Síðustu vísnagátu átti Guðmundur Arnfinnsson: Bærist hann í brjósti manns, bjargræðis er tími þá, bónarvegur betlarans, birtist oflátungi hjá. Harpa á Hjarðarfelli sendi þessa lausn: Í hverju brjósti hjarta slær, um heyannirnar bóndinn slær.

Síðustu vísnagátu átti Guðmundur Arnfinnsson:

Bærist hann í brjósti manns,

bjargræðis er tími þá,

bónarvegur betlarans,

birtist oflátungi hjá.

Harpa á Hjarðarfelli sendi þessa lausn:

Í hverju brjósti hjarta slær,

um heyannirnar bóndinn slær.

Þig betlarinn um brauðið slær,

en burgeisinn hann um sig slær.

Hér kemur ráðning Helga R. Einarssonar:

Brjóstsins, bjargræðisins

og betlaranna háttur

og eðli oflátungsins

auðvitað er sláttur.

Guðmundur Arnfinnsson sendi mér tölvupóst: „Kæri Halldór. Þú varst nýlega á gönguför í Reykhólasveit þér til ánægju og heilsubótar:

Reykhólasveitin er gesti góð

sem gengur þar og mælir ljóð

af munni fram við menn og fljóð

á Matthíasar heimaslóð.

Sá Matthías, sem hér um getur, var Jochumsson og eitt höfuðskáld síns tíma. Hann var prestur og orti þetta, þegar hann fékk synjun um eitthvað sem hann hafði sótt um hjá safnaðarfundi:

Þegar ég heyrði þinglokin,

þá hljóp í mig gikkurinn;

sagði ég við Manga minn:

„Mígðu nú yfir söfnuðinn.“

Ég gleymdi að hafa með ráðningu á gátu minni í síðasta pistli:

Hjartsláttur bærist í brjósti manns,

bjargræðistími er sláttur.

Sláttur er úrræði öreigans

og oflátungsins háttur.“

Síðan barst mér annað bréf frá Guðmundi þar sem hann bað mig forláta ítrekaðar bréfasendingar því:

Stundum varla vaknaður

ég vitleysurnar læt í té,

en úr roti raknaður

ritvillurnar tíðum sé.

Að vísu átta ég mig ekki á, hvaða ritvillur hann er að tala um og verður við svo búið að standa!

Harpa á Hjarðarfelli sendi mér tvær vísnagátur fyrir viku og þykir mér rétt að birta þær báðar í senn og sjá hvernig lesendum bregður við:

Fylgispakur félaginn.

Forhertur og ósvífinn.

Stundum líka birtu ber.

Börn við spilin dunda sér.

Húsdýrið fær lof og last,

lifir annað trjánum í.

Beitir nöglum býsna fast.

Byrðin hangir neðan í.

Lausn verður að berast fyrir hádegi á þriðjudag að þessu sinni.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is