Nýjung Álfgeir Marinósson og Þórarinn Sighvatsson standa á nýju plastbrúnni sem Stykki hefur smíðað.
Nýjung Álfgeir Marinósson og Þórarinn Sighvatsson standa á nýju plastbrúnni sem Stykki hefur smíðað. — Morgunblaðið/Gunnlaugur
Gunnlaugur Auðunn Árnason Stykkishólmur Fyrirtækið Stykki ehf. í Stykkishólmi hefur á undanförnum árum smíðað plastbáta og annast viðgerðir á bátum. Nú eru þeir félagar að kynna nýja framleiðslu.

Gunnlaugur Auðunn Árnason

Stykkishólmur

Fyrirtækið Stykki ehf. í Stykkishólmi hefur á undanförnum árum smíðað plastbáta og annast viðgerðir á bátum. Nú eru þeir félagar að kynna nýja framleiðslu. Um er að ræða að smíða brýr, útsýnispalla og fleiri mannvirki úr plasti sem hefur ekki verið gert áður hér á landi. Plastefnið er framleitt í Danmörku og hefur verið notað víða í Evrópu í brýr og önnur mannvirki.

Stykki ehf. mun smíða útsýnispalla og brýr í hvaða styrkleika sem er. Þegar hefur verið smíðuð sex metra löng plastbrú sem er til sýnis og kynningar. Brúin er 600 kg að þyngd, en sambærileg brú úr stáli og timbri vegur yfir 2.000 kg.

Plastið er mun léttara efni en það sem er í dag notað í hefðbundinni brúargerð og hefur mikinn styrkleika. Plastbrýr geta þolað 60 tonna þyngd á fermetra.

Forsvarsmenn Stykkis segjast sjá mikla möguleika í þessari framleiðslu. Framleiðslan hefur marga kosti sem nýtast svo vel á Íslandi. Hún er létt og meðfærileg og þarfnast ekki viðhalds í tugi ára. Einnig mun framleiðslan henta vel á stöðum þar sem aðstæður eru erfiðar eins og hálendinu. Í fyrstu er ætlunin að leggja áherslu á að smíða brýr og útsýnispalla. Fyrirtækið horfir til að smíða göngubrýr utan á akstursbrýr, því plastbrýr hafa lítil áhrif á burðarþol akstursbrúar. Einnig er áhugi á að komast inn á markaðinn og smíða útsýnis- og göngupalla á ferðamannastöðum úr plastefninu.

Stykki ehf. fékk nýsköpunarstyrk frá Vaxtarsamningi Vesturlands til að hefja kynningu á og framleiðslu úr plastinu. Með bjartsýni í huga er lagt af stað og vissa fyrir því að framleiðslan muni eiga framtíð fyrir sér hér á landi.