Setning Þær Bríet Lilja Sigurðardóttir og Linda Þórdís Róbertsdóttir úr U16-landsliði Íslands í körfuknattleik, hlaupa hér með kyndilinn á setningarathöfninni á Sauðárkróki í gærkvöldi.
Setning Þær Bríet Lilja Sigurðardóttir og Linda Þórdís Róbertsdóttir úr U16-landsliði Íslands í körfuknattleik, hlaupa hér með kyndilinn á setningarathöfninni á Sauðárkróki í gærkvöldi. — Ljósmynd/Birgir Örn Sigurðsson
17. Unglingalandsmót UMFÍ, sem haldið er á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina, var sett með formlegum hætti að viðstöddu miklu fjölmenni í gærkvöld. Þátttakendur gengu fylktu liði inn á íþróttavöllinn en yfir 1.

17. Unglingalandsmót UMFÍ, sem haldið er á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina, var sett með formlegum hætti að viðstöddu miklu fjölmenni í gærkvöld. Þátttakendur gengu fylktu liði inn á íþróttavöllinn en yfir 1.500 keppendur á aldrinum 11-18 ára taka þátt í mótinu. Mótshaldarar búast við að 10 þúsund gestir muni sækja mótið um helgina. Keppt er í 17 keppnisgreinum og hafa þær aldrei verið fleiri fram að þessu. Margt af okkar fremsta íþróttafólki hefur stigið sín fyrstu spor á unglingalandsmóti en þeim hefur vaxið fiskur um hrygg með hverju árinu. Þetta er í þriðja sinn sem mótið er haldið á Sauðárkróki en öll aðstaða er með því besta sem þekkist á landinu.

Árangur ekki eingöngu mældur í afrekum

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, sagði í setningaræðu sinni markmið og uppeldisleg gildi unglingalandsmótanna hafa náð að gera öllum börnum og unglingum á aldrinum 11-18 ára kleift að taka þátt þar sem þátttakan er ekki síður mikilvæg heldur en árangurinn. Í ræðu hennar sagði hún orðrétt: ,,Við vitum að árangur í íþróttum er ekki eingöngu mældur í afrekum heldur einnig í því að með þátttökunni felst samvera, heilsuefling, forvörn og skemmtilegur félagsskapur. Hin mikla þátttaka sem hefur verið í mótunum er mælikvarði um að vel hafi tekist til. Við getum því fagnað og verið stolt af því að hafa þróað þetta verkefni saman, ungmennafélagshreyfingin, keppendur, foreldrar, stjórn og styrktaraðilar.“

Unglingalandsmótið heldur áfram af fullum krafti í dag og á morgun en lýkur síðan með veglegri flugeldasýningu laust fyrir miðnætti á sunnudagskvöldið. sport@mbl.is