[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðlaug Þór Þórðarson: "Brýn þörf er á að forgangsraða áfram í þágu þessa málaflokks."

Við Íslendingar erum það lánsamir að landsmenn lifa lengur en áður og við betri heilsu. Slík þróun felur í sér miklar breytingar fyrir þjóðfélagið. Flestar eru mjög jákvæðar en kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu mun aukast verulega.

Þetta er alþjóðleg þróun og á sérstaklega við í þeim löndum sem að við berum okkur saman við. Financial Times telur að kostnaðurinn verði tífalt meiri en kostnaðurinn við þá fjármálakreppu sem við nú göngum í gegnum. Kostnaður kemur fram í aukinni eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum, aukinni heilsugæslu, sjúkrahúsþjónustu o.s.frv.

Almenna reglan skv. OECD er að kostnaður við þá sem eru eldri en 65 ára er fjórfalt hærri en fyrir þá sem yngri eru. Þetta er að sjálfsögðu meðaltal en segir sína sögu.

Samkvæmt Hagstofu Íslands mun Íslendingum 67 ára og eldri fjölga úr 36 þúsund í 54 þúsund frá árinu 2013 til ársins 2025 eða um 50%!

Verðum að fjölga hjúkrunarrýmum

Dæmi um aukna þörf er aukin eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum. Í opinberum áætlunum er gert ráð fyrir að 2,3% af fjölda íbúa á aldrinum 67-74 ára þurfi hjúkrunarrými, 4,9% þeirra sem eru 75-79 ára og 17,2% þeirra sem eru eldri en 80 ára.

160 rými kosta um 4,3 milljarða á ári í stofnkostnað og 1,4 milljarða í rekstur.

Þurfum við að byggja tvo nýja Landspítala?

Rekstrarkostnaður fyrir hvert hjúkrunarrými er 8,4 milljónir á ári. Þannig að rekstrarkostnaðurinn yrði 8,4 milljarðar til 12,6 milljarðar til viðbótar við það sem nú er.

Stofnkostnaður er um 27 milljónir á einstakling eða 27 til 40 milljarðar miðað við óbreyttar forsendur. Til samanburðar má nefna að fyrsti áfangi nýs Landspítala kostar 50 milljarða.

Til að setja þessar upphæðir í samhengi er rétt að benda á að í fjárlögum í ár eru 22.463 m.kr. til reksturs stofnana sem dreift er með daggjöldum og 1.764 m.kr. í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Framkvæmdasjóðurinn er með 416 m.kr. í stofnkostnað og 270 m.kr. í viðhaldsframkvæmdir. Afgangurinn, 1.078 m.kr., fer ýmist í að styrkja rekstur heimila eða greiða leigugreiðslur til sveitafélaga vegna framkvæmda á þeirra vegum.

Áætlanir hafa gert ráð fyrir að byggja um 500 rými á hverjum 10 árum. Á undanförnum fimm árum hefur rýmunum fækkað um 150.

Það er augljóst að hér er um mjög stórt verkefni að ræða og það liggur í augum uppi hve mikilvægt er að leita fleiri og fjölbreyttari leiða en að leggja áherslu á stofnanauppbyggingu.

Heildarstefnumótun nauðsynleg

Það að Íslendingar lifi lengur er ánægjuleg þróun en við þurfum að vera tilbúin til að takast á við þær breytingar sem því fylgja. Brýn þörf er á að forgangsraða áfram í þágu þessa málaflokks, einnig er stefnumótun nauðsynleg, sem miði að því að koma til móts við breyttar þarfir í heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að auka lífsgæði, sem m.a. felur í sér að fólk geti búið áfram heima eins lengi og mögulegt er. Það þýðir t.d. að lögð yrði aukin áhersla á heimaþjónustu og heimahjúkrun.

Ef við undirbúum okkur munum við ná árangri. Vilji er allt sem þarf.

Höfundur er alþingismaður.