Einbeittur Usain Bolt tekur við keflinu fyrir fyrsta keppnissprett sinn í ár.
Einbeittur Usain Bolt tekur við keflinu fyrir fyrsta keppnissprett sinn í ár. — AFP
Usain Bolt, fljótasti maður heims, sneri loks aftur á hlaupabrautina í gærkvöld, eftir að hafa ekkert keppt á árinu 2014, þegar hann hljóp lokasprett Jamaíkumanna í undanriðli 4x100 metra boðhlaups á Samveldisleikunum í Glasgow.

Usain Bolt, fljótasti maður heims, sneri loks aftur á hlaupabrautina í gærkvöld, eftir að hafa ekkert keppt á árinu 2014, þegar hann hljóp lokasprett Jamaíkumanna í undanriðli 4x100 metra boðhlaups á Samveldisleikunum í Glasgow. Bolt hljóp lokasprettinn, stakk sér fram úr fulltrúa nígerísku sveitarinnar og kom fyrstur í mark frammi fyrir troðfullum leikvanginum á Hampden Park. Sveit Jamaíku hljóp á 38,99 sekúndum sem er talsvert frá heimsmeti Jamaíkumanna en Bolt sagði menn horfa til úrslitanna sem fram fara í kvöld.

Eunice Sum frá Keníu vann 800 metra hlaup kvenna en Bretarnir Lynsey Sharp og Jessica Judd, sem verða keppinautar Anítu Hinriksdóttur á EM í Zürich síðar í mánuðinum, náðu einnig góðum tímum. Sharp varð í 2. sæti á 2:01,34 mínútum. sindris@mbl.is