Grjótagjá Það hefur löngum þótt vinsælt meðal innlendra sem erlendra ferðamanna að baða sig í Grjótagjá, vatnið er hreint og hitastigið gott.
Grjótagjá Það hefur löngum þótt vinsælt meðal innlendra sem erlendra ferðamanna að baða sig í Grjótagjá, vatnið er hreint og hitastigið gott. — Ljósmynd/Jóhann F. Kristjánsson
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Fjöldi ferðamanna hefur heimsótt náttúruundrið Grjótagjá í landi jarðarinnar Voga í Mývatnssveit á undanförnum áratugum.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Fjöldi ferðamanna hefur heimsótt náttúruundrið Grjótagjá í landi jarðarinnar Voga í Mývatnssveit á undanförnum áratugum. Grjótagjá er sprunga á flekaskilum og um hana rennur heitt grunnvatn frá jarðhitasvæðinu við Námafjall. Hefur Grjótagjá því verið vinsæll baðstaður, vatnið hreint og hitastigið hentað vel til böðunar.

Nú hafa landeigendur hins vegar ákveðið að banna gestum að baða sig í gjánni.

„Ákvörðun liggur fyrir meðal landeigenda að baðstaðnum í þessum Grjótagjáarsprungusveimi verði lokað. Það mun hins vegar ekki vera gert á þann veg að þarna geti menn aldrei farið um, um aldur og ævi,“ segir Jóhann F. Kristjánsson, einn landeigenda. Hann segir að til lokunar hafi komið svo það gæfist ráðrúm til þess að gera svæðið öruggt.

„Það verða teknar upp aðgangstakmarkanir á þessa staði með einhverjum hætti. Fordæmi fyrir því eru auðvitað hellar hérlendis sem eru með slíkum aðgangsstýringum,“ segir Jóhann og nefnir hann Vatnahelli á Snæfellsnesi og Loftahelli í Mývatnssveit í því samhengi.

„Þetta er í fullu samræmi við gildandi lög því allir hellar á Íslandi, þar með talið þessi Grjótagjá eru í sjálfu sér friðlýstir,“ segir Jóhann.

Hann segir ákvörðun verða tekna á næstu vikum um hvernig staðið verði að aðgangstakmörkunum að svæðinu í framtíðinni.

„Menn hafa enn ekki mótað sér heildstæða skoðun á því hvernig það verður gert. Hvort það verði sótt í einhverskonar styrkjafyrirkomulag, frjáls framlög eða að mönnum verði hreinlega skammtaður einhver tími gegn einhverju gjaldi. Það er of snemmt að segja til um það,“ segir Jóhann. Hann segir kostnað við að fara í lagfæringar á svæðinu, til að tryggja öryggi ferðamanna sem þangað komi, geta verið frá hundruðum þúsunda upp í tugi milljóna.

Jóhann bætir við að á svæðinu sé annar staður sem aldrei hafi verið ætlaður almenningi til böðunar.

„Það er mjög hættuleg sprunga sem fólk hefur verið að klifra ofan í og er þar sex til átta metra fall niður í grjót,“ segir Jóhann. Hann segir alla sem að málinu komi vera að skoða hvernig bregðast eigi við án þess að skapa neikvæða ímynd. „Það á ekki að rjúka í að taka heilu svæðin og setja þau í gjaldheimtu,“ segir Jóhann.