Síldarævintýri Ekki var annað að sjá en að bæjarbúar og gestir Siglufjarðar hafi notið veðurblíðunnar í gær en menningarleg og fjölbreytt fjölskylduhátíð fer fram í bænum. Sat fólk m.a. utandyra og sleikti sólina.
Síldarævintýri Ekki var annað að sjá en að bæjarbúar og gestir Siglufjarðar hafi notið veðurblíðunnar í gær en menningarleg og fjölbreytt fjölskylduhátíð fer fram í bænum. Sat fólk m.a. utandyra og sleikti sólina. — Morgunblaðið/Björn Björnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Síldarævintýrið á Siglufirði hefur skapað sér sess sem menningarleg fjölskylduhátíð um hverja verslunarmannahelgi.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Síldarævintýrið á Siglufirði hefur skapað sér sess sem menningarleg fjölskylduhátíð um hverja verslunarmannahelgi. Heiður himinn og sól mætti gestum hátíðarinnar í gærdag og er útlit fyrir áframhaldandi blíðu alla helgina ef marka má veðurspá. Lýsti einn gestanna í samtali við Morgunblaðið stemningunni á þá leið að fólk nyti þess mjög að slaka á í góða veðrinu og voru gestir þá farnir að safnast saman við ráðhústorg bæjarins þar sem fjölbreytt dagskrá skemmti viðstöddum fram yfir miðnætti.

Skrúðgöngur og Raggi Bjarna

Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands fer fram á Sauðárkróki um helgina. Var mótið, sem hófst síðastliðinn fimmtudag, formlega sett í gærkvöld og segir Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri landsmótsins, gesti mega búast við fjörugri og skemmtilegri helgi. „Það gengur hér allt rosalega vel. Það er að vísu pínu norðanátt en það er hins vegar sólskin.“

Fjölskyldu- og útihátíðin Neistaflug er haldin í 21. skiptið þessa verslunarmannahelgi og er markmið hátíðarinnar að bjóða ferska og fjölbreytta dagskrá tónlistar, skemmtikrafta og listamanna. Þegar Morgunblaðið náði tali af Þórfríði Soffíu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra Neistaflugs, var hún stödd í skrúðgöngu sem hélt úr hverfum bæjarins og niður í miðbæ.

„Hér er mjög fínt veður og allt gengur eins og í sögu. Setningarathöfnin fer svo fram í kvöld [föstudag] klukkan hálfníu en eftir hana byrjar dansleikur fyrir fjórtán ára og eldri og tónleikar með Ragga Bjarna,“ segir hún og bætir við að allmikill fjöldi fólks hafi ákveðið að sækja hátíðina heim í ár. Tjaldgestir hátíðarinnar þurfa vart að hafa áhyggjur því útlit er fyrir ágætis veður í Neskaupstað alla helgina.

„Aldrei uppselt á Þjóðhátíð“

Hörður Orri Grettisson, sem sæti á í þjóðhátíðarnefnd, segir fólk farið að fjölmenna mjög í Vestmannaeyjum. Spurður hvort hann hafi tölu yfir þjóðhátíðargesti kveður hann nei við. „Þetta er orðið mjög fjölmennt hérna en ég hef samt ekki fengið neinar tölur yfir gesti,“ segir hann og bætir við að enn séu til lausir miðar á hátíðina og verða þeir í boði alla helgina. „Það geta allir sem vilja keypt sér miða við hliðið. Þannig að ef fólk kemst til Eyja þá kemst það líka í Dalinn því það er aldrei uppselt á Þjóðhátíð.“