[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enski miðjumaðurinn Frank Lampard sem gekk nýverið til liðs við New York City í bandarísku MLS deildinni í knattspyrnu gæti verið á leið til enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City á láni til styttri tíma þar sem bandaríska deildin hefst ekki fyrr en...

Enski miðjumaðurinn Frank Lampard sem gekk nýverið til liðs við New York City í bandarísku MLS deildinni í knattspyrnu gæti verið á leið til enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City á láni til styttri tíma þar sem bandaríska deildin hefst ekki fyrr en í mars árið 2015. Þetta kom fram í enska dagblaðinu The Guardian í gær. Fréttirnar verða að teljast ansi óvæntar í ljósi þess að Lampard var í þrettán ár hjá Chelsea og er í hávegum hafður hjá stuðningsmönnum félagsins. Samningur kappans við Lundúnarliðið rann út síðasta vor.

Enska úrvalsdeildarfélagið Newcastle er nálægt því að fá argentíska framherjann Facundo Ferreyra á láni frá úkraínska liðinu Shaktar Donetsk. Ferreyra er einn þeirra leikmanna liðsins sem vilja ekki snúa til æfinga með liðinu í Úkraínu vegna ástandsins í landinu. Leikmaðurinn skoraði sex mörk í þeim fimm leikjum sem hann var í byrjunarliði á leiktíðinni.

Markvörður mexíkóska landsliðsins, Guillermo Ochoa, sem sló í gegn á HM í Brasilíu nýverið, samdi í gær til þriggja ára við spænska úrvalsdeildarliðið Málaga. Leikmaðurinn kemur á frjálsri sölu en samningur hans við franska liðið AC Ajaccio, sem féll úr efstu deild þar í landi, rann út í vor.

Norski miðvörðurinn Brede Hangeland samdi í gær til eins árs við enska úrvalsdeildarlið Crystal Palace um að leika með félaginu. Norðmaðurinn stóri kemur til liðsins á frjálsri sölu frá Fulham sem féll úr úrvalsdeildinni í vor.

Af fleiri HM stjörnum. Joel Campell , sem lék frábærlega fyrir spútniklið Kostaríku á heimsmeistaramóti í Brasilíu, vill sanna sig hjá enska úrvalsdeildarliðinu Arsenal, þar sem hann hefur verið á mála undanfarin þrjú ár. Hann hefur ekki enn fengið tækifæri með liðinu og verið sendur á láni öll ár sín hjá Lundúnaliðinu.

Fyrrverandi framherji hollenska landsliðsins, Ruud van Nistelrooy sem gerði garðinn frægan með liði Manchester United og Real Madrid, hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari hollenska landsliðsins í knattspyrnu og verður hann því hægri hönd Guus Hiddinks landsliðsþjálfara. Nistelrooy verður því með í för þegar hollenska liðið mætir Íslandi á Laugardalsvelli 13. október næstkomandi í undankeppni EM.

Spænska úrvalsdeildarliðið Real Sociedad seldi í gær svissneska landsliðsframherjann Haris Seferovic til Eintracht Frankfurt og skrifaði hann undir samning til þriggja ára við þýska félagið. Alfreð Finnbogason lék eins og við sögðum frá í gær sinn fyrsta keppnisleik með spænska liðinu í fyrradag og ætla má að forráðamenn liðsins séu að hreinsa til eftir komu Alfreðs fyrr í sumar.