Lívey Eiríka Lill Bounatian-Benatov Argoutinsky-Dolgorouky fæddist 18. júlí 1996. Hún lést 7. júní 2014. Lívey var jarðsett í Chevreuse 13. júní 2014.

Mig langar til að senda Livey, ástkærri dótturdóttur minni, hinstu kveðju en hún lést af slysförum á heimili sínu í Frakklandi nú í vor. Hún var kornung, vantaði einn mánuð upp á 18 ára afmælið þegar dauðinn batt enda á líf hennar. Lilja, dóttir mín, var móðir hennar og Lorianna, alsystir hennar, var tíu árum eldri. Faðir hennar, Leonardo Benatov, átti norska móður sem hét Livey og þaðan fékk hún nafnið, en ættmenn hans voru aðalsfólk frá Rússlandi og Armeníu. Þaðan flúði fjölskyldan á árum fyrri heimsstyrjaldar og settist að í útjaðri Parísar þar sem hún setti á stofn málmsteypu sem sérhæfði sig í afsteypum verka eftir þekkta listamenn. Þetta fyrirtæki starfar enn og heimili fjölskyldunnar er kastali í bæ sem nefnist Chevreuse. Garðurinn er prýddur mörgum listaverkum sem mynda fagra umgjörð um þetta fallega hús. Þarna er lítil kirkja og Livey var jarðsett þar í kórnum.

Þarna ólst hún upp hún Livey mín og þar áttum við góðar stundir saman þegar ég dvaldist í nokkra mánuði á heimilinu fyrir fimm árum. Þá var hún í skóla og mitt hlutverk var að sjá um morgunmatinn fyrir okkur. Hún Livey mín gat verið smávegis stríðin við afa sinn en allt var það í góðu. Ég var náttúrlega ákveðinn í að láta hana borða áður en hún færi í skólann og það gekk ágætlega. Við náðum vel saman. Hún var svo glaðlynd og lífsglöð stúlka að það var ekki annað hægt en að vera í góðu skapi nálægt henni. Hún var líka alltaf hrein og bein. Hafði skoðanir á málum og lá ekkert á þeim.

Livey Eiríka Lill Bounatian Benatov Argoutinsky Dolgorouky. Hún hét öllum þessum nöfnum blessunin og þeim fylgdi aðalstign en því flíkaði hún aldrei. Livey elskaði Ísland og að vera á Íslandi og kom oft hingað í heimsókn. Síðast núna í sumar. Þá fór hún í ökuferðir um landið með ömmu sinni. Hún talaði góða íslensku og hélt mjög góðu sambandi við frændfólk sitt hér heima þótt hópurinn væri stór. Litlu frænkur hennar, Savannah og Sofia, sem búa í Hong Kong en dveljast nú á Íslandi báðu fyrir ástarkveðjur til hennar svo og allt hennar frændfólk hérlendis. Livey var þannig gerð að hún eignaðist alls staðar vini og hér átti hún þá marga. Hún var af mörgum þjóðernum en mér fannst hún hafa fengið allt það besta frá þeim öllum. Það sem einkenndi hana mest var sjálfstæði, hlýleiki og frændrækni.

Við Livey áttum margar indælar samverustundir sem ljúft er að minnast. Þessi glaðlynda stúlka virtist eiga allt lífið framundan. En svo kemur það að þegar hún er farin þá hefði maður viljað gera svo miklu meira fyrir hana. En það gat engan grunað að svona myndi fara. Það er óraunverulegt að gera ráð fyrir því að sautján ára stúlka, falleg, lífsglöð og heilbrigð hverfi úr heiminum allt í einu. Þetta var mikið áfall fyrir fjölskylduna. Hún er vængbrotin.

Elsku Livey mín. Það er komið að kveðjustund. Þakka þér fyrir að hafa komið í heiminn og að hafa verið sólargeisli í lífi mínu og allrar fjölskyldunnar. Það er bjart yfir minningunni um þig í huga okkar. Guð geymi þig. Þinn elskandi afi.

Skafti Skúlason.