Raunveruleg tímamót eru ekki um áramót eða árþúsundamót, sem eru aðeins reikningseiningar. En hvenær hafa orðið mest tímamót á Íslandi?

Raunveruleg tímamót eru ekki um áramót eða árþúsundamót, sem eru aðeins reikningseiningar. En hvenær hafa orðið mest tímamót á Íslandi? Flestir svara: við landnámið 874, stofnun Þjóðveldis 930, kristnitöku 1000, breytinguna í norskt skattland 1262, siðaskipti 1550, einokunarverslun 1602, fullt verslunarfrelsi 1855, fyrstu stjórnarskrána 1874, heimastjórn 1904, fullveldi 1918, stofnun lýðveldis 1944. Allt má það til sanns vegar færa. En þrjú ártöl gleymast, þótt þau marki mikilvæg tímamót.

Hið fyrsta er 1096, þegar opinber skattheimta hófst á Íslandi með tíund Gissurar biskups. Tíundin auðveldaði nokkrum höfðingjum, sem réðu mestu um það, hvar kirkjur voru settar niður, að sanka að sér fé, eins og hagfræðingurinn Birgir Þór Runólfsson sýndi fram á í doktorsritgerð. Við þetta raskaðist jafnvægið milli goða þjóðveldisins, og í raun mynduðust nokkur smáríki, undir stjórn Oddaverja, Haukdæla, Sturlunga, Ásbirninga og Svínfellinga, sem háðu borgarastríð, uns Noregskonungur skakkaði leikinn og Ísland varð norskt skattland.

Annað ártalið er 1490, þegar Píningsdómur var settur á Alþingi. Hann var kenndur við Diðrik Píning höfuðsmann og kvað á um það, að útlendingar mættu ekki hafa vetursetu á Íslandi og að jarðnæðislausir menn yrðu að vera í vist hjá bændum, en mættu ekki hafa búðsetu. Með þessu var komið í veg fyrir myndun bæja, og landbúnaður varð eini löglegi atvinnuvegurinn, þótt landið væri harðbýlt, en gjöful fiskimið undan ströndum.

Þriðja ártalið var 1922, þegar sérstakt gengi danskrar krónu var í fyrsta skipti skráð á Íslandi. Áður hafði íslensk króna verið jafngild hinni dönsku, enda voru Danir í myntbandalagi Norðurlanda og dönsk króna, sænsk og norsk jafngildar og allar á gullfæti. Næstu níutíu ár hrapaði íslensk króna niður í einn-tvöþúsundasta af danskri krónu (gengið er nú um 20, en íslensk króna var einnig hundraðfölduð 1983).

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is