Ekki rök til að tengja skjálfta nú við þenslu í Heklu GUÐMUNDUR E. Sigvaldason forstöðumaður Norrænu eldfjallastöðvarinnar segir að ekki séu rök fyrir því að tengja þenslu í Heklu skjálftahrinunni sem átt hefur upptök skammt frá Hveragerði.

Ekki rök til að tengja skjálfta nú við þenslu í Heklu

GUÐMUNDUR E. Sigvaldason forstöðumaður Norrænu eldfjallastöðvarinnar segir að ekki séu rök fyrir því að tengja þenslu í Heklu skjálftahrinunni sem átt hefur upptök skammt frá Hveragerði. Hann segir ekkert benda til þess að Heklugos sé í vændum alveg á næstunni. Hins vegar segir hann þenslu hafa verið að byggjast upp í Heklu jafnt og þétt frá síðasta gosi árið 1991. Hraðinn á þessum þrem árum hefði hins vegar kannski verið svolítið meiri en jarðvísindamenn hefðu átt von á.

"Þetta er bara hlutur sem er búinn að vera í gangi í langan tíma og ekkert sem er neitt að gerast núna þessa dagana. Við höfum vitað af þessu í 2­3 ár eða síðan síðasta gos var 1991. Um leið og það hættir fer kvika að streyma aftur inn í rætur fjallsins og hún er að búa sig undir næsta gos hvenær sem það verður eftir einhver ár. Það er alls ekkert sem bendir til þess að eitthvað sé að gerast nákvæmlega á þessari stundu. Hins vegar er þetta bara þessi venjulegi gangur í virkum eldfjöllum að smátt og smátt hlaða þau upp til nýrra átaka. Það eru ekki nokkur minnstu rök fyrir því að tengja þenslu í Heklu þessari skjálftahrinu í nágrenni Hveragerðis," sagði Guðmundur.

Hann sagði að árið 1947 hafi komið jarðskjálftar í Hveragerði um svipað leyti og Heklugosið varð og þar hefðu verið einhverjir skjálftar fyrir eða samtímis öðrum gosum.

"En hvort það er tilviljun eða ekki skal ég ekkert segja um. Það er að minnsta kosti ekkert sem hægt er að benda á með rökum að tengist þarna nema náttúrulega að landið er allt ein heild, þannig að ef eitthvað hreyfist á einum stað þá verði það að jafnast út annars staðar. Það er engu hægt að spá en það eru líkur á því að Hekla gjósi aftur og þá kannski innan ekki mjög langs tíma og þá meina ég einhver ár eða áratugi. En það er ekkert sem er alveg aðvífandi," sagði Guðmundur.