[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Í laxveiðiánum við Faxaflóa veiðist nú minna en helmingur þess sem veiðst hefur að meðaltali síðasta áratug, um 48 prósent meðalveiði.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Í laxveiðiánum við Faxaflóa veiðist nú minna en helmingur þess sem veiðst hefur að meðaltali síðasta áratug, um 48 prósent meðalveiði. Það er ansi sláandi tala,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson frá Skálpastöðum sem heldur utan um vikulegar aflatölur í laxveiðiánum á vef Landssambands stangaveiðifélaga, www.angling.is.

„Árnar við Húnaflóa standa hinsvegar á pari, þar er meðalveiði,“ segir hann. „Blanda heldur veiðinni þar uppi, er nú með 113 prósent af meðalveiði í ánni. En nú er hátt í Blöndulóni og ef hún fer á yfirfall á næstunni þá er hlutfall húnvetnsku ánna í heildarveiðinni fljótt að dala. En hinar árnar á norðvesturhorninu eru mun betri en árnar við Faxaflóa og það styrkir mig í þeirri trú að þetta ástand hafi með skilyrðin í sjónum að gera þegar seiðin koma út. Ég var feginn í fyrra þegar sumarveiðin var mjög góð, því ég taldi að þá hefði ekki verið minna af makríl en 2012 en svo er ég að heyra núna að hann hafi verið í öðru göngumynstri. Það finnst mér fiskifræðingarnir þurfa að skoða.“

Þorsteinn heyrir reglulega í leigutökum, umsjónarmönnum veiðisvæða og veiðimönnum – eru þeir að velta fyrir sér hvort þessar óvenjulegu sveiflur séu makríl að kenna?

„Já. Sumir segja makrílinn hafa verið hálfum mánuði seinna á ferðinni í fyrra og það kann að hafa skipt sköpum fyrir laxaseiðin. Þetta verður að skoða,“ segir hann.

„Ég segi eins og karlinn forðum: Ég hef bara heilmiklar áhyggjur af þessu...“

Fallegir fyrstu laxar

Mjög góð meðalveiði er í Blöndu þetta árið. Eins og endranær veiðist mest á neðsta svæðinu en síðan hefur verið mjög góð veiði á efsta svæðinu en það er veitt með tveimur stöngum. Er veiðin þar betri en á svæðum tvö og þrjú samanlagt. Höskuldur Erlingsson, eftirlitsmaður við Blöndu, segir góðan gang hafa verið í henni.

„Nú síðustu daga er að draga úr göngum en veiðin hefur samt verið jöfn og fín á neðsta svæðinu. Mikið til smálax undanfarið,“ segir hann. „Fólk sem ég sagði til við ána síðustu tvo daga landaði yfir þrjátíu löxum. Það er mjög gott. Þar á meðal var ungur maður sem hafði aldrei veitt fisk áður og hann setti í maríulaxinn sinn og tvo til, á maðkinn. Daginn eftir var ákveðið að koma honum af stað í fluguveiðinni og hann var nokkuð naskur að ná grunninum með tvíhendunni, gat komið línunni fallega út á Breiðuna, og setti í um 90 cm lax sem var landað! Það var frábær fyrsti flugulax.“

Þeir stóru enn að koma

„Þetta sleppur alveg, eins og maður segir, veiðin hefur verið mjög jöfn. Um tíu fiskar á dag í mestallt sumar,“ segir Jóhann Hafnfjörð, staðarhaldari við Víðidalsá, en veiðin þar er í meðaltali síðustu tveggja ára. Í Víðidalnum kólnaði mikið á miðvikudag, vatnshitinn féll verulega og þá datt laxinn í tökustuð.

„Hollið sem byrjaði þá var komið með 25 laxa eftir tvær vaktir og þar af marga stóra. Í veðrabreytingum tekur hann „aftur“ eins og maður segir en inn á milli voru líka nýir.“

Jóhann segir smálaxa potast upp en þeir séu ekki margir, stórlaxinn hafi haldið uppi veiðinni þar eins og í mörgum ánum norðanlands.

„Þessir stóru eru enn að koma, við fengum 82 cm lúsuga hrygnu í morgun og 70 cm hæng lúsugan, það er eitthvað að ganga ennþá, ekki sterkar göngur en þetta er ennþá í lagi. Vatnið er líka að verða eðlilegt eftir flóðin, við erum farnir að finna ána aftur,“ segir hann og hlær.

Sá stærsti fjórtán pund

Heldur minna veiddist í fimmtu veiðiviku sumarsins í Veiðivötnum, 1.288 silungar, 818 bleikjur og 470 urriðar, flestir í bleikjuvötnunum Nýjavatni og Langavatni, en í sömu viku í fyrra þegar 1.349 veiddust. Samkvæmt upplýsingum á vef Veiðivatna þarf að fara aftur til ársins 2006 til að finna lélegri veiði í vötnunum á þessum tíma. Í heild er veiðin þó heldur betri en á sama tíma í fyrra þegar 9.199 höfðu veiðst, því nú hafði á sama tíma veiðst 11.481 silungur.

Í vikunni veiddist 11,2 punda urriði í Stóra-Skálavatni. Stærsti fiskur sumarsins er samt sem áður úr Grænavatni, 14 pund.