9. júlí 2014 | Íþróttir | 235 orð | 1 mynd

Tekur út marga óvissuþætti að fá Craion

Michael Craion
Michael Craion
KR-ingum barst góður liðsstyrkur í gær fyrir komandi vetur í úrvalsdeild karla í körfubolta. Félagið samdi þá við Bandaríkjamanninn Michael Craion, sem lék með Keflavík síðustu tvö ár og var valinn besti erlendi leikmaður úrvalsdeildar í vor.
KR-ingum barst góður liðsstyrkur í gær fyrir komandi vetur í úrvalsdeild karla í körfubolta. Félagið samdi þá við Bandaríkjamanninn Michael Craion, sem lék með Keflavík síðustu tvö ár og var valinn besti erlendi leikmaður úrvalsdeildar í vor.

„Craion er búinn að vera einn allra besti leikmaður deildarinnar undanfarin tvö ár og var réttilega valinn besti erlendi leikmaðurinn á síðasta tímabili. Það munar miklu fyrir okkur að fá mann sem þekkir deildina og veit um hvað allt snýst hérna. Það er mikill styrkur fyrir okkur og tekur um leið út marga óvissuþætti, þannig að við erum mjög spenntir fyrir þessari viðbót,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari karlaliðs KR, þegar Morgunblaðið spjallaði við hann í gær.

Michael Craion verður 26 ára í ágúst. Hann skoraði að meðaltali 23,4 stig í leik með Keflavík í deildarkeppninni síðasta vetur, tók 12,2 fráköst og gaf 2,4 stoðsendingar. Tölfræðin ein og sér segir því talsvert um Craion.

„Hann var gjörsamlega frábær með Keflavík síðustu tvö ár og við áttum í bölvuðu basli með hann í leikjunum okkar við Keflavík í vetur. Það lá þess vegna að sjálfsögðu beinast við að kanna stöðuna á manninum eftir síðasta tímabil. Fljótlega eftir að við heyrðum í honum var ljóst að hann hafði áhuga á því að koma til okkar. Ef það er í boði að taka besta erlenda leikmanninn í deildinni gerir maður það auðvitað,“ sagði Finnur Freyr við Morgunblaðið um Michael Craion. thorkell@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.