Inside Men Óheiðarlegur starfsmaður í vanda.
Inside Men Óheiðarlegur starfsmaður í vanda.
Skjár einn á heiðurinn af því að sýna um þessar mundir sjónvarpsþætti sem bera af flestum öðrum sem nú eru sýndir á íslenskum sjónvarpsstöðvum. Þetta er fjögurra þátta breskur framhaldsmyndaflokkur og heitir Inside Men.

Skjár einn á heiðurinn af því að sýna um þessar mundir sjónvarpsþætti sem bera af flestum öðrum sem nú eru sýndir á íslenskum sjónvarpsstöðvum. Þetta er fjögurra þátta breskur framhaldsmyndaflokkur og heitir Inside Men. Þættirnir segja frá starfsmönnum sem ræna fyrirtækið sem þeir vinna hjá, en þar eru geymdir gríðarlega miklir peningar. Þættirnir lýsa aðdraganda ránsins, persónunum sem fremja það og eftirleiknum. Þættirnir eru einkar vel leiknir og persónurnar afar trúverðugar og atburðarásin hröð og spennandi. Einhverjir hljóta að spyrja sig hvort þeir myndu falla í freistni stæði þeim til boða að verða vellauðugir og þurfa í staðinn „bara“ að stunda svæsna blekkingarleiki í vinnunni.

Einungis tveir þættir hafa verið sýndir af Inside Men en niðurstaðan virðist þó vera í ætt við hin góðu og alkunnu sannindi að heiðarleiki borgar sig. Svo er mjög sennilega ekki eins gaman og maður ímyndar sér að vera vellauðugur. Það gerir fólk örugglega latt og sljótt og frekt og tillitslaust. Og um leið hættir fólk því sem er svo mikilvægt, þ.e. að kunna að gleðjast yfir litlu.

Kolbrún Bergþórsdóttir