Breiða Lúpína við Vífilstaðavatn.
Breiða Lúpína við Vífilstaðavatn. — Morgunblaðið/Ómar
Páll Fannar Einarsson pfe@mbl.is Lúpína hefur náð fótfestu á Hólmanesi, friðlandi milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, og breiðist þar hratt út.

Páll Fannar Einarsson

pfe@mbl.is

Lúpína hefur náð fótfestu á Hólmanesi, friðlandi milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, og breiðist þar hratt út. Fyrst voru þetta einangraðir blettir Eskifjarðarmegin við þjóðveg yfir hálsinn, en síðustu tíu árin hefur lúpínan breiðst út með vaxandi hraða frá ári til árs og þekur nú allstór svæði innan til og nálægt miðju Hólmaness að norðanverðu.

„Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með þessari þróun. Eftir að lúpínan er búin að koma sér fyrir verður eins og sprenging í útbreiðslunni. Ef fram heldur sem horfir mun þessi ágenga tegund leggja undir sig mestallt svæðið á einum til tveimur áratugum,“ segir Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur.

Í Hólmanesi má finna fjölbreytilegt gróðurlendi og mikla tegundafjölbreytni. Alls hafa þar verið skráðar ríflega 150 tegundir háplantna en Hjörleifur segir plönturnar í mikilli hættu ef ekki verði brugðist við útbreiðslu lúpínunnar.

„Þarna á Hólmanesi eru margar sérstakar og fágætar tegundir sem gætu einfaldlega horfið ef ekkert verður að gert. Lúpínan er afar ágeng tegund og er orðin gífurlegt vandamál á Austfjörðum. Ég er ekki að ýkja þegar ég segi að hún er smám saman að verða ein allra mesta umhverfisógnin hérlendis,“ segir Hjörleifur.

Eiga langt í land

Árni Steinar Jóhannsson, umhverfisstjóri Fjarðabyggðar, kannast vel við ágengni lúpínunnar og hefur gripið til þess ráðs að láta rífa plöntuna upp með höndum, ásamt því að beita sláttutækjum gegn henni á Hólmanesi.

„Sú vinna er langmest unnin af sjálfboðaliðum sem hafa hjálpað okkur við þetta. Við höfum lagt áherslu á það í okkar sveitarfélagi að halda öllum ágengum tegundum frá Hólmanesi en við eigum langt í land með að ná góðum árangri. Þetta er vandamál í öllum sveitarfélögum en vonandi náum við að snúa þessu við,“ segir Árni.