Brynjólfur Jóhannesson fæddist í Reykjavík 3.8. 1896. Foreldrar hans voru J. Kristján Jensson, skósmíðameistari í Reykjavík og á Ísafirði, og k.h., Pálína Hallgerður Brynjólfsdóttir húsfreyja. Eiginkona Brynjólfs var Guðný Helgadóttir húsfreyja.

Brynjólfur Jóhannesson fæddist í Reykjavík 3.8. 1896. Foreldrar hans voru J. Kristján Jensson, skósmíðameistari í Reykjavík og á Ísafirði, og k.h., Pálína Hallgerður Brynjólfsdóttir húsfreyja.

Eiginkona Brynjólfs var Guðný Helgadóttir húsfreyja.

Brynjólfur ólst upp í Skólabæ við Suðurgötu fyrstu sjö árin en flutti þá með foreldrum sínum til Ísafjarðar, var verslunarmaður við Braunsverslun frá 1910, stundaði auk þess sjómennsku, lauk verslunarnámi frá Brödrene Påhlmans Handels- og Skrive Institut í Kaupmannahöfn, starfaði hjá Íslandsbanka á Ísafirði frá 1917 og í Reykjavík frá 1919, var verslunarstjóri Braunsverslunar á Ísafirði 1920-23, flutti alkominn suður 1924 og starfaði við Íslandsbanka og síðan Útvegsbankann til 1961.

Brynjólfur hóf leikferil sinn hjá Leikfélagi Ísafjarðar og lék þar á annan tug hlutverka. Hann lék með Leikfélagi Reykjavíkur frá 1924, lék í hverju einasta leikriti sem LR setti á svið 1931-38 og lék þar í hálfa öld, yfir 170 hlutverk. Þá söng hann víða gamansöngva, lék mikið í útvarp og gamanhlutverk í revíum.

Þegar Þjóðleikkhúsið hóf göngu sína, 1950, og leikarar LR flykktust þangað, hélt Brynjólfur tryggð við LR, ásamt Þorsteini Ö. Stephensen. Þessir burðarleikarar urðu því öðrum fremur til þess að höfuðborgin starfrækti tvö þróttmikil leikhús.

Brynjólfur var einn ástsælasti skapgerðar- og gamanleikari þjóðarinnar um áratuga skeið. Hann lék aðeins fjögur hlutverk í Þjóðleikhúsinu, en öll eftirminnileg, s.s. Jón Hreggviðsson í upphafsverki hússins, Íslandsklukkunni, og Jón bónda í Gullna hliðinu. Eitt eftirminnilegasta hlutverk hans er þó séra Sigvaldi í Manni og konu.

Brynjólfur var nokkrum sinnum formaður Leikfélags Reykjavíkur en í hans formannstíð var í fyrsta sinn lagt fé í sjóð fyrir Borgarleikhús. Hann var einnig formaður Félags íslenskra leikara um skeið og forseti Bandalags íslenskra listamanna.

Brynjólfur lést 8.4. 1975.