[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason lék sinn fyrsta mótsleik með spænska liðinu Real Sociedad á fimmtudagskvöld þegar liðið lagði Aberdeen, 2:0, í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Fótbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason lék sinn fyrsta mótsleik með spænska liðinu Real Sociedad á fimmtudagskvöld þegar liðið lagði Aberdeen, 2:0, í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. Alfreð lék allan leikinn og lagði meðal annars upp annað markið, en viðurkenndi að fiðringurinn hefði verið nokkur fyrir leiknum.

„Já, það var alveg smá spenna, fyrsti leikur fyrir nýtt lið og það á heimavelli. Maður vill auðvitað sanna sig fyrir nýjum stuðningsmönnum og liðsfélögum,“ sagði Alfreð við Morgunblaðið í gær, en blaðamaður þurfti að fá formlegt leyfi frá félaginu til þess að mega taka viðtal við Alfreð. Hann tók undir að þetta væri gott dæmi um hvað skrefið er stórt að koma til Spánar, en áður lék hann með Heerenveen í Hollandi.

„Já, algjörlega og þeir vilja hafa stjórn á því hversu mikið er talað við fjölmiðla, enda getur það stundum verið of mikið hér. Ég finn vel hvað allt er miklu stærra, umfjöllunin er mun meiri eins og allt umstangið, sem er eiginlega það sem hefur komið mest á óvart. Ég hef fundið það vel að þetta er félag sem ætlar sér stóra hluti og ég er spenntur fyrir því að sanna mig utan þægindasvæðisins. Ég þarf að hafa fyrir hlutunum ef ég ætla að standa mig í einni sterkustu deild Evrópu,“ sagði Alfreð, sem skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið og var ekki fenginn til þess eins að sitja á bekknum.

Hefur fallið vel inn í hópinn

Real Sociedad er í Baskahéruðum Spánar, en þar um slóðir vilja menn helst byggja liðin upp af heimamönnum. Gott dæmi um það er að Alfreð var einungis annar af tveimur erlendum leikmönnum í hópnum gegn Aberdeen á fimmtudag. Hann ber Böskum góða söguna.

„Það hafa allir tekið vel á móti mér og ég hef fallið vel inn í hópinn. Kjarninn í liðinu er uppalinn hérna og félagið vill hafa sem flesta Baska og Spánverja, en ef þær týpur af leikmönnum sem vantar eru ekki til þá þarf að sækja þá annað. Ég er ekkert skilinn útundan þó ég sé frá Íslandi. Maður er tekinn fyrir eins og hver annar og ég sé margt líkt með Böskum og Íslendingum hvað viðmótið varðar,“ sagði Alfreð og er ánægður með þessar fyrstu vikur á Spáni.

„Undirbúningstímabilið var strembið en mér hefur gengið mjög vel á æfingum og í æfingaleikjum og ætla að halda því áfram. Ég var keyptur til að vera í liðinu og skora mörkin, en það er undir mér komið að standa undir því. Sociedad er þekkt fyrir að spila góðan sóknarbolta og skapa mikið af færum, vonandi græði ég á því.“

Kærkominn síðdegislúr

Alfreð var formlega kynntur til félagsins í byrjun júlímánaðar, en hann lagði frá upphafi mikla áherslu á að læra spænskuna.

„Ég fór strax í það enda finnst mér það mikilvægt að læra tungumálið sem fyrst, bæði varðandi samskipti við liðsfélaga og fólk í kring. Svo færðu virðingu stuðningsmanna ef þú talar tungumálið, svo ég ætla að reyna að vera kominn með það sem fyrst enda er þetta skemmtilegt tungumál til að læra,“ sagði Alfreð, en fyrsti deildarleikur Sociedad á nýju tímabili er gegn nýliðum Eibar þann 24. ágúst.

Það var ekki hægt að sleppa honum úr símanum án þess að spyrja út í þá hefð sem ríkir á Spáni að fá sér síðdegislúr, svokallaða siestu.

„Það er eitt alskemmtilegasta orðið í orðabókinni hérna á Spáni. Það er öllu lokað milli klukkan 2 og 4 og því ekkert annað að gera en að fara heim og slappa af. Ég er meira að segja nýkominn úr siestu núna svo ég þarf að rífa mig upp aftur. Ég neita því ekki að þetta er mjög jákvætt fyrirbrigði hérna á Spáni,“ sagði Alfreð hlæjandi og er greinilega farinn að aðlagast nýjum siðum vel.