Garður Hani í Fjölskyldugarðinum.
Garður Hani í Fjölskyldugarðinum. — Morgunblaðið/Ómar
Bæjarráði Fjallabyggðar barst fyrr í mánuðinum ósk um leyfi til að halda hænur. Óskin barst frá íbúa á Siglufirði, Guðmundi Ólafi Einarssyni, sem hugðist hafa hana- og hænsnahald á heimili sínu við Hvanneyrarbraut 52 í bænum.

Bæjarráði Fjallabyggðar barst fyrr í mánuðinum ósk um leyfi til að halda hænur. Óskin barst frá íbúa á Siglufirði, Guðmundi Ólafi Einarssyni, sem hugðist hafa hana- og hænsnahald á heimili sínu við Hvanneyrarbraut 52 í bænum. Með fylgdi samþykki nágranna hans í húsunum númer 48 og 50 við götuna.

Með vísan í samþykkt um búfjárhald samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar á fimmtudag að leyfa Guðmundi Ólafi að halda hænur en ekki hana.

Guðmundur Skarphéðinsson, formaður nefndarinnar, segir ástæðuna vera einfalda. „Hanar ónáða fólk og á þeim forsendum bönnuðum við þetta,“ segir hann. Guðmundur segir samþykki úr næstu tveimur húsum ekki nægja, þar sem bærinn sé lítill og hanarnir myndu ónáða mun fleiri í kring. Hann segir reynsluna af hænsnahaldi þó vera góða á svæðinu, og ekkert standi í vegi fyrir því.

Guðmundur Ólafur segist ósáttur við ákvörðun bæjarráðsins, „Það er ekkert gaman að vera með hænur og enga hana. Þessi grey verða að geta fjölgað sér,“ segir hann. Guðmundur hafði þegar fengið sér þrjár hænur og einn hana. „Ég er búinn að vera með hanann í um hálfan mánuð og það hefur ekki borið á neinu ósætti,“ segir hann, en eftir ákvörðun bæjarráðsins þarf haninn að víkja.

Guðmundur segir nágranna sína hafa verið sátta við hanann, og því hafi hann verið hissa á því að málið hafi ekki verið samþykkt. „Ég mun samt halda áfram með hænsnahaldið,“ segir hann að lokum. if@mbl.is