[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is „Þetta er að mörgu leyti allt annað þó að það snúist um sama hlutinn, að kasta bolta og reyna að vinna.

Handbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Þetta er að mörgu leyti allt annað þó að það snúist um sama hlutinn, að kasta bolta og reyna að vinna. En það er engin spurning að þetta er stærra svið, sama hvert litið er, hvort sem það varðar leikmenn eða umgjörð,“ sagði handknattleiksþjálfarinn Geir Sveinsson í samtali við Morgunblaðið í gær, en Geir tók formlega við þjálfun þýska 1. deildar liðsins Magdeburg þann 1. júlí eftir að hafa þjálfað Bregenz í Austurríki í tvö ár þar á undan.

Geir segist fagna áskoruninni sem hann segir vissulega á sama tíma vera krefjandi. „Það hefur allt gengið samkvæmt áætlun hingað til, en þetta er vissulega meiri alvara og ég finn fyrir því. Ég horfi bjartsýnum en jafnframt raunhæfum augum á þetta enda geta hlutirnir farið á alla vegu, maður er bara kominn til að gera sitt besta,“ sagði Geir, en Magdeburg lenti í sjöunda sæti í deildinni í fyrra og er honum ætlað að gera betur á komandi tímabili.

Skýr krafa um árangur

„Væntingarnar eru miklar og menn vilja árangur. Þetta er félag með mikla hefð og vill ná langt,“ sagði Geir, sem er ekki fyrsti íslenski þjálfarinn sem heldur um taumana hjá félaginu.

Alfreð Gíslason þjálfaði Magdeburg á árunum 1999-2006 og undir hans stjórn varð liðið bæði þýskur meistari og Evrópumeistari, en íslenskir þjálfarar hafa átt góðu gengi að fagna í þýska handboltanum. Geir segir það vissulega setja aukna pressu á sig um að ná árangri.

„Ég held að það sé engin spurning að væntingarnar eru meiri til mín vegna þess góða árangurs sem íslenskir þjálfarar hafa náð. Það spilar rullu í þessu öllu saman. Að það sé til einhver nákvæm íslensk uppskrift sem við förum allir eftir held ég nú ekki, en bakgrunnurinn hjá okkur er engu að síður svipaður,“ sagði Geir.

Guðmundur Guðmundsson var þjálfari Rhein-Neckar Löwen áður en hann tók við danska landsliðinu í sumar. Þá þjálfar Dagur Sigurðsson lið Füchse Berlin og Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Eisenach sem féll úr deildinni í vor. Geir gerir hlutina hins vegar á eigin forsendum.

„Ég er bara ég“

„Eins og ég segi alltaf, ég er enginn Alfreð, Gummi eða Dagur. Ég er bara ég og kem með mínar áherslur á mínum forsendum. Svo bara gengur það eða gengur ekki,“ sagði Geir, sem fékk stutt sumarfrí enda þurfti að huga að flutningum frá Austurríki til Þýskalands

„Það er allt klárt og ég lít á það sem gríðarlega stórt og ánægjulegt tækifæri að fá að taka þátt í þessu. Fríið var svolítið stutt eins og oft vill verða, ég náði bara einhverjum tveimur vikum heima en það var engu að síður frábært,“ sagði Geir Sveinsson, en hann notaði fríið meðal annars til þess að gifta sig með pompi og prakt hér heima.

Geir Sveinsson
» Spilaði á sínum tíma 340 leiki með íslenska landsliðinu í handknattleik og var atvinnumaður í mörg ár.
» Hóf þjálfaraferilinn hjá Val en hefur síðustu tvö ár þjálfað austurríska liðið Bregenz.
» Tók formlega við Magdeburg í byrjun júlí en samningur hans er til tveggja ára.