Andri Freyr Sveinsson var fæddur 2. apríl 1996. Hann lést 7. júlí 2014. Útför Andra Freys fór fram 24. júlí 2014.

Hvað er hægt að skrifa um 18 ára gamlan dreng sem er rétt að byrja lífið, námsfús, vinnusamur, alltaf svo glaður og brosmildur, dýravinur, góður bróðir og fyrirmyndarsonur. Hafði hlýjan faðm þegar hann hitti fólkið sitt á mannamótum, nú síðast 24. júní sl. við útför Sigfúsar föðurafa síns. Knúsaði hann alla og gekk á milli borða og kynnti sig ef hann sá andlit sem hann þekkti ekki, fór svo í eldhúsið og þakkaði konunum sem aðstoðuðu við erfidrykkjuna fyrir alla hjálpina. Svona var Andri Freyr, svo sérstakur að tekið var eftir og haft orð á hlýrri framkomu hans. Við erum öll svo óendanlega stolt af honum.

Minningin um þig verður í hávegum höfð í náinni framtíð hjá stórfjölskyldunum enda ekki annað hægt þar sem aldrei bar skugga á framkomu þína gagnvart nokkurri lifandi veru.

Elsku Andri Freyr, eftir mikla sorg, reiði og söknuð fer maður að hugsa, og ég kýs að trúa því að brottför þín hafi einhvern tilgang. Ég trúi því að þú hafir verið of góður og hjartahreinn fyrir þennan heim sem við lifum í. Þess vegna varstu sóttur heim til annarra verka, og farir að vinna að þínum hugðarefnum á öðru tilverustigi ásamt öðru ungu fólki sem hafa einnig verið flutt úr þessum heimi til annarra starfa líka, okkur sem eftir sitjum til góðs og komandi ættingjum ykkar til farsældar.Það er mín einlæga trú.

Veit í hjarta mínu að þú fékkst góða heimkomu á nýjum stað og varðst strax sáttur þar, ég reyni að fremsta megni að vera dugleg og sættast við viðskilnaðinn og breytingarnar.

Óska þér góðs gengis og friðar, gullið mitt. Sjáumst,

Hrafnhildur amma.