Svarbréf Í bréfi Hönnu Birnu segist hún ekki hafa blandað sér í rannsókn lekamálsins með óeðlilegum hætti.
Svarbréf Í bréfi Hönnu Birnu segist hún ekki hafa blandað sér í rannsókn lekamálsins með óeðlilegum hætti. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

„Í þeim tilvikum sem rannsóknina hefur borið á góma í samskiptum mínum við lögreglustjórann hefur það snúið að þeirri viðleitni ráðuneytisins að greiða fyrir rannsókn málsins,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra í bréfi sínu til Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, sem óskaði á miðvikudag eftir tilteknum upplýsingum frá ráðherra um samskipti hennar við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna rannsóknar á lekamálinu svokallaða. Í bréfinu segir Hanna Birna að samskiptin hafi snúið að öryggi gagna sem lögreglan hafi fengið aðgang að innan ráðuneytisins og hvenær þess mætti vænta að rannsókn ljúki.

Fram kemur í bréfinu að fjórir fundir hafi farið fram á milli þeirra frá því að rannsókn á málinu hófst. Engin þeirra var þó til að ræða rannsóknina sérstaklega.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, gerir engar athugasemdir við það sem fram kemur í bréfi ráðherra. „Ég get staðfest það sem þarna kemur fram. Svo get ég bætt því við að ég kom á framfæri athugasemdum og gagnrýni á framfæri frá ráðherra við ríkissaksóknara sem fer með stjórn þessarar rannsóknar,“ segir Stefán sem segist þó ekki getað tjáð sig nánar efnislega sökum þess að það tengist rannsókn málsins.

Í bréfi Hönnu Birnu kemur meðal annars fram að hún eigi oft í samskiptum við forstöðumenn undirstofnana ráðuneytisins, oft á tíðum á óformlegum nótum. „Er því eins farið með lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í bréfi Hönnu Birnu.

Umboðsmaður skoðar málið

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, telur í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni að Hanna Birna hafi viðurkennt afskipti sín af rannsókninni. „Innanríkisráðherra játar í dag afskipti af rannsókn lögreglustjóra – undirmanns hennar,“ segir m.a í færslu Árna Páls.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segir í samtali við Morgunblaðið að bréfið verði tekið til skoðunar og í framhaldinu verði næstu skref ákveðin. „Málið verður skoðað á næstum dögum,“ segir Tryggvi.

Fundað fyrir þingsetningu

„Síðastliðið vor ræddi nefndin um að taka þetta svokallaða lekamál til umræðu. Síðan þá hafa komið fram upplýsingar á síðustu dögum og vikum sem enn hafa gefið tilefni til þess að nefndin setjist yfir málið,“ segir Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Hann segir ekki komna tímasetningu á hvenær málið verði tekið fyrir en nauðsynlegt sé að gera það áður en Alþingi kemur saman.