hann fjölbreytileika mannlífsins.

Sérstaða Helga í ljósmyndun og sá þáttur sem hann var hvað ánægðastur með sjálfur, var fólginn í því að gera myndirnar persónulegar.

Hann festi mannlega þáttinn listilega vel á filmu og þar fáum við að sjá Skagamenn í gegnum tíðina við leik og störf. Helgi hafði gaman af að koma ljósmyndum sínum á framfæri og kom að sýningarhaldi hér á Skaganum og víðar.

Að leiðarlokum þökkum við Helga ævistarfið og þann hlýhug sem hann hefur sýnt okkur og bæjarbúum í gegnum tíðina. Aðstandendum Helga sendum við samúðarkveðjur.

Gerður Jóhanna

Jóhannsdóttir, Halldóra Jónsdóttir og Nanna

Þóra Áskelsdóttir.

Kveðja frá Knattspyrnusambandi Íslands

Helgi Daníelsson kom ungur fram í sviðsljós knattspyrnunnar á Akranesi. Hann lék með ÍA í Íslandsmótinu 1950, en aðeins 17 ára gekk hann til liðs við Val, eftir að hann hóf prentnám í Reykjavík 1950. Helgi lék með Val 1951-1955 en sneri aftur á Skagann 1956. Helgi, sem var ávallt léttur í lund, sýndi fljótlega að hann var einn snjallasti markvörður landsins og klæddist hann landsliðspeysu KSÍ í fyrsta skipti 20 ára í leik gegn Austurríki á Melavellinum 1953, 3:4. Hann átti síðan eftir að leika 25 landsleiki á árunum 1953-1965, 5 sem leikmaður Vals og 20 sem leikmaður ÍA. Hann varð annar knattspyrnumaðurinn til að leika 25 landsleiki og tryggja sér gullúr KSÍ, á eftir Ríkharði Jónssyni, félaga sínum frá Akranesi.

Á knattspyrnusviðinu var Helgi í essinu sínu þegar flestir áhorfendur voru að fylgjast með og lék hann við hvurn sinn fingur og söng. Helgi var maður augnabliksins – sannkallaður „Wembley-leikmaður“ sem kunni best við sig þegar uppselt var! Hans stærsta stund á sviðinu í landsliðsbúningi Íslands var án efa er hann lék Ólympíuleik fyrir framan 27.000 áhorfendur á Idrætsparken í Kaupmannahöfn 1959, þar sem Friðrik Danakonungur IX. var meðal áhorfenda. Helgi fór á kostum í markinu og var hrósað í hástert af meðspilurum, mótherjum, blaðamönnum og dómara, sem hafði aldrei séð eins glæsilega markvörslu. Danir máttu hrósa happi að ná jafntefli, 1:1.

Fljótlega eftir að Helgi lagði „hanskana“ á hilluna fékk KSÍ að njóta öflugra krafta hans og léttleika. 36 ára var Helgi kjörinn í forystusveit KSÍ á 24. ársþingi sambandsins, sem átti að fara fram í lok árs 1969, en var frestað vegna Bermúdaferðar landsliðsins og fór fram um miðjan janúar 1970. Helgi átti sæti í stjórn KSÍ þar til á 39. ársþingi sambandsins 2. desember 1994, er hann lét af störfum.

Helgi átti mestan heiðurinn af því að KSÍ gaf út glæsilega Handbók fyrir keppnistímabilið 1971, þar sem hægt var að finna upplýsingar um allt í íslenskri knattspyrnu – bók sem efldist með ári hverju. Var „netið“ á sínum tíma – upplýsingar um leiki frá upphafi, mótabók allra flokka það sumar, upplýsingar um félög, dómara og leikreglur. Já, og símaskrá knattspyrnunnar! Sannkölluð biblía knattspyrnunnar á Íslandi.

Helgi var varaformaður KSÍ 1975-1977, tók við starfi Jóns Magnússonar. Hann var formaður mótanefndar 1974 og 1975, formaður öflugrar unglinganefndar 1976-1978, formaður landsliðsnefndar 1979-1983, er hann bætti við í safn sitt 37 landsleikjum, sem landsliðsþjálfararnir Júrí Ilitchev, Guðni Kjartansson og Jóhannes Atlason stjórnuðu. Helgi var formaður aganefndar 1984.

Helgi var svo sannarlega vinur knattspyrnunnar – var alltaf tilbúinn þegar leitað var eftir kröftum hans og lagði sig fram við að gera sitt besta.

Knattspyrnuhreyfingin þakkar Helga Daníelssyni fyrir samveruna og ómetanleg störf við að efla knattspyrnuna á allan hátt og sendir fjölskyldu og ættingjum hans innilegar samúðarkveðjur.

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ.

Grímseyjarvinurinn og eldhuginn Helgi Daníelsson hefur kvatt. Ég var svo lánsöm að kynnast Helga og fá tækifæri til að vinna með honum að hugðarefni sem var okkur báðum kært. Nefnilega – fallegu Grímsey – útverðinum í norðri. Helgi hafði tengst eyjunni tryggðarböndum í barnæsku á heimili ömmu sinnar og afa nafna, að Borgum. Helgi vildi gera Grímsey og Grímseyingum hátt undir höfði og það gerði hann svo sannarlega. Í póstkortum með einstökum ljósmyndum af eyjunni sem voru þau fyrstu, ferðabæklingi þeim fyrsta sem fór um landið, gullfallegri ljósmyndabók með frásögn um sögu eyjunnar sem gaf góða innsýn í líf og störf við nyrsta haf. Því Helga var í mun að Íslendingar fengju að kynnast þessari einstöku perlu. Þegar ferðamennska jókst vildi hann undirbúa sem best jarðveginn þannig að útlendingar sem sæktu Ísland heim heyrðu af Grímsey og lífinu þar. Stórafrek Helga og þrekvirki er bókin um „Grímsey og Grímseyinga, íbúar og saga“. Sú bók mun lifa og lýsa mögnuðu lífi á mörkum hins byggilega. Bókin geymir heimildir og sögur sem Helgi safnaði saman af alúð víðs vegar að – ómetanlegt gull. Í allri þessari miklu vinnu var sonur hans, Friðþjófur ljósmyndari, hægri hönd föður síns og ferðafélaginn góði. Þeirra feðgasamband fagurt. Alltaf var gaman að fá símtölin frá Helga, hann fullur af hugmyndum fyrir eyjuna kæru. Já, Grímsey var honum sannarlega ofarlega í huga. Hann sagði stundum í gríni: „Ég held ég sé með Grímsey á heilanum.“ Grímseyingar kunnu líka að meta störf Helga og þökkuðu honum öll hans góðu verk, tóku hann að hjarta sér eins og þeir kunna svo vel. Helgi Daníelsson var valinn af Kvenfélaginu Baugi „Grímseyingur númer 1“. Sú viðurkenning gladdi vin minn óendanlega. Hann var stoltur af Grímseyjarrótum sínum. Síðasta sumar sótti hann sína ástkæru eyju heim, honum var haldið hóf og hann hylltur af glöðum Grímseyingum. Nú er hann genginn – við Dónald biðjum heiðursmanninum og góða vininum Helga Guðs blessunar á nýjum leiðum. Guð umvefji konuna hans og barnahópinn þeirra sem voru fjársjóðurinn hans mesti og besti.

Helga Mattína

Björnsdóttir – Dalvík.

Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Val.

Látinn er á Akranesi Helgi Daníelsson, fyrrverandi leikmaður Vals og ÍA og landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, 81 árs að aldri. Helgi gekk til liðs við Val árið 1951, þá 18 ára að aldri. Fyrstu leikir Helga fyrir Val voru í keppnisferð sem félagið fór í til Noregs og Danmerkur en í framhaldi af þeirri ferð fluttist Helgi til Reykjavíkur og lagði samtímis knattspyrnuiðkun stund á prentiðn hjá Ísafoldarprentsmiðju.

Í kjölfar á endurbótum á gamla íþróttahúsinu á Hlíðarenda 2010 sem Helgi var fenginn til að opna formlega sem og við heimsókn hans og konu hans á 100 ára afmæli Vals árið 2011 lýsti Helgi þeirri aðstöðu og þeim verkefnum sem hann starfaði við á þeim tíma sem hann lék með Val á árunum 1951-1955. Á þessum árum vann Helgi m.a. við skurðgröft og framræsingu fyrir nýjan völl sem og að hann sat í stjórn fyrir Val, var í ritnefnd Valsblaðsins og þjálfaði yngri flokka félagsins, m.a. annan af fyrstu gulldrengjum Vals. Á þessum tíma bjó Helgi í þrjú ár ásamt konu sinni og tveimur sonum í risinu á gamla íbúðarhúsinu á Hlíðarenda. Íbúðin var á þessum tíma án salernisaðstöðu, en hún var í fjósinu við hliðina. Frumstæðar aðstæður, a.m.k. miðað við það sem við teljum ásættanlegt í dag, voru unnar upp með góðum félagsskap og vináttu en á þessum árum eignaðist Helgi marga af sínum bestu vinum fyrir lífstíð. Valur hefur alltaf skipað vissan sess í hjarta Helga sem m.a. sýndi sig þegar Helgi Valur sonur hans var skírður í höfuðið á Val. Á móti hefur Helgi verið mikils metinn af félagsmönnum í Val sem góður og traustur félagi og alltaf talinn til eins úr okkar hópi þó svo að ÍA hafi lengstum verið hans félag.

Á þessum tímamótum þökkum við Helga Daníelssyni fyrir samfylgdina og tryggð hans við félagið en einnig fyrir starf hans að eflingu og útbreiðslu á knattspyrnu í landinu. Ég vil fyrir hönd Knattspyrnufélagsins Vals senda aðstandendum hans samúðarkveðjur.

Hörður Gunnarsson,

fyrrverandi formaður.

Kvatt hefur ein helsta knattspyrnuhetja okkar Íslendinga fyrr og síðar. Ekki aðeins sem keppnismaður í landsliðsflokki heldur sem óbilandi ástríðumaður fyrir íþróttina. Endalaust gat Helgi Daníelsson verið að leggja sitt af mörkum í öllu formi; sem leikmaður, þjálfari, stjórnarmaður, myndasmiður og sem eldheitur áhugamaður. Þegar Helgi bjó í Reykjavík (m.a. að Hlíðarenda í nokkur ár) og lék með Val var hann ósjaldan gestur á heimili okkar við Ljósvallagötu enda pabbi og hann samherjar. Lífsgleðin geislaði af Helga og þegar best lá á honum brast hann í söng og frásagnargleðin naut sín til fullnustu. Virðing Helga fyrir sögunni og hvernig hún skyldi sem best varðveitast var mikil og því leituðum við Valsmenn til Helga og félaga hans á Akranesi þegar kom að því að endurvekja minjanefnd Vals og undirbúa 100 ára afmæli félagsins. Markmiðið var að sækja innblástur og hugmyndir hjá Skagamönnum hvernig best yrði að málum staðið hjá okkur Valsmönnum. Fáir eða engir hafa gert betur en Skagamenn til þess að varðveita sögu íþróttanna og þróun knattspyrnunnar á Akranesi. Þar hafa margir unnið mikið og gott verk og þeir feðgar Helgi og Friðþjófur hafa með öllum sínum myndum lagt ríkulega til. Haustið 2010 fórum við félagar í Fulltrúaráði Vals í heimsókn til Skagamanna þar sem við fengum þvílíkar höfðinglegar móttökur að lengi verður í minnum haft og seint að fullu þakkað. Eftirminnilegt er áttræðisafmæli Helga, þar sem léttleikinn var allsráðandi. Fulltrúaráð Vals sendir fjölskyldu Helga hugheilar samúðarkveðjur og þakkar fyrir allar góðar samverustundir og aðstoð. Blessuð sé minning Helga Dan.

Halldór Einarsson.

Nú sefur jörðin sumargræn!

Kær og tryggur félagi og vinur, Helgi Dan, er lagður af stað í sína hinstu ferð. Hann hefur átt við veikindi að stríða um nokkurn tíma, en alltaf var hann jafn æðrulaus og glaðsinna, þótt hann vissi hvert stefndi.

Helgi kom víða við á sínum æviferli, fyrir utan atvinnu, m.a. sem yfirlögregluþjónn hjá Rannsóknarlögreglunni, starfaði hann ötullega að íþrótta- og félagsmálum. Helgi vann af krafti að framgangi golfíþróttarinnar og sat um áraraðir í stjórn Landssamtaka eldri kylfinga (LEK), hann sá að miklum hluta um Mótabók samtakanna, sem komið hefur út árlega frá árinu 1987.

Hann tók viðtöl við marga kunna eldri kylfinga og allar mótabækurnar voru prýddar myndum, sem Helgi tók, en myndavélina hafði hann alltaf meðferðis. Hann vann að því að skrifa sögu LEK, en náði því miður ekki að ljúka því verki, þann hluta sem hann lauk við er að finna á vefsíðu samtakanna (www.lek.is). Helgi fór margar ferðir utan sem fararstjóri karlalandsliða LEK, kynntist í þeim ferðum mörgum kylfingum og naut ætíð mikilla vinsælda

Fyrir störf sín var Helgi sæmdur gullmerki Golfsambands Íslands (GSÍ) svo og gullmerki LEK.

Við sátum með Helga í stjórn LEK í mörg ár og unnum mikið saman, m.a. að undirbúningi golfmóta o.m.fl. Hann var alltaf boðinn og búinn að vinna fyrir samtökin og taldi aldrei eftir sér að taka að sér verkefni fyrir LEK, eiga samtökin honum mikið að þakka. Á þessum árum tókst með okkur sönn vinátta, sem haldist hefur æ síðan. Helgi var ákaflega vinmargur og vinsæll, traustur og tryggur vinur, sem öllum vildi vel. Hans verður sárt saknað.

Við minnumst hans með einlægu þakklæti og virðingu. Innilegar samúðarkveðjur til hans góðu konu Steindóru og allrar fjölskyldunnar.

Lucinda Grímsdóttir og

Inga Magnúsdóttir.

Mikill er söknuður vegna andláts Helga Daníelssonar frá Akranesi sem var í hópi eldri kylfinga hér á suðvesturhorni landsins. Ég kynntist Helga fyrst þegar við lentum saman í landsliði eldri kylfinga í Frakklandi, á norðurströnd Normandí, í bænum Deauville, í júlíbyrjun 1993. Við vorum skömmu síðar kosnir í forystu Landssambands eldri kylfinga (LEK). Við vorum í stjórn þess í tæp tíu ár.

Helgi var dugnaðarforkur og sá um útgáfumál og ljósmyndavinnslu á vegum samtakanna. Hann var iðinn, áreiðanlegur og sérlega kappsamur við útgáfu hinnar veglegu árlegu mótabókar LEK. Við þvældumst saman um alla Evrópu með landsliðsmönnum Íslands á öldungamótum eldri kylfinga í álfunni. Við eigum, félagar í stjórn LEK, góðar minningar um þátttöku Helga í félagsstarfinu.

Helgi Dan., eins og hann var alltaf kallaður, var áður fyrr landsliðsmaður í knattspyrnu og landsþekktur fyrir árangur sinn í því liði. Einnig spilaði hann badminton á Skaganum fyrr á árum. Þetta gerði það að verkum að við Helgi áttum góða samleið á mörgum sviðum.

Ég vil hér með votta fjölskyldu Helga innilega samúð. Ég kveð einn minn besta vin og minnist góðs drengs sem með húmor og elju stóð sig vel í öllu sem laut að málefnum LEK og öðru sem við í sameiningu tókum að okkur.

Ríkarður Pálsson,

fyrrverandi forseti LEK.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.