Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty gaf nýlega út bókina Fjármagn á 21. öld ( Le capital au XXI siècle ). Nafnið skírskotar bersýnilega til bókar Karls Marx, Fjármagnsins , en fyrsta bindi þess kom út 1867. Piketty telur eins og Marx, að hinir ríkari verði sífellt ríkari, en að hinir fátæku verði ef til vill ekki fátækari, en hlutur þeirra í heildartekjum minnki sífellt. Þeir verði því fátækari tiltölulega. Bilið breikki, uns skipulagið gliðni, nema lagðir verði ofurskattar á auðmenn. Breska viðskiptablaðið Financial Times hefur að vísu fundið nokkra alvarlega galla í talnameðferð Pikettys, en þeir breyta ekki miklu, þótt kenning Pikettys sé af öðrum ástæðum hæpin.
Piketty vitnar oft í franska rithöfundinn Honoré de Balzac, enda telur Piketty þá veröld, sem við séum að hverfa inn í, líka hinni, sem Balzac lýsti í skáldsögum sínum á 19. öld, þegar eina leið fátæks fólks til að komast inn í yfirstéttina frönsku átti að vera, að fagrar dætur giftust auðugum mönnum. Ein ummæli Balzacs í skáldsögunni Föður Goriot eru fleyg: „Le secret des grandes fortunes sans cause apparente est un crime oublié, parce qu'il a éte proprement fait.“ Á bak við mikil og illskýranleg auðæfi leynist jafnan glæpur, sem er gleymdur, af því að hann var fimlega framinn.)Bandaríski rithöfundurinn Mario Puzo hóf skáldsöguna Guðföðurinn (1969) á svipuðum orðum (og vitnaði til Balzacs): „Behind every great fortune there is a crime.“ Á bak við mikil auðæfi leynist ætíð glæpur.
Piketty virðist þrátt fyrir allt heldur hallast að hinni einföldu útgáfu Puzos en landa síns, því að Balzac setti þann fyrirvara, að auðæfin þyrftu að vera illskýranleg, til þess að um glæp væri að ræða. Piketty tæki sennilega líka undir það, sem haft er eftir bandaríska háðfuglinum Dorothy Parker: „Vilji fólk komast að því, hvað Guði finnist um peninga, þá ætti það að virða fyrir sér þá, sem hann hefur veitt þá.“ En Piketty er áreiðanlega ósammála bandarísku leikkonunni og fegurðardísinni Zsa Zsa Gabor, sem er af ungverskum ættum og enn á lífi, 97 ára gömul. Hún hefur alltaf verið kona hagsýn og sagði eitt sinn: „Ríkur maður er aldrei ljótur.“ Piketty virðist hins vegar telja, að ríkur maður sé alltaf ljótur.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is