Listakonan Gréta Berg sækir innblástur víða og er náttúran þar helsta uppsprettan. Hún rýnir gjarnan í steinvölur sem sjórinn hefur máð kantana af og rúnað, rétt eins og lífið sjálft og tíminn losar mannfólkið við kantana.
Listakonan Gréta Berg sækir innblástur víða og er náttúran þar helsta uppsprettan. Hún rýnir gjarnan í steinvölur sem sjórinn hefur máð kantana af og rúnað, rétt eins og lífið sjálft og tíminn losar mannfólkið við kantana. — Morgunblaðið/Þórður Arnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjúkrunarfræðingurinn og listakonan Gréta Berg hefur öðlast djúpan skilning á mannlegu eðli í gegnum starf sitt og listina.

Hjúkrunarfræðingurinn og listakonan Gréta Berg hefur öðlast djúpan skilning á mannlegu eðli í gegnum starf sitt og listina. Samhliða því sem hún kennir dvalargestum Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði slökun hlustar hún á náttúruna og þau skilaboð sem hún færir okkur. Boðunum kemur hún til skila í gegnum málverk sín sem eru djúp og áhrifarík. Myndefnið kemur meðal annars af steinum.

Malín Brand

malin@mbl.is

Steinn sem verið hefur ofan í á skiptir sannarlega um áferð og útlit þegar hann þornar. Ef rýnt er í steininn má stundum sjá alls kyns mynstur í honum og ef vel er að gáð gætu sömuleiðis verið á honum ýmsar myndir. Síðan árið 1997 hefur Gréta Berg gefið steinunum gaum, skoðað myndirnar á þeim og málað þessar sömu myndir á striga. Stundum áttar Gréta sig ekki á eðli myndanna fyrr en eftir að málverkin eru tilbúin og meðal annars þannig komast boðin frá náttúrunni til skila. Þessi verk koma fyrir sjónir almennings á sýningu sem verður opnuð í Perlunni á morgun, sunnudaginn 3. ágúst. Þar geta gestir líka skoðað steinana sem þar verða til sýnis.

Heimspekin í listinni

Það má í rauninni segja að Gréta sé heimspekingur líka og að baki mörgum verkanna eru gríðarmiklar vangaveltur. „Vinnan mín er svo mikið inni í heimspekinni og hugsjónunum sem ég kem með inn í myndirnar,“ segir Gréta og útskýrir hvernig heimspekin, hjúkrunarfræðin og myndlistin eiga samleið. „Þessi umhyggja, kærleikurinn til alls og síðast en ekki síst náttúran skiptir okkur Íslendinga mjög miklu máli. Við þurfum að líta inn í náttúruna til að vera heilbrigð. Þangað sækjum við kyrrðina og í grænum skógi getur maður orðið endurnærður.“

Sjálf býr Gréta í blómabænum Hveragerði og þar fer hún reglulega út í náttúruna og fær bæði innblástur og fyllist eldmóði. Þannig verða margar mynda hennar til og það eru ekki bara steinamyndirnar sem minnst var á hér að ofan sem tengjast náttúrunni, heldur á það við um flest allt í myndlist Grétu.

„Leyfum við okkur að blómstra í því sem við erum að gera?“ spyr hún og minnir á hversu mikilvægt það er að vera sáttur við hinar fjölmörgu hliðar manns sjálfs en í gegnum tíðina hefur Gréta öðlast dýpri skilning, meðal annars á sjálfri sér í gegnum myndlistina. „Til dæmis í verki þar sem við sjáum konu inni í skóginum. Hún er í hvítum kjól og heldur á tómri skál. Það þurfti ekkert meira því hún var hér og nú: Máttug, vitur, sterk og umburðarlyndi hennar algjört. Hún var sýnileg og látlaus í mætti sínum. Ég sakna hennar því ég málaði yfir hana fjöruga konu, svona Reykjavíkurmær sem er voða flott. Svo málaði ég yfir hana. Við þurfum að samþykkja svo margar hliðar í okkur,“ segir hún. Ef við getum það ekki er hætt við að innri togstreita á milli þessara ólíku hliða geri okkur lífið leitt.

Margslungnir steinar

Rétt eins og mannfólkið hefur margar hliðar hafa steinar margar birtingarmyndir. Til dæmis hefur Gréta málað margar myndir út frá hinum ýmsu myndum sem birtast í einum steini. „Eftir því sem maður rýnir meira inn í hugsjón sína eða vinnuna sína sér maður alltaf meira og meira,“ segir Gréta. Steinarnir koma oft og tíðum við sögu hjá Grétu. Til dæmis í starfi hennar á Heilsustofnuninni. Auk almennra hjúkrunarstarfa er hún með listasmiðju þar sem hún byggir á listþerapíu og hún heldur líka utan um slökun sem dvalargestir sækja. „Ég segi það oft í slökuninni að steinarnir í fjörunni eru allir rúnnaðir og það er búið að taka af þeim öll horn. Sjórinn og brimið er eins og lífið sem mótar okkur. Þegar maður eldist þá þroskast maður og fær betri yfirsýn og það er eins og steinninn sem er orðinn rúnnaðri. Fólk rekst ekki eins á kantana því maður mýkist eftir því sem maður lifir lengur og lærir að umbera aðra.“

Græni maðurinn á steini

Fallega slípaða steina má sannarlega finna víða og á Gréta marga steina t.d. af Löngufjörum á Snæfellsnesi og frá Kirkjuhvammi, ofan við Hvammstanga svo einhverjir staðir séu nefndir. Fyrir tveimur árum var hún í steinaleiðangri í Kirkjuhvammi og fyllti þar heilt koddaver af steinum. „Svo fór ég að skoða og skoða og sá mynd á einum steini af Græna manninum,“ segir Gréta. Betur er sagt frá Græna manninum hér til hliðar en sagan segir meðal annars að hann láti sjá sig þegar mannfólkið fer yfir strikið gagnvart jörðinni. Þá er sagt að Græni maðurinn veki á sér athygli með einum eða öðrum hætti. Þegar hann birtist Grétu svo skýrt á steininum frá Kirkjuhvammi rann upp fyrir henni ljós. „Þessi steinn er bæði tákn fyrir lífið sjálft í Græna manninum og Móður jörð í Freyju úr norrænu goðafræðinni. Ég er mjög hrifin af því að ég hafi verið leidd í þetta, eiginlega með lokuð augun,“ segir Gréta sem vissi ekki af tilvist hins sögufræga Græna manns fyrr en eftir að hún hafði málað myndirnar sem sjá má á síðunni hér til hliðar. Það var yfirlæknirinn á Heilsustofnuninni, Haraldur Erlendsson, sem kom strax auga á Græna manninn á myndum Grétu. „Þetta er ævafornt tákn, bæði fyrir hið góða og illa og kraftinn í jörðinni. Græni maðurinn stígur fram þegar ekki er hugsað nægilega vel um náttúruna. Ég held að hann birtist núna af því að við erum að virkja helst alla fossa landsins og nánast allar bunur og jarðvarma og svo er verið að setja upp alls kyns verksmiðjur inn í þetta yndislega fallega land og við erum ekki að passa það nógu vel. Þetta er bara græðgishugsun,“ segir Gréta Berg sem hefur tekið áminningu Græna mannsins til sín og vonast til að aðrir geri það líka.

Málverkasýning Grétu í Perlunni hefst klukkan 10 í fyrramálið og verður opin alla daga frá klukkan 10 til 18 fram til 31. ágúst. Nánari upplýsingar um Grétu sjálfa, verk hennar og sýningar má lesa inni á vefsvæði SÍM, www.sim.is, undir liðnum félagatal, eða á slóðinni http://umm.is/UMMIS/Listamenn/Listamadur/531.