[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hannes Hólmstein Gissurarson: "Víðast hvar eru lífslíkur kvenna nokkrum ári meiri en karla. Meðaltalið í OECD-löndum 2011 var 77 ár fyrir karla og 83 ár fyrir konur."

Árið 1900 kom út á íslensku bókin Kúgun kvenna eftir enska heimspekinginn John Stuart Mill, og þýddi Sigurður Jónasson frá Eyjólfsstöðum hana. Hún var endurútgefin í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags árið 2003. Þar færir John Stuart Mill þau rök gegn kúgun kvenna, að við hana fari mannkynið á mis við ýmsa hæfileika kvenna, af því að þær fái ekki að njóta sín. Er sú röksemd Mills auðvitað góð og gild, þótt margir telji líka, að jafnrétti karla og kvenna sé réttlætismál.

Nú er kúgun kvenna vonandi úr sögu á Vesturlöndum, þótt auðvitað hafi sumir endurskilgreint orðið og noti það nú um það andlega ok, sem hefðbundin kynhlutverk eiga að vera. En þá má spyrja á móti, eins og ég geri í fyrirlestri um kúgun karla á alþjóðlegri ráðstefnu um karlmennsku í Reykjavík föstudaginn 6. júní, hvort ekki sé nú þungbærara að vera karl en kona. Fyrirlestur minn verður í málstofu kl. 9-11 í herbergi 130 í Öskju, náttúruvísindahúsi Háskólans.

Lífslíkur, sjálfsvíg, slys og morð

Lítum á nokkrar tölur í þessu sambandi. Einn mælikvarðinn á farsæld er lífslíkur við fæðingu. Víðast hvar eru lífslíkur kvenna nokkrum árum meiri en karla. Meðaltalið í OECD-löndum 2011 var 77 ár fyrir karla og 83 ár fyrir konur. Hér á landi var það þetta sama ár 81 ár fyrir karla og 84 ár fyrir konur. Hins vegar er ekkert tillit tekið til þessa munar á lífslíkum kynjanna við innheimtu lífeyrisgjalda, svo að segja má, að karlar greiði niður lífeyri fyrir konur.

Einn skýrasti mælikvarðinn á það, hvort lífið sé þungbært, er hins vegar sjálfsvíg. Þá er lífið orðið óbærilegt. Karlar eru þrisvar til fjórum sinnum líklegri til að stytta sér aldur en konur. Meðaltalið í OECD-löndum 2008 var 176 karlar á hverja 10.000 íbúa og 52 konur. Hér á landi var það 153 karlar og 67 konur.

Karlar eru ekki aðeins skammlífari en konur og líf þeirra þungbærara, eins og tíðni sjálfsvíga sýnir, heldur er líf karlanna miklu hættulegra. Tvöfalt fleiri karlar létust til dæmis í umferðarslysum í Bandaríkjunum 2007 en konur. Þrisvar sinnum fleiri karlar en konur létu þar lífið af annarra völdum sama ár.

Glæpir, fíkniefnaneysla, ofdrykkja og stríðsrekstur

Einn mælikvarði á farsæld er, hversu margir fara á glapstigu. Í Bandaríkjunum var 91% fanga karlar og 9% konur 2013. Á Íslandi voru 97% fanga karlar og 3% konur. Hlutfallið er svipað í öðrum löndum. Ári áður, 2012, fóru 1.329 þúsund karlar og 683 þúsund konur í fíkniefnameðferð í Bandaríkjunum og 1.745 þúsund karlar og 703 þúsund konur í áfengismeðferð. Hlutföllin eru svipuð í öðrum löndum. Segja má, að rösklega tvöfalt fleiri karlar en konur flýi á vit fíkniefna og áfengis.

Því má ekki gleyma, að konur eru víðast hvar ekki herskyldar ólíkt körlum. Tvær blóðugar heimsstyrjaldir voru háðar á 20. öld auk margra staðbundinna stríða. Karlar voru langflestir þeirra, sem þá féllu. Sýna þessar staðreyndir ekki, að þungbærara sé að vera karl en kona? Að minnsta kosti má ráða það af lögmáli framboðs og eftirspurnar: Erfitt er að afla áreiðanlegra talna um kynskipti, en líklega eru um 80% þeirra, sem skipta um kyn, fæddir drengir.

Launamunur tölfræðileg tálsýn

Launamunur kynjanna er vissulega nokkur. En hann er ekki vegna þess, að karlar mismuni konum, heldur vegna þess að konur hafa tilhneigingu til að velja störf, sem farið geta saman við barneignir og heimilishald. Þetta eru störf, sem geta verið hlutastörf, til dæmis frá kl. 8-12 á daginn, eða störf, sem stunda má í nokkur ár, taka sér leyfi frá í 4-5 ár, en snúa aftur í síðar, án þess að aflahæfi launþegans minnki að ráði, því að störfin krefjast ekki samfelldrar viðveru eða sívirkrar þekkingaröflunar. (Hagfræðingar myndu orða þetta svo, að í slíkum störfum sé úrelding mannauðs hæg.) Orsakasambandið er því annað en oft er látið í veðri vaka. Konur mælast ekki að meðaltali með lægri laun en karlar vegna þess, að kvennastörf séu láglaunastörf, heldur vegna þess, að lægri laun eru í boði fyrir þau störf, sem konur hafa tilhneigingu til að velja. Þau störf krefjast ekki samfelldrar viðveru, sívirkrar þekkingaröflunar og fela ekki í sér verulega ábyrgð.

En tapa konur á þessum skiptum? Þær öðlast dýrmæta reynslu, sem körlum er neitað um, að ganga með og ala á brjósti börn. Hér mega hagmælingar ekki villa mönnum sýn. Þegar börn fæðast og annað foreldrið eða þau bæði minnka við sig vinnu til að sinna börnunum, oftast þó konan, lækka ráðstöfunartekjur þeirra. En gleði þeirra af lífinu eykst. Börnin eru launin, þótt þau mælist ekki hjá hagstofunni.

Af þessum ástæðum er jafnlaunabaráttan því barátta við vindmyllu, við tölfræðilega tálsýn. Femínistar kunna að svara, að tilhneiging kvenna til að velja störf, sem fara saman við heimilishald og barneignir, sé til marks um kúgun þeirra. Valið sé ekki frjálst. Konur séu undir oki kvenleikaímyndar, kröfunnar um að gerast móðir og húsmóðir. Eflaust átti þetta við á liðnum öldum, og nægir að vísa til ljóða Ólafar frá Hlöðum og Theodóru Thoroddsen um það. En nú á dögum er þessi krafa ekki sterk. Konur þurfa ekki að sinna henni frekar en þær vilja. Réttara er líka að segja, að bæði kynin búi við ímyndir, sem hafi áhrif á val þeirra á framtíðarhlutverk.

Karlar eiga að vera sterkir, dimmraddaðir, afla tekna og sjá fyrir heimilinu. Karlmennskuímyndin íþyngir körlum enn frekar en kvenleikaímyndin konum, eins og tölurnar sýna, sem ég nefndi hér um lífslíkur, tíðni sjálfsvíga, fórnarlömb umferðarslysa og morða, glæpi, fíkniefnaneyslu og ofdrykkju, svo að ekki sé minnst á kynskipti.

Þversögn femínismans

Þversögn femínismans er síðan, að stuðningsmenn hans vilja ekki binda enda á kúgun kvenna, heldur setja nýja kúgun í stað gamallar. Ég tók þátt í sjónvarpsumræðum að kvöldi 25. apríl 1987 með einum forsvarsmanni Kvennalistans þáverandi. Ég spurði hana í hléi, hvað femínistar segðu um Margréti Thatcher, sem væri alls ekki sammála þeim. „Hún neitar að gangast við sjálfri sér sem konu,“ svaraði femínistinn. Hér er á ferð sami greinarmunur og Marx gerði á stéttvísum og óstéttvísum öreigum og Pétur Þríhross á sönnum og sviknum Íslendingum. Konur áttu að vera femínistar. Annars voru þær ekki „sannar“ konur.

Jafnframt ganga femínistar í lið með íhaldsmönnum liðins tíma og vilja banna fórnarlambalausa glæpi eins og vændi og klám. Þetta bann bitnar ekki aðeins á kaupendum, sem vissulega eru flestir karlar, heldur líka seljendum, sem vissulega eru flestir konur, þótt ekki sé það einhlítt. Þegar sagt er, að vændinu fylgi mansal og önnur kúgun, eru það ekki rök fyrir að banna vændi, heldur fyrir því að banna einmitt mansal og aðra kúgun, og það verður best gert með því að lögleiða vændi, svo að hafa megi strangt eftirlit með því og konur þurfi ekki „verndara“ á strætum stórborga.

Hagsmunir kynjanna fara saman

Einstaklingshyggjumenn vilja hins vegar ekki steypa alla í sömu mót, heldur leyfa fólki, konum jafnt og körlum, að vaxa og dafna í sjálfvöldum hlutverkum. Jafnréttisbaráttu kvenna lauk með fullum sigri þeirra víðast á Vesturlöndum. Þeim miklu fjármunum, sem eytt er í jafnréttisfulltrúa og kynjafræðikennara á Íslandi, væri betur varið í aðstoð við kúgaðar konur í múslimaríkjum. Þar er raunverulegt verkefni að vinna. Jafnframt ættu kynin tvö, karlar og konur, að vinna saman að auknu frelsi í atvinnumálum, því að öflugt atvinnulíf veitir dætrum og sonum þessa fólks fleiri tækifæri síðar meir. Hagsmunir kynjanna fara saman, svo að hvorugt þarf að kúga hitt.

Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði.