Sigríður Stefánsdóttir fæddist 20. apríl 1927. Hún lést 16. júlí 2014. Útför Sigríðar var gerð 25. júlí 2014.

Nú máttu hægt um heiminn líða,

svo hverju brjósti verði rótt,

og svæfa allt við barm inn blíða,

þú bjarta heiða júlínótt.

Hver vinur annan örmum vefur

og unga blómið krónu fær.

Þá dansar allt, sem hjarta hefur,

er hörpu sína vorið slær.

(Þorsteinn Erlingsson)

Það má með sanni segja að ljóðið eigi vel við nú þegar dagurinn er aftur farinn að styttast. Það gerði það líka hjá Siggu í Tungu, eins og hún var alltaf kölluð. Sigga var næm á tilveruna og sumarnóttin er í blóma.

„Konsi minn, hvað segirðu þá? Hvað hefurðu verið að gera? Hvar er mannskapurinn? Hvert fóru þeir? Eru kýrnar komnar á básana? Viltu ekki fá þér eitthvað í svanginn?“

Já, hún lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Hið hæga yfirbragð hennar og bros veitti mér mikla hlýju, styrk og kærleik sem ég bar virðingu fyrir. Í mörg horn var að líta á stórbúinu Bræðratungu þar sem ég var fyrst snúningastrákur og síðan vinnumaður hjá Sveini föðurbróður mínum og Siggu. Dagarnir voru langir og strangir en oftast mjög góðir. Það var alltaf tími fyrir mann líka, sérstaklega hjá Siggu. Hún bauð manni kræsingar, ræddi við mig um öll heimsins mál, talaði kjarngóða íslensku og leiðrétti mig ef þurfti og meira að segja líka Rás 1. Sigga kunni mörg falleg ljóð og laglínur og söng oft með er sungnar voru messur á sunnudögum og í amstri dagsins. „Þetta gerir manni bara gott,“ sagði hún við mig, „það hjálpar manni að takast á við verkefni dagsins.“ Já, það eru orð að sönnu. Ég hef prófað það þegar ég er einn með sjálfum mér í mínum viðfangsefnum. Sigga vildi eins og alltaf kenna manni á lífið, hvað væri rétt og hvað rangt. Hún kvartaði aldrei en var alltaf næm ef eitthvað bjátaði á hjá öðrum.

9 sumur var ég hjá þeim hjónum í Bræðratungu. Það var virkilega skemmtilegur og þroskandi tími og ég hlakkaði til að fara í hvert sinn. Það var alltaf nóg að gera og traustið og trúin á mann var til staðar. Alltaf var mikill friður með þeim hjónum. Sigga hjálpaði Konsa við margt og það er óhætt að segja að við vorum miklir vinir. Hún hefur fylgst með lífi mínu í gegnum árin og var alltaf svo jákvæð gagnvart hugðarefnum mínum.

Mig langar að þakka fyrir allt sem þú hefur kennt mér og að geta haft þig sem besta vin var mér mikill heiður. Guð verður með þér og Sveini nú þegar þið eruð saman á ný. Blessuð sé minning Sigríðar Stefánsdóttur.

Hákon Páll Gunnlaugsson.