Kemur frá borði Einar Jóhannesson klarinettuleikari leikur í Hofi í dag.
Kemur frá borði Einar Jóhannesson klarinettuleikari leikur í Hofi í dag. — Morgunblaðið/Golli
Forvitnileg og ókeypis kammerveisla verður í Hofi í dag þegar á svið stíga hljóðfæraleikarar af skemmtiferðaskipinu Black Watch, sem leggur að bryggju í morgunsárið. Skv.

Forvitnileg og ókeypis kammerveisla verður í Hofi í dag þegar á svið stíga hljóðfæraleikarar af skemmtiferðaskipinu Black Watch, sem leggur að bryggju í morgunsárið. Skv. tilkynningu eru tónlistarmennirnir, sem alla jafna skemmta farþegum um borð í skipinu, á heimsmælikvarða og kynnirinn, Hilary Finch, þekktur tónlistargangrýnandi og útvarpskona. Tónleikarnir hefjast kl. 18.00.

Tónlistarmennirnir eru erlendir nema hvað Einar Jóhannesson klarinettuleikari bættist í hópinn í Reykjavík í fyrradag. Einar heldur áfram með skipinu allt til Newcastle á Englandi.

Auk Einars leika á tónleikunum flautuleikari og fyrsta flauta í Sinfóníuhljómsveit Lundúna, sellóleikarinn Alasdair Tair sem lék áður með Balcea-kvartettinum og píanóleikarinn Carole Presland. Allt eru þetta leiðandi listamenn í stóru hljómsveitunum í Bretlandi.

Black Watch lagði úr höfn í Newcastle 20. júlí með um 800 tónelska farþega. Ferðaskrifstofan Kirker Holidays sérhæfir sig í menningarferðum og í þessari siglandi tónlistarveislu verður siglt umhverfis Ísland með viðkomu í Færeyjum. Tónlistarmennirnir halda tónleika um borð á hverjum degi en tónleikarnir í Hofi eru þeir einu sem öðrum en farþegum skipsins gefst kostur á að hlýða á.