Ágúst Ísfeld Sigurðsson fæddist í Keflavík 2.ágúst 1924. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Hrafnistu, Reykjavík 10. júlí 2013.

Foreldrar hans voru Sigurður Ingjaldsson Pétursson, f. 16.10. 1895, d. 8.8. 1972 og Jósefína Jósefsdóttir, f. 21.9. 1890, d. 28.3. 1975. Bræður Ágústs samfeðra voru Guðjón Sverrir, f. 17.10. 1925, d. 22.3. 2008 og Pétur Sigurður, f. 2.7. 1928, d. 15.12. 1996. Systkini Ágústs sammæðra voru Ósk Sigurrós Sigurðardóttir, f. 2.2. 1920, d. 7.8. 1978, Finnur Eyjólfsson, f. 6.9. 1930, Jón Eyjólfsson, f. 12.2. 1932, Svanhildur, f. 4.1. 1934 og Lilja f. 4.1. 1934, d. 6.5. 2013, Sigurgísli, f. 9.7. 1935. Ágúst giftist 4.1. 1948, Ingibjörgu Kristjönu Guðmundsdóttur, f. 22.7. 1921, d. 14.11. 2010; þau skildu. Foreldrar hennar voru Guðmundur Árnason, f. 29.5. 1889, d. 2.4. 1972 og Steinunn Guðmundsdóttir, f. 29.9. 1896, d. 19. 2. 1986. Dætur þeirra: 1) Soffía Guðrún, f. 15.3. 1947, maki: Friðrik H. Ólafsson, f. 25.9. 1946, d. 23.2. 2012; þau skildu, Þau eiga 2 börn og þrjú barnabörn. Maki: Einar Jónsson, f. 5.10. 1945, þau eiga eitt barn. 2) Ósk Sigurrós, f. 12.7. 1949, maki: Þorsteinn Tryggvason, f. 11.5. 1946, þau eiga 2 börn og þrjú barnabörn. Ágúst giftist 30.12. 1965 Salbjörgu Steinunni Jeremíasdóttur, f. 9.8. 1943, d. 7.9. 2001. Foreldrar hennar voru: Jeremías Kjartansson, f. 28.6. 1913, d. 3.7. 2003 og Cecelía Kristjánsdóttir, f. 10.5. 1919, d. 15.10. 2006. Börn þeirra eru: 1) Anna Björk, f. 26.7. 1962, 2) Hafrún Lára, f. 9.10. 1963, hún á 4 börn og 2 barnabörn. 3) Ágúst Ísfeld, f. 20.11. 1964, hann á eitt barn, 4) Cecelía Heiða, f. 13.4. 1966, maki: Símon Elí Teitsson, f. 8.5. 1962; þau eiga 3 börn og 2 barnabörn. 5) Erla Hildur, f. 12.11. 1969, hún á tvö börn.

Ágúst ólst upp í Keflavík hjá móður sinni og systur til 5 ára aldurs. Fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur þegar móðir hans giftist Eyjólfi Finnssyni. Frá 9 til 16 ára aldurs dvaldi hann á Fremri-Breiðdal í Önundarfirði. Hann stundaði síðar nám í Iðnskólanum í Reykjavík; fór í Fiskvinnsluskólann og fékk réttindi sem fiskmatsmaður. Ágúst fékkst við ýmis störf; stundaði sjómennsku á Ísafirði og fékkst við akstur í Reykjavíkur. Í stríðslok fór hann aftur til sjós og var á togurum sem sigldu með aflann til Evrópuhafna en kom einnig við á fragtskipum um tíma. Hann fór síðan að vinna í landi, fyrst sem fiskmatsmaður og síðar sem verkstjóri í frystihúsum víðsvegar um land. Í kringum 1970 sneri hann sér að öðru og fór að vinna sem verkstjóri hjá Reykjavíkurborg. Þá vann hann hjá ýmsum einkafyrirtækjum eins og hjá Garðari Gíslasyni en síðast hjá Innkaupum.

Félagsstörf voru Ágústi hugleikin. Hann var fyrsti formaður sóknarnefndar Grafarvogskirkju. Þá sat hann í fyrstu stjórn félags sjálfstæðismanna í Grafarvogi. Frá 2006 og fram á síðustu ár tók Ágúst virkan þátt í félagsstarfi eldri borgara og kirkjustarfi Fella- og Hólakirkju.

Útför Ágústs fór fram í kyrrþey frá Fella- og Hólakirkju 17. júlí 2013.

Rétt ár er liðið síðan tengdafaðir minn, Ágúst Ísfeld Sigurðsson lést, þá tæplega 89 ára gamall. Ég kynntist honum tiltölulega seint, þ.e. hann var kominn á sjötugsaldur þegar leiðir okkar lágu saman en það er eins og verða vill; ég seinni maki dóttur hans af fyrra hjónabandi. Ekki hafði aldurinn þó markað þennan mann mikið þegar ég sá hann fyrst og gerði ekki lengst af. Hann hafði hreyfingar og fas sextugs manns vel fram yfir hálf nírætt. Bæði fyrri kona hans (tengdamóðir mín) og síðari kona hans, eru látnar; sú síðarnefnda reyndar langt fyrir aldur fram en það var eins og ellin færi fram hjá Ágústi, hún beit ekkert á hann þar til undir það allra síðasta. Aðeins tíu dögum áður en hann var allur hringdi hann í okkur og stakk upp á því að koma í sunnudagsbíltúr um borgina því sólin skein svo glatt, aldrei þessu vant í allt sumar; rétt eins og til að gleðja þennan langferðamann sem vissi vel að hann var brátt á förum fyrir fullt og allt. Sú ferð var farin og maður fékk eins og oft áður fræðslu um gömul stórhýsi, eigendur þeirra og þá starfsemi er þar fór eitt sinn fram. Svo var stoppað í ísbúð að hans eigin ósk; ekkert var eðlilegra. Svona var lífið, svona hafði hann lifað því og það var engin ástæða til að hætta að lifa „eðlilegu lífi“ þótt ef til vill væru fáir dagar til stefnu. Hann hafði að mestu búið einn síðustu árin og þegar hann flutti inn á elliheimili nú í mars sl. var hann mjög ánægður að komast í gott skjól, því hann hafði fengið þann skapadóm frá læknum sínum að heilsunni færi óhjákvæmilega mjög hrakandi, þó ekki væri víst hversu hratt. En þó hann kynni að meta skjólið bryddaði þó á sárindum yfir því að vera skyndilega staddur á meðal fólks sem honum fannst hann geta haft of lítil félagsleg samskipti við því Ágúst var félagsvera út í fingurgóma af guðsnáð; vildi hafa fólk í kringum sig og jafnvel stjórna því aðeins líka, eins og rómaður safnaðarformannsferill hans í Grafarvogskirkju ber vitni um. Mér kom hann fyrir sjónir sem mikill fjölskyldumaður sem vildi hafa góð tengsl við þann stóra hóp sem voru börn hans og barnabörn. Börnin urðu aldrei útundan þótt aldursmunurinn spannaði kannski 80 ár. Úr sumarbústaðnum okkar fyrir vestan á ég minningu um mann sem hálfníræður settist niður á stofugólfið með fimm ára gömlum tvíburunum, barnabörnum sínum, til þess að leika við þau. Við náðum vel saman þegar kom að því að tala um sjóinn og sjómennsku. Sem ungur maður var hann á bátum og togurum og sigldi m.a. á England og Þýskaland skömmu eftir stríð og sótti einnig Grænlandsmið. Mér finnst stundum hálf óskemmtilegt að berjast á skipi í náttmyrkri og ólgusjó íslenskra vetrarveðra. Þetta hlýtur þó að vera leikur einn í dag miðað við aðstæður og skip fyrir 60-70 árum; togurum með opið dekk þar sem hver skvetta sem inn fyrir kom, buldi á mönnunum við vinnu sína. Aldrei var tengdafaðir minn að velta sér upp úr slíku í samtölum okkar. Æðruleysi einkenndi hann. Lífið er til þess að taka því eins og það er hljóta að hafa verið hans einkunnarorð.

Einar Jónsson.