Nýir Danie NIeto og Borja Ekiza bættust í lið Eibar í gær.
Nýir Danie NIeto og Borja Ekiza bættust í lið Eibar í gær. — Ljósmynd/sdeibar.com
Knattspyrnuliðið SD Eibar frá samnefndum 27 þúsund manna bæ í Baskahéraði á Norður-Spáni, á milli borganna San Sebastian og Bilbao, hefur ratað í heimsfréttirnar að undanförnu.

Knattspyrnuliðið SD Eibar frá samnefndum 27 þúsund manna bæ í Baskahéraði á Norður-Spáni, á milli borganna San Sebastian og Bilbao, hefur ratað í heimsfréttirnar að undanförnu. Ástæðan er sú að liðið mun spila í efstu deild á Spáni, La Liga, í fyrsta skipti og bætist í hóp tveggja baskaliða sem þar spila, liðs Alfreðs Finnbogasonar, Real Sociedad, og Athletic Bilbao. Smæð bæjarins gerir það að verkum að SD Eibar er minnsta liðið til þess spila í deildinni. Uppgangur liðsins undanfarin ár hefur verið mikill en liðið var í þriðju efstu deild á Spáni árið 2012 en fór upp um tvær deildir á tveimur árum.

Treyjur gefins frá Barcelona

SD Eibar var stofnað á lýðveldisári okkar Íslendinga, 1944 og spilar í sömu litum og Barcelona. Ástæðan er einföld – liðið hafði ekki efni á því að kaupa búninga og Katalóníurisinn ákvað að vera svo vinsamlegur að gefa liðinu nokkrar treyjur.

Fjárhagsvandræði liðsins voru þó ekki úr sögunni. Eftir að liðið komst upp í maí þurfti það að safna 1,72 milljónum evra til þess að mæta öllum reglum spænska knattspyrnusambandsins um fjárhag félaga. Það tókst og seldust hlutabréf til stuðningsmanna og annarra fyrir 1,98 milljónir evra. Samkvæmt New York Times skulda spænsk knattspyrnufélög 3,6 milljarða evra. Það segir margt um brenglaðan heim knattspyrnunnar þar í landi að eitt af fáum liðum sem ekkert skuldar, Eibar, fékk næstum ekki að taka þátt vegna fjárhags liðsins.

„Skytturnar“

Liðið kallast „Skytturnar“ líkt og Lundúnaliðið Arsenal vegna skotvopnaiðnaðar í borginni sem hefur hnignað ört á undanförum árum. Heimavöllur liðsins tekur einungis 5.250 manns í sæti sem er rúmur helmingur af sætum Laugardalsvallar. Lionel Messi og Neymar munu þó spila á þessum velli. Camp Nou, heimavöllur þeirra, er 18 sinnum stærri.

Vandræði liðsins eru þó ekki á enda þar sem liðið skortir verulega leikmenn fyrir komandi tímabil. Uppgangur félagsins á síðustu árum hefur verið hraður. Leikmannahópur liðsins hefur þó verið byggður að stórum hluta af lánsmönnum frá nágrannaliðunum tveimur sem horfið hafa á brott. Liðið stefnir á að hafa 24 manna æfingahóp en hefur einungis 16. Fyrir þá sem veikir eru fyrir lítilmagnanum ætti Eibar að vera góður kostur. peturhreins@mbl.is