Jón Hákon Magnússon fæddist 12. september 1941. Hann lést 18. júlí 2014. Útför hans fór fram 29. júlí 2014.

Fyrir um átján árum síðan las ég umfjöllun um tíu ára afmæli KOM í blöðunum, ég sá að þarna var eitthvað sem ég vildi kynna mér betur. Ég hafði samband við Jón Hákon Magnússon og bauð hann mér að koma á tíu ára afmælisráðstefnu KOM og þá var ekki aftur snúið.

Ég hitti Jón Hákon svo aftur skömmu síðar en ég hafði þá hugsað mér að skrifa um almannatengsl sem lokaverkefni mitt í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, það var efni fundarins, en í lok þess fundar var ég komin með vinnu sem lærlingur hjá KOM. Mín fyrstu kynni af Jóni Hákoni finnst mér lýsa honum vel, hann var alltaf tilbúinn að aðstoða, leiðbeina og greiða götu þeirra sem til hans leituðu.

Ritgerðarefnið varð annað en ég starfaði hjá KOM, fyrst sem lærlingur í um þrjá mánuði, en svo sem ráðgjafi í um tvö góð ár. Við hlógum að því seinna hvernig fundur um ritgerðarefni hefði breyst í atvinnu, en Jón Hákon hafði sagt á fundinum að til þess að kynnast almannatengslum þyrfti maður að starfa við fagið, ég spurði hann þá hvort hann væri að bjóða mér vinnu. Svarið var já, en seinna sagði hann mér að hann hefði átt erfitt með að segja nei við mig, þar sem nafn mitt var það sama og eiginkonu hans og dóttur. Það er með þakklæti sem ég hugsa til Jóns Hákons, hann hafði mikil og góð áhrif á mitt líf og var alltaf tilbúinn að aðstoða og ráða heilt.

Það var gaman að vinna hjá KOM og eitt af mínum fyrstu verkum var að aðstoða við tíu ára afmæli leiðtogafundarins sem var mikið ævintýr. Verkefnin voru fjölmörg, en það sem situr eftir eru kynni af góðum manni og fólki og hvað það var góður skóli að starfa með Jóni Hákoni, fagmennska, heiðarleiki og vinnusemi var alltaf í fyrirrúmi.

Jón Hákon var frumkvöðull á sviði almannatengsla og alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd ef það myndi koma til góða og stuðla að meiri þekkingu á almannatengslum og auka fagmennsku í faginu. Skarð Jóns Hákons Magnússonar verður seint fyllt.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Hávamál)

Hafðu þökk fyrir allt.

Áslaugu, Áslaugu Svövu og Herði Hákoni votta ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Áslaug Pálsdóttir.