Helga Bogadóttir fæddist 9. mars 1932. Hún lést 23. júlí 2014. Útför hennar fór fram 30. júlí 2014.

Tengdamamma lést í síðustu viku eftir stutt en erfið veikindi. Mér liggur við að segja fyrir aldur fram því þó Helga hafi sannarlega lifað mörg ár þá var næstum eins og hún yngdist með hverjum afmælisdeginum því aldurinn virtist ekki vinna á henni andlega eða líkamlega. Okkur brá öllum þegar hún var lögð inn á spítala að kvöldi 17. júní en viðbrögð þessarar litlu og hnellnu konu endurspegluðu eins og endranær jafnaðargeð og hæglæti yfir aðstæðum sínum. Og alltaf stutt í brosið og hláturinn.

Margur er knár þótt hann sé smár. Það sannaðist á Helgu en börnunum og barnabörnunum til mikillar kátínu var alltaf vissum áfanga náð þegar þau voru orðin „hærri en amma“. Og amma þóttist vera móðguð og sagði með sínum yndislega skríkjandi hlátri: „nei ég trúi því nú ekki!“ Það fór kannski ekki mikið fyrir Helgu en hún var svo sannarlega húsmóðir á sínu heimili sem var alltaf opið öllum og aldrei var hún glaðari en þegar sem flestir af hennar samhentu fjölskyldu voru í heimsókn. Og eldhúsið hjá Helgu og Alla var oft sannkallaður suðupottur þar sem mikið var rætt og rökrætt um allt milli himins og jarðar á milli þess sem kaffi svolgrað í sig og heimabaksturinn hámaður í sig. Helga lá þar ekki á skoðunum sínum frekar en aðrir viðstaddir og stóð alltaf með þeim sem minna máttu sín hafandi unnið láglaunastörf megnið af sinni ævi.

Fjölskyldan var miðpunkturinn í lífi Helgu og fyrstu áratugirnir í búskap þeirra Alla fóru í að hugsa um börn og barnabörn og einnig bjuggu inni á heimilinu síðustu æviár sín, fyrst Ragnheiður móðir Alla og síðar Þórunn móðir Helgu. Dugnaðarforkurinn Helga vann meðfram þessu ýmis störf og um miðjan aldur tók hún sig til og tók bílprófið um fertugt, útskrifaðist sem sjúkraliði um fimmtugt og byggði sér sumarbústað með tveimur börnum sínum um sextugt, eða um það leyti sem ég kom inn í fjölskylduna. Handavinna lék í höndunum á Helgu og á níræðisaldri prjónaði hún enn lopapeysur af mikilli snilld. Sérstaklega dásamlegt fyrir tengdadætur sem eru vonlausar á þessu sviði. Hún gat sannarlega verið stolt af sjálfri sér og það var ósjaldan sem við hin nutum þess að monta okkur af þessari ótrúlegu konu, svona þegar hún heyrði ekki til!

Það er með sárum söknuði sem ég kveð Helgu að sinni. Mikill er missirinn fyrir elsku Alla sem kveður nú eiginkonu sína til 60 ára og aldur er algjörlega afstæður þegar söknuður eftir mömmu og ömmu er annars vegar. Við fáum ekki að njóta Helgu lengur í þessu lífi en minningarnar eru sterkar og þær eiga eftir að ylja okkur um hjartarætur og kalla fram gleði og kátínu þó að tárin séu fyrirferðarmeiri þessa dagana. Og hún verður með okkur í anda þegar áfram verður rökrætt í eldhúsinu hjá Alla og í heimsóknum í bústaðinn til Rögnu og á öllum þeim stundum sem við heiðrum minningu hennar með því að hittast sem oftast sem fjölskylda.

Ragnhildur Dóra

Þórhallsdóttir.

Elsku amma mín lést miðvikudaginn 23. júlí sl. Mér brá í fyrstu því að hún fór inn á spítalann fyrir einum mánuði með vatn í lunga og mér datt aldrei í hug að hún mundi ekki labba út af spítalanum aftur. Ég man svo vel eftir henni þegar hún gaf mér kleinur eða nammið sem hún geymdi skápnum þegar ég kom í heimsókn og eftir öllum fríunum okkar í sumarbústaðnum hennar og Rögnu frænku í Borgarfirði. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til ömmu og þar voru frænkur mínar og frændur oft í heimsókn líka. Ég er glaður yfir því að amma kom í ferminguna mína í vor og þakklátur fyrir allar góðu stundirnar með henni sem munu lifa áfram í minningum mínum.

Hákon Elliði Arnarson.