2. ágúst 1874 Þjóðhátíð var haldin í Reykjavík og víða um land til að minnast þess að 1000 ár voru frá landnámi Íslands. Við guðsþjónustu í Dómkirkjunni var í fyrsta sinn sunginn Lofsöngur, sem hefst á orðunum Ó, Guð vors lands!
2. ágúst 1874
Þjóðhátíð var haldin í Reykjavík og víða um land til að minnast þess að 1000 ár voru frá landnámi Íslands. Við guðsþjónustu í Dómkirkjunni var í fyrsta sinn sunginn Lofsöngur, sem hefst á orðunum Ó, Guð vors lands! Ljóðið er eftir Matthías Jochumsson og lagið eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Gengið var í skrúðgöngu frá Austurvelli að Öskjuhlíð þar sem aðalhátíðin var haldin.
2. ágúst 1885
Minnisvarði um Hallgrím Pétursson var afhjúpaður norðan við Dómkirkjuna í Reykjavík. Meira en helmingur bæjarbúa var viðstaddur. Þetta er steinn með hörpu ofan á og er eftir Júlíus Schou steinsmið.
2. ágúst 1897
Þjóðminningardagur var í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur í Reykjavík með ræðuflutningi, söng og íþróttasýningu, að frumkvæði Stúdentafélagsins. Hvítbláinn, blár fáni með hvítum krossi, var í fyrsta sinn dreginn að húni í Reykjavík á þessari hátíð. Þessi dagur var síðan haldinn hátíðlegur ár hvert þar til 17. júní varð aðalhátíðardagurinn árið 1911.
2. ágúst 1904
Stephan G. Stephansson skáld flutti í fyrsta sinn ljóð sitt sem hefst á orðunum „Þó þú langförull legðir“ á Íslendingadeginum í Alberta í Kanada. Það er einkum þekkt við lag Sigvalda Kaldalóns.Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson