Inga Huld Hákonardóttir fæddist 15. mars 1936. Hún lést 27. maí 2014.

Foreldrar hennar voru Hákon Guðmundsson, cand. juris, hæstaréttarritari og síðar yfirborgardómari í Reykjavík, f. 18. október 1904, d. 6. janúar 1980, og Ólöf Dagmar Árnadóttir, íþróttakennari og rithöfundur, f. 14. október 1909, d. 7. júlí 1993.

Fyrri maður Ingu var Leifur Þórarinsson tónskáld, f. 13. ágúst 1934, d. apríl 1998. Börn þeirra: 1) Hákon tónlistarmaður, f. 1958, kvæntur Auði Bjarnadóttur leikstjóra. Börn þeirra eru Inga Huld, f. 1990, og Ólafur Bjarni, f. 2000. 2) Alda Lóa, grafískur hönnuður, f. 1962. Dóttir hennar og Kristjáns E. Karlssonar er Auður Anna, f. 1987. Eiginmaður Öldu Lóu er Gunnar Smári Egilsson blaðamaður. Barn þeirra er Sóley Smáradóttir, f. 2007. 3) Þórarinn Böðvar Leifsson, grafískur hönnuður, f. 1966. Maki Auður Jónsdóttir rithöfundur, f. 1973. Dóttir hans og Margrétar Kristínar Blöndal er Salvör Gullbrá, f. 1992. Sonur Þórarins og Auðar er Leifur Ottó, f. 2011. Eftirlifandi maki Ingu Huldar er Kristján Árnason, bókmenntafræðingur og fyrrverandi háskólakennari.

Inga Huld lauk BA-prófi í sagnfræði og ensku frá Háskóla Íslands 1969 og stundaði framhaldsnám í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla til 1984. Hún var blaðamaður á Tímanum, DV og Heimsmynd frá 1965 til 1988. Þá vann hún við rannsóknir og ritstörf á sviði kvennasögu frá árinu 1985. Inga Huld ritaði fjölda fræðigreina um sagnfræði og kvennasögu sem birtust í tímaritum og bókum auk viðtala. Hún skrifaði viðtalsbækurnar Hélstu að lífið væri svona? Viðtöl við verkakonur; Lífssaga baráttukonu – Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir; Ég og lífið – Guðrún Ásmundsdóttir. Sagnfræðiverk eftir hana eru: Fjarri hlýju hjónasængur – öðruvísi Íslandssaga. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1992. Inga Huld ritstýrði bókinni Konur og kristsmenn. Þættir úr kristnisögu. Hún var ráðgjafi um kvennasjónarhorn við Kristnisögu I-IV og í ritstjórn afmælisritsins Kvennaslóðir, til heiðurs Sigríði Erlendsdóttur. Auk þess þýddi hún nokkrar bækur. Inga Huld var í stjórn Félags um 18. aldar fræði og í stjórn samtaka um Maríusetur.

Útför Ingu Huldar verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 10. júní 2014, kl. 15.

Ég talaði fyrst við Ingu Huld Hákonardóttur daginn eftir að hún missti móður sína fyrir rúmum tuttugu árum. Hún var komin til að segja mér að hún treysti sér ekki til að skrifa tímaritsgrein sem ég hafði beðið hana um; sagðist ekki geta einbeitt sér eftir fráfall móður sinnar. Þetta var niðri í Aðalstræti í húsi sem nú er búið að rífa; húsi sem Tryggvi Ófeigsson byggði undir veldi sitt og þar sem Herdís Þorgeirsdóttir barnabarn hans hafði aðsetur fyrir tímaritið Heimsmynd. Inga Huld sat á móti mér og baðst margfaldrar afsökunar á að geta ekki lokið við greinina og það var alveg sama hversu oft ég sagði henni að hafa engar áhyggjur; það virtist ekki draga úr samviskubitinu. Hún sat í stólnum á móti mér og það var eins og hún hefði tapað áttum; vissi ekki hvert hún ætti að halda næst. Á meðan hún var að átta sig sagði hún mér frá móður sinni og móður hennar og konum af þeirra kynslóðum; hvernig aðstæðurnar hefðu hindrað þær í að lifa því lífi sem þær hefðu helst kosið. Hvernig þær hefðu þurft að axla ábyrgð og skyldur sem efldu þær ekki sem manneskjur heldur komu í veg fyrir að þær gætu þroskast. Hlutverkin sem konum eru ætluð eru þeim oft fjötrar; líka móðurhlutverkið. Það er flókið að vera góð móðir og sjálfstæð manneskja. Einhvern veginn svona talaði Inga Huld þarna í stólnum; mest auðvitað við sjálfa sig. Hún var að sættast við móður sína; stundum frá sjónarhóli barnsins en líka frá sjónarhóli fullorðinnar konu sem hefur lært á eigin lífi hvað væntingar barnsins til móðurinnar eru kröfuharðar. En sjónarhóllinn var þó kannski fyrst og fremst konunnar sem hafði hugsað alla ævi um hvers vegna samfélagið er svo grimmt mörgu fólki og stendur í vegi fyrir hamingju þess og þroska.

Tæpu ári síðar kynntist ég Öldu Lóu og Inga Huld varð tengdamóðir mín. Ég lærði að hún gat verið sveimandi í huganum af minna tilefni en móðurmissi. Það var stundum eins og hugur hennar væri gljúpur. Það var eiginlega sama hvaða vitleysu maður hélt á lofti; hún reyndi að finna í henni eitthvert vit. Ef maður hins vegar espaðist upp vildi hún á móti benda á að þetta væri nú ekki algilt. Frekar en annað. Ég man ekki til þess að hafa heyrt hana tala um vonda bók eða vont leikrit. Og enn síður um vont fólk. Hún var til í að gefa öllu séns. Var fordómalaus og þar af leiðandi opin fyrir lífinu.

Suma daga dró hún sig í hlé frá samræðunum; lét sinn mikla hadd falla fram og dró fyrir ásjónu sína. Hvarf inn í sérherbergið sitt í hausnum.

En þótt framganga Ingu Huldar hafi oft verið víkjandi, hugur hennar hafi virst sveimandi og hún hafi jafnvel sýnt ást sína hikandi, þá bar það ekki vott um deigan persónuleika. Þvert á móti var Inga Huld stór. Eins og mildin. Mildin passar heldur ekki alltaf í boxið.

Gunnar Smári Egilsson.

Þú stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, Inga Huld, og ég segi þú því það er orðið svo langt síðan ég hef setið með þér og rabbað um allt og ekkert. Ég man að einu sinni, þegar við röbbuðum yfir kaffibolla og tarotspilum, þá sagðirðu mér að þú saknaðir þess sárt að geta ekki lengur talað við þau sem hefðu staðið þér nærri en væru nú dáin. Þú þráðir að geta talað við þau um svo margt sem þér lá á hjarta.

Að þessu mæltu brostirðu að eigin orðum á þinn hlýja, ögn feimnislega hátt og leist álút í kjöltu þér en hristir loks höfuðið, hlóst lágum, innbyrgðum hlátri og kveiktir þér í vindlingi.

Það var svo gott, gaman og gefandi að sitja svona með þér. Þegar þú hlóst lagfærðirðu hárbinginn sem þú hafðir bundið upp með því sem hendi var næst, þess vegna gömlum sokki af honum Kristjáni þínum. Þessi innbyrgði hlátur var í senn dimmur og stelpulegur, svipað samansettur og þú sjálf sem barst með þér tilfinningaþrunginn léttleika bæði í fasi og lund. Svo fíngerð á allan hátt en samt með þennan glettna bjarma í augum. Talandinn laufléttur og að sama skapi innilegur þegar þú fræddir mig um hlutskipti fátækra kvenna á Íslandi í gegnum aldirnar eða sagðir mér frá gamla lífinu þínu, þegar þú varst ung að basla með þrjú börn og fyrirferðarmikið tónskáld á heimilinu. Þá þurftirðu að kljást við þá innrætingu umhverfisins að það væru bara skrýtnar konur sem skrifuðu. En síðan lauk gamla lífinu með skilnaði og þú fórst í nám og gast með tímanum leyft þér að skrifa þínar bækur. Þú talaðir af slíkri tilfinningu að mér skildist loks að það er ekki sjálfgefið að vera bæði kona og rithöfundur.

Ég sagði þér að ég hefði lesið bókina þína, Fjarri hlýju hjónasængur, áður en ég kynntist syni þínum og fundist hún svo góð, á svo margslunginn hátt, að ég hafði ekki fyrr lokið við hana en ég byrjaði að lesa hana upp á nýtt. Þá sat ég ein vakandi í sumarnóttinni og horfði með lotningu á mynd af höfundi: svipsterkri konu – sem átti eftir að verða svo kunnugleg.

Seinna dvaldirðu með okkur hjónum í útlöndum og sagðir mér margt sem ég á alltaf eftir að búa að. Oftar en einu sinni fórstu á stúfana og talaðir mínu máli þegar ég átti á brattann að sækja. Þú prófarkalast textana mína, óvenju listræn og kjarnyrt. Og þú klipptir allar umfjallanir um bækur okkar hjóna út og smeygðir í snjáða plastmöppu.

Þú varst engin pönnukökutengdó (nema þegar þú bauðst í danskan bröns) en bjóst til skothelda fiskisúpu og dýrindis kjötbollur upp á franskan sveitamáta sem þú fannst uppskrift að í danskri matreiðsluskruddu. Þú varst svo smart að þegar ég vann eitt sinn með rosknum blaðakonum varð þeim tíðrætt um þig á Tímanum í denn, kasólétta í persónulegum New York-stæl, þá nýkomna úr heimsborginni. Nógu smart til að vera á áttræðisaldri með kopararmbandið um úlnliðinn sem sonur þinn smíðaði í barnaskóla. Ég hlakka til að segja sonarsyni þínum frá ömmu sinni. Ég á eftir að segja honum að þú sért ein af þeim sem ég sakna sárt að geta ekki lengur rabbað við.

Takk, elsku Inga Huld.

Auður Jónsdóttir.

Það er með þakklæti, virðingu og elsku sem ég minnist Ingu Huldar Hákonardóttur. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast henni fyrir um 22 árum sem verðandi ömmu stúlkunnar okkar Þórarins, hennar Sölku. Síðan hefur hún verið amma Inga Huld.

Inga Huld var alveg sérstök kona sem sýndi umhverfi sínu blíðu og miðlaði fallega af þekkingu sinni.

Ég sé hana svífa inn um dyrnar, því einhvern veginn gekk hún ekki, tylla sér á stól, því einhvern veginn settist hún ekki og tala hlæjandi. Hún gat verið svo annarshugar en alltaf var hún fallega annarshugar. Ekki endilega upptekin af hversdeginum eins og flestir kjósa að skilja hann, heldur miklu frekar stödd mitt í sinni eigin sköpun sem var mögnuð og mikil. Einstök gæska, yndislegheit og hlýja er það sem upp úr stendur í minningu elsku Ingu Huldar.

Margrét (Magga Stína).

Þegar ég hugsa um hana Ingu Huld þá er það einhverra hluta vegna hárið sem kemur fyrst upp í hugann. Þetta mikla, fallega, dökka hár sem hún bar eins og kórónu. Svo koma augun og brosið og dimma röddin sem flissaði. Ég lærði snemma að hún var fiskur eins og ég, tilfinningarík og með dreifðan hug, og þegar ég var lítil þá fannst mér eins og þetta væri eitthvað sem við ættum einar saman.

Ég man vel eftir boðunum á Grundarstígnum þar sem leiddar voru saman tvær ólíkar fjölskyldur sem voru þó báðar mínar. Fjölskyldutengsl okkar Ingu voru nefnilega svo margslungin að það var eins konar gestaþraut að útskýra þau fyrir utanaðkomandi. Inga lagði mikið upp úr þessum boðum, sem ávallt voru vel heppnuð. Hún tók á móti fólkinu, glæsileg að vanda í flottum bóhem-kjól, litrík og með stóra skartgripi. Svo þeyttist hún um þar til maturinn var kominn á borðið, þegar hún gat loksins sest niður í spjall og vindil.

Fjölskyldan og fiskarnir voru ekki það eina sem við áttum saman. Þegar þessi orð eru skrifuð sit ég í Kleif á Þingvöllum og horfi á vatnið og blágresið, sem er rétt að byrja að spretta hér og þar. Gestabókin er stútfull af færslum frá Ingu Huld og Kristjáni með frásögnum af fúavörn, arineldi, veðurfari og stöðu himintunglanna. Inga lagði líka mikið upp úr því, þegar ég fór fyrst að venja komur mínar hingað, að það mætti ekki gleyma að skrifa í gestabókina! Það sést á færslunum að þessi tilmæli ná töluvert lengra aftur en það, enda var Inga í eðli sínu áhugasöm um fólk og ferðalög þess. Þann 21. júlí 1997 skrifar Inga Huld: „Blágresið er æðislegt og mér finnst hérna óskaplega fallegt, þótt rigning hafi verið flesta daga.“ Ég vona að það sé jafn fallegt þar sem þú ert núna, elsku frænka, og það hafi stytt upp.

Ólöf Embla Eyjólfsdóttir.

HINSTA KVEÐJA Elsku amma mín. Ég finn svo sterkt fyrir þér. Við deilum poka af súkkulaðikaffibaunum. Þú leitar að fjársjóði í hárinu á þér eða í bunka af skjölum. Þú tekur hlýlega í höndina á mér með stóru ömmuhöndunum þínum. Þú hlærð lágt með glampa í augunum. Takk fyrir hvað það var gott að vera hjá þér. Ást til þín,
Salka.