Hver var afstaða fulltrúa lífeyrissjóðanna í stjórnum fyrirtækja til „leiðréttingar“ á launum æðstu stjórnenda?

Þ að eiga margir um sárt að binda eftir hrun. Þeir eru margir sem telja sig eiga rétt á því sem kallað er „leiðrétting“ vegna launalækkunar sem þeir tóku á sig eftir hrun. Að vísu er ekki sjálfsagt að laun nái á ný sömu hæðum og þau voru komin í síðustu árin fyrir hrun. Þá hafði markvisst verið unnið að því undir forystu hinna einkavæddu banka að byggja upp eins konar „kjarakúltúr“ sem tók mið af því sem tíðkaðist í sumum öðrum löndum, sérstaklega í hinum engilsaxneska heimi.

Launatölur sem farnar voru að tíðkast í atvinnulífinu fyrir hrun voru byggðar á fölskum grunni, eins og lífskjörin almennt í landinu þá. Að auki ýttu þau undir efnamun og tekjumun sem hið fámenna samfélag okkar þolir ekki og aldrei verður sátt um.

Það er ekki sjálfsagt að „leiðrétta“ launakjör á þann veg að þau verði hin sömu og þau voru fyrir hrun. Það eru engar forsendur fyrir því í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar.

Af þessum sökum eru það engin rök hjá vinnuveitendum að skýra megi launahækkun stjórnenda í atvinnufyrirtækjum, sem sögð er nema 13%, og launahækkun millistjórnenda, sem sögð er nema hærri tölum, með því að um sé að ræða „leiðréttingu“ vegna launalækkana sem þessir hópar hafi þurft að taka á sig á sama tíma og þeir segja að almennir launþegar geti ekki fengið nema 2,8% hækkun.

Við bjuggum við fölsk lífskjör fyrir hrun. Það var leiðrétt með launalækkunum og kjaraskerðingum almennt eftir hrun, sem var óhjákvæmilegt. Með hvaða rökum ætla vinnuveitendur að halda því fram að sjálfsagt hafi verið að „leiðrétta“ til fyrra stigs launakjör afmarkaðs hóps í atvinnulífinu en ekki annarra? Sú kjaraskerðing sem varð eftir hrun var óhjákvæmileg. Hún var aðlögun að gjörbreyttum forsendum í efnahagslífi okkar.

Þetta vita vinnuveitendur. Þeim hlýtur jafnframt að vera ljóst að stjórnendur þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að þeim samtökum sem semja fyrir þeirra hönd á almennum vinnumarkaði hafa sýnt ótrúlegan dómgreindarbrest í mati á því hvað er hægt og hvað er ekki hægt í íslenzku samfélagi. Þeir munu standa frammi fyrir því, þegar kemur að næstu kjarasamningum, sem eru í nánd, að fulltrúar verkalýðsfélaganna tala ekki við þá á skynsamlegum forsendum að óbreyttu.

Eðlileg viðbrögð verkalýðsfélaganna eru að spyrja viðsemjendur sína, hvernig þeir ætli að „leiðrétta“ þau mistök sem gerð hafa verið í fyrirtækjum hér og þar að þessu leyti.

Hvernig ætla þeir að gera það?

Það eru hins vegar ekki bara samtök vinuveitenda, sem þurfa að svara þeirri spurningu. Staðan er flóknari en svo.

Hverjir eiga stóru fyrirtækin í landinu, sem koma við sögu? Það eru ekki nema að hluta til einn maður eða fámennur hópur einstaklinga. Það eru ekki lengur hinar stóru fyrirtækjasamsteypur sem urðu til fyrir hrun og hrundu eins og spilaborg.

Þeir sem í mörgum tilvikum eiga ráðandi hluti í þessum fyrirtækjum eru lífeyrissjóðir. Hverjir eiga þá? Þeir sem eru félagsmenn í þeim. Hverjir velja fulltrúa þeirra í stjórnir þessara sjóða? Ekki félagsmennirnir sjálfir eins og ætti að vera heldur einstaklingar sem eru kjörnir til þess af stjórnum verkalýðsfélaga og launþegafélaga annars vegar og félagasamtaka atvinnurekenda hins vegar.

Nú má ætla að fulltrúar vinnuveitenda í stjórnum sjóðanna telji að umræddar launahækkanir stjórnenda fyrirtækjanna og millistjórnenda hafi verið „leiðrétting“. En hvað um fulltrúa launþegafélaganna í stjórnum fyrirtækjanna? Þeir hljóta að hafa fylgzt með launaþróun í viðkomandi fyrirtækjum. Hvers vegna þögðu þeir þunnu hljóði? Og hvaða tillögur gera þeir nú í stjórnum viðkomandi fyrirtækja um „leiðréttingu“ á „leiðréttingunni“?

Það blasa við stóralvarleg vandamál á vinnumarkaðnum vegna þess að fólkið í landinu mun ekki láta bjóða sér svona vinnubrögð. Sá tími er liðinn að „ráðandi öfl“ í landinu geti komizt upp með svona vinnubrögð. Í fjarlægum löndum verða uppreisnir þegar þeir sem ferðinni stjórna haga sér á þennan veg.

Hér á Íslandi sýna nýleg dæmi að þjóðin getur risið upp í lýðræðislegum kosningum og tekið af skarið.

Það þarf ekki bara að snúast um að henda út flokkum og forystumönnum þeirra í almennum kosningum. Það getur líka gerzt í kjöri til stjórna verkalýðsfélaga og á þann veg að það verði vakning meðal félagsmanna í lífeyrissjóðunum, sem segi hingað og ekki lengra og brjóti upp það áratuga gamla fyrirkomulag við kjör í stjórnir þeirra, sem er löngu úrelt og svarar á engan hátt kröfum samtímans um lýðræði.

Sá þáttur þessa máls, sem snýr að lífeyrissjóðunum, hefur áður verið til umfjöllunar á þessum vettvangi. Morgunblaðið hefur tekið launastefnu fyrirtækja sem að mestu eru í eigu lífeyrissjóða til umfjöllunar og það hafa fleiri gert. Nánast alger þögn flestra verkalýðsleiðtoga er athyglisverð. Þora þeir ekki að takast á við málið eða eru þeir orðnir samdauna þessu kerfi?

Reyni þeir að óbreyttu að gera nýja „2,8%“ samninga verða þeir felldir í félögunum.

Forystumenn Samtaka atvinnulífsins eru skynsamari menn en svo að þeir sjái ekki eða skilji ekki stöðu þessara mála. En það verður ekki auðvelt verk fyrir þá að finna leið út úr þeim grundvallarmistökum sem gerð hafa verið í fyrirtækjunum.

Forystumenn verkalýðsfélaganna eru sumir hverjir gamlir byltingarmenn.

Er ekki sagt að byltingin éti börnin sín?

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is