Upphaf sjónvarpsins er af flestum rakið til skoska verkfræðingsins John Logie Baird og þá til dagsetningarinnar 26. janúar 1926. Þá birtust fyrstu sjónvarpsmyndirnar af hlutum á hreyfingu.
Upphaf sjónvarpsins er af flestum rakið til skoska verkfræðingsins John Logie Baird og þá til dagsetningarinnar 26. janúar 1926. Þá birtust fyrstu sjónvarpsmyndirnar af hlutum á hreyfingu. Eitt og hálft ár er því þar til fagnað verður að níutíu ár eru síðan almúgamanninum var gert kleift að skilja áhyggjur sínar eftir við dyrakarminn, hlamma sér í sófann og forheimskast yfir því sem Charlie Sheen og Jim Belushi leika í hverju sinni.
Sjónvarpið er samt miklu meira en rándýrir amerískir gamanþættir, viðfangsefnin dýrmætari og áhrifin gríðarleg. Þá er viðmótið orðið þannig að sjónvarpsstjórar stýra ekki lengur skútunni, nema að nafninu til. „Sjónvarpstæki“ er ekki lengur krafa því hver sá sem ræður yfir tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma getur keypt sér skó sjónvarpsstjóra.
Þriðjudaginn 29. júlí horfði Víkverji á Stöð 2, sem hann er með í stað Stöð2Sport2 í sumar. Þá hófst vikulegur gamanþáttur Jons Stewarts (e. Global edition). Þátturinn var hins vegar sýndur í Bandaríkjunum 21. júlí. Eftir átta daga getur hárfín kómedía um fréttamál verið löngu úrelt. Því athugaði Víkverji hvort um endursýningu væri að ræða og einnig hvort nýrri þáttur væri á hinu svokallaða VOD-i. Svo var ekki.