23. maí 2014 | Árnað heilla | 655 orð | 3 myndir

Kjartan Atli Kjartansson blaðamaður – 30 ára

Þjálfar og rappar fyrir Stjörnuna í Garðabæ

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjartan Atli Kjartansson fæddist í Reykjavík 23.5. 1984, ólst fyrstu árin upp í Hafnarfirði og flutti síðan út á Álftanes sex ára gamall. „Ég var mikið í Bandaríkjunum sem barn.
Kjartan Atli Kjartansson fæddist í Reykjavík 23.5. 1984, ólst fyrstu árin upp í Hafnarfirði og flutti síðan út á Álftanes sex ára gamall. „Ég var mikið í Bandaríkjunum sem barn. Móður- og föðursystur mínar búa þar enn og amma og afi í móðurætt bjuggu þar þegar ég var yngri. Ég eyddi til dæmis sumrinu árið 1994 þar, það var svona svipað og þegar önnur börn voru í sveit. Nema ég var í Flórída og þótti það æðislegt.“

13 ára gamall fór Kjartan Atli í Garðaskóla og hefur síðan þá alltaf verið tengdur Garðabæ sterkum böndum. Hann varð stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ árið 2003, fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í ensku og samfélagsgreinum og lauk BA-gráðu í stjórnmálafræði árið 2008. Hann starfaði sem blaðamaður á DV 2005 og 2006 og kenndi við Álftanesskóla frá 2008 til 2010. Var umsjónarkennari sjöunda bekkjar árið 2008 til 2009 og fylgdi honum upp í áttunda bekk skólaárið 2009-2010. Hann hóf svo aftur störf í Álftanesskóla veturinn 2012 til 2013. Þá starfaði hann sem sérfræðingur og kenndi aðallega sjötta og sjöunda bekk. „Mér hefur alltaf þótt afskaplega vænt um nemendur mína.“ Kjartan hóf störf hjá Fréttablaðinu og Vísir.is í október síðastliðnum.

Íþróttaferillinn

„Ég var 17 ára gamall þegar þjálfaraferill minn í körfuknattleik hófst. Ég stofnaði körfuknattleiksdeild Álftaness, ef svo má segja, skráði lið 12 ára drengja í keppni. Bróðir minn var í liðinu og hann hafði sagt mér frá því að hann vildi æfa körfubolta og ég ákvað því að slá til og stofna lið. Við keyptum silfurlitaða búninga á útsölu í íþróttavöruverslun, keyptum límband og bjuggum til númerin og kepptum með ansi góðum árangri í Íslandsmótinu. Síðan þá hef ég alltaf haft áhuga á körfuknattleiksþjálfun. Árið 2005 byrjaði ég að einbeita mér að uppbyggingu Stjörnunnar í körfuknattleik ásamt öðrum góðum mönnum. Ég hef nú þjálfað nánast alla flokka félagsins, frá fjögurra ára stúlkum og drengjum upp í tvítuga drengi auk þess sem ég hef þjálfað meistaraflokk kvenna og er nú aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla.“

Kjartan Atli hefur þrisvar orðið Íslandsmeistari með Stjörnunni og þrisvar bikarmeistari. Hann hefur því unnið sex „stóra“ titla. Auk þess lenti lið sem hann þjálfaði í öðru sæti á Norðurlandamóti félagsliða (Scania Cup), en aðeins bestu liðum Norðurlanda er boðið á það mót. Þetta var lið 15 og 16 ára drengja árið 2011. Veturinn 2011 til 2012 starfaði Kjartan Atli sem framkvæmdastjóri Körfuknattleiksakademíu Fjölbrautaskóla Suðurlands og þjálfaði meistaraflokk félagsins, sem lék í 1. deild. Hann lék upp nánast alla yngri flokkana með Stjörnunni og lék með drengja- og unglingalandsliðum Íslands. Hann lék 200 leiki með meistaraflokki félagsins og lék einnig með Hamri og Haukum í úrvalsdeild.

Kjartan lék knattspyrnu í neðri deildunum (3. og 4. deild), og spilaði með Ými, Álftanesi, Árborg, KFG og Leikni Fáskrúðsfirði. Skoraði 63 mörk í 117 leikjum.

Kjartan á einnig nokkuð fínan rappferil að baki, hann var í hljómsveitinni Bæjarins bestu sem gaf út plötuna Tónlist til að slást við árið 2002. Hann vann battl-keppnina Rímnastríð árið 2005, sem var sýnd í beinni útsendingu á PoppTíví. Hann hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum og rappað inn á nokkrar plötur. Kjartan dró fram rappskóna á nýjan leik eftir nokkurt hlé þegar hann samdi lag fyrir fótboltalið Stjörnunnar fyrir bikarúrslitin 2012.

Fjölskylda

Kærasta Kjartans Atla er Hrafnhildur Ýr Matthíasdóttir, f. 8.2. 1991, verkfræðinemi. Foreldrar hennar eru Ljósbrá Baldursdóttir, f. 24.6. 1971, löggiltur endurskoðandi hjá PWC, og Matthías Gísli Þorvaldsson, f. 15. júní 1966, starfar við upplýsingatækni á rannsóknarsviði Capacent Gallup.

Dóttir Kjartans er Klara Kristín Kjartansdóttir, f. 21.10. 2009.

Bróðir Kjartans er Tómas Karl Kjartansson, f. 23.10. 1990, nemi í tölvunarfræði. Hálfsystur Kjartans Atla eru Steinunn Kjartansdóttir, f. 25.6. 1974, fyrrv. landgönguliði fyrir Bandaríkjaher, bús. í Kaliforníu, og Barbara Kjartansdóttir, f. 29.7. 1970, bús. í Þorlákshöfn.

Foreldrar Kjartans eru Kjartan Sigtryggsson, f. 8.4. 1944, starfaði lengst af sem öryggismálastjóri fyrir ýmis fyrirtæki á svæði Bandaríkjahers í Keflavík, var landsliðsmaður í knattspyrnu, og Ása Steinunn Atladóttir, f.14.10. 1956, hjúkrunarfræðingur hjá landlæknisembættinu, bús. í Reykjavík.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.