25. júní 2014 | Innlendar fréttir | 536 orð | 1 mynd

Ótal spurningum ósvarað um sæstreng

• Ekki tímabært að fullyrða um arðsemi sæstrengsins

Sæstrengur Starfsmenn sænsk-svissneska orkurisans ABB.
Sæstrengur Starfsmenn sænsk-svissneska orkurisans ABB.
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Við teljum gríðarlega mikil tækifæri geta verið til staðar í lagningu sæstrengs. Það er alls ekki tímabært að fullyrða um arðsemi sæstrengsins að svo stöddu.
Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Við teljum gríðarlega mikil tækifæri geta verið til staðar í lagningu sæstrengs. Það er alls ekki tímabært að fullyrða um arðsemi sæstrengsins að svo stöddu. Stærsta spurningin núna er hvernig samning bresk stjórnvöld eru tilbúin að gera, og hversu mikið yrði afgangs sem skilaði sér til Íslands. Sem stendur bjóða Bretar mjög hátt verð fyrir raforku í slíkum samningum,“ segir Gústaf Adolf Skúlason framkvæmdastjóri Samorku, um gagnrýni á sölu raforku frá landinu í gegnum sæstreng til Bretlands.

Dr. Baldur Elíasson, fyrrverandi yfirmaður orku- og umhverfismála hjá sænsk-svissneska orkurisanum ABB, sagði í Morgunblaðinu í fyrradag lagningu strengsins „glapræði“.

Baldur nefndi að ef strengurinn yrði lagður þá yrði hann sá lengsti í heiminum og á miklu dýpi. Ef hann myndi bila, sem er óhjákvæmilegt, þá yrði viðgerðarkostnaðurinn hár.

„Vissulega er bæði kostnaðarsamt að leggja strenginn sem og að gera við hann. En íslenski ríkissjóðurinn myndi ekki leggja fram fjármagnið heldur félag sem rekur strenginn. Ef strengurinn liggur niðri þá er ekki seld mikil orka. En nú er ekki tímabært að fullyrða um arðsemina og hvað rynni hingað til okkar, ef til stórra viðgerða kæmi. Engir samningar liggja enn fyrir,“ segir Gústaf.

Baldur talaði einnig um að Ísland myndi varla eiga orku til að sjá íbúum fyrir raforku þegar horft er fram í tímann.

Vatnsaflsvirkjanir reistar?

Í þessu samhengi bendir Gústaf á að Ísland sé sveigjanlegur raforkugjafi í vatnsafli. „Tækifæri okkar liggja í sveigjanlegri raforkuafhendingu og hér er endurnýjanleg raforka. Við gætum þess vegna flutt raforkuna inn, t.d. á nóttunni þegar hún er á lægra verði og selt út á háu verði þegar eftirspurnin er meiri. Þetta eru kostir vatnsaflsins,“ segir Gústaf.

Hann bendir á að það eigi eftir að kanna hvaða áhrif þetta hefði á Ísland og hvort nýjar vatnsaflsvirkjanir yrðu reistar til að anna eftirspurn eftir raforku.

Fagna allri umræðu

„Við fögnum allri umræðu um verkefnið, það er áhugavert en mörgum spurningum er enn ósvarað um tæknilega útfærslu og áhættu,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, um gagnrýni Baldurs á lagningu sæstrengsins.

Hörður segir ummæli fyrrverandi starfmanns ABB koma á óvart í ljósi þess að fyrirtækið hafi unnið að skýrslu um sæstrenginn. Í henni kemur fram að verkefnið er tæknilega framkvæmanlegt. Ósamræmi sé á milli þess sem Baldur segi og þess sem er í skýrslunni.

„Mikil þróun hefur verið í sæstrengjum undanfarin ár. Bæði hafa verið lagðir sæstrengir sem fara á tvöfalt það dýpi sem við færum mögulega á ef til þess kæmi. Eins er búið að leggja strengi á landi sem fara tvöfalda þá vegalengd,“ segir Hörður. Hann ítrekar þó hversu tæknilega krefjandi verkefnið sé og því mikilvægt að gefa því góðan tíma líkt og raunin sé.

Þá bendir Hörður á að ekki sé rétt að raforkuverð erlendis sé lágt líkt og Baldur segi. „Rarforkuverð í Bretlandi er mjög hátt. Þeir semja nú um raforkuverð frá nýju kjarnorkuveri fyrir yfir 150 dollara á megawattstund.“

Eins segir Hörður þá fullyrðingu ekki rétta að við þurfum meiri orku til eigin nota. „Nú þegar eru um 80% af orku sem við framleiðum flutt út í formi áls, járnblendis og þess háttar vara. Öll frekari orkuvinnsla á Íslandi verður flutt út í formi málma eða eins og Norðmenn hafa gert, flutt orkuna út í formi sæstrengja,“ segir Hörður.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.