Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Friðarsúlan í Viðey verður tendruð þann 7. ágúst næstkomandi vegna ástandsins á Gaza. Yoko Ono tilkynnti um þetta á Facebook-síðu sinni í gærkvöld en þar segist hún vera harmi slegin yfir þeim mikla fjölda saklausra barna sem týnt hafa lífi að undanförnu vegna átaka Ísraelshers við Hamas.
„Þessi tendrun verður til minningar um þau börn sem fallið hafa í átökum á Gaza og í raun til minningar um öll þau börn sem hafa látist eða borið skaða af vegna vopnaðra átaka í heiminum,“ segir Ágústa Rós Árnadóttir, verkefnastjóri í Viðey, í samtali við Morgunblaðið.
Auk Yoko Ono standa að viðburðinum Reykjavíkurborg, Félagið Ísland-Palestína og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.
Spurð hvort haldin verði athöfn í Viðey vegna tendrunar Friðarsúlunnar kveður Ágústa Rós já við. „Það verður haldin athöfn í Viðey og er öllum sem vilja velkomið að mæta þangað,“ segir hún.