Verbúðir Framkvæmdir eru hafnar við að breyta Verbúð 11 í veitingastað.
Verbúðir Framkvæmdir eru hafnar við að breyta Verbúð 11 í veitingastað. — Morgunblaðið/Eggert
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Enn eru að verða breytingar á grænu verbúðunum við gamla hafnarbakkann í Reykjavík. Jón Sigurðsson og fjölskylda, eigendur Sindrafisks, vinna nú hörðum höndum að því að breyta fiskverkuninni í Verbúð 11 í veitingastað.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Enn eru að verða breytingar á grænu verbúðunum við gamla hafnarbakkann í Reykjavík. Jón Sigurðsson og fjölskylda, eigendur Sindrafisks, vinna nú hörðum höndum að því að breyta fiskverkuninni í Verbúð 11 í veitingastað. Til stendur að opna staðinn í byrjun nóvember næstkomandi.

„Annars erum ekki komin með neinar dagsetningar. Góðir hlutir gerast hægt,“ segir Sigurður Sveinn Jónsson, sem ásamt fleirum í fjölskyldunni kemur að uppsetningu veitingastaðarins.

Staðurinn mun taka um 60-80 manns í sæti og áhersla verður lögð á sjávarrétti.

„Við höldum tryggð við málstaðinn, enda kunnum við ekki annað,“ segir Sigurður en Sindrafiskur hefur verið með fiskverkun á þessum stað í tugi ára. Kokkurinn í fjölskyldunni, Guðmundur Jónsson, hefur tekið að sér það hlutverk að undirbúa og þróa matseðlana, en veitingastaðurinn er ekki kominn með nafn ennþá.

Hvít og græn verbúð

Verbúð 11, þá hvítu, keypti fjölskyldan fyrir um 30 árum en leigir þá grænu í númer 10 áfram af Faxaflóahöfnum og þar verður fiskverkun starfrækt áfram, sú síðasta á þessu svæði. Sigurður segir það hafa tekið sinn tíma að afla tilskilinna leyfa áður en framkvæmdir gátu hafist. Gera þarf nokkrar breytingar á húsinu, eins og brjóta úr suðurgaflinum til að setja þar upp glugga. Síðar meir er ætlunin að koma upp útiaðstöðu, þannig að gestir staðarins geti sest niður og notið veðurblíðunnar. Sér fjölskyldan fyrir sér að ágætlega skjólsælt verði sunnan við húsið.