Afþreying Dawn of the Planet of the Apes er ágætis afþreying sem þó fer inn um annað eyrað og út um hitt.
Afþreying Dawn of the Planet of the Apes er ágætis afþreying sem þó fer inn um annað eyrað og út um hitt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Matt Reeves. Handrit: Mark Bomback, Rick Jaffa og Amanda Silver. Aðalhlutverk: Andy Serkis, Jason Clarke, Gary Oldman, Keri Russell, Toby Kebbell og Kodi Smit-McPhee. 131 mín. Bandaríkin, 2014.

Hinir stórgreindu apar franska rithöfundarins Pierre Boulle hafa heldur betur verið blóðmjólkaðir. Frá því að þeir litu fyrst dagsins ljós í vísindaskáldsögunni La Planète des singes árið 1963 hafa átta kvikmyndir verið framleiddar auk þess sem sú níunda er á teikniborðinu. Nýjasta afurðin er kvikmyndin Dawn of the Planet of the Apes en um er að ræða eina af dýrustu myndum þessa árs.

Ódýr persónusköpun

Kvikmyndin segir frá því er áratugur hefur liðið frá endalokum þeirrar siðmenningar er við þekkjum í dag en lítill hópur manna viðhefst í hrörlegum byggingarkjarna San Fransisco-borgar. Samfélag ómennskra prímata hefur að sama skapi skotið rótum í skóglendi Kaliforníu með simpansann Sesar (Andy Serkis) í fararbroddi. Stirð samskipti apa og manna um landsvæði og auðlindir leiða af sér stríð en þar spilar valdabarátta í herbúðum apanna stóra rullu. Að sjálfsögðu er sterílli ástarsögu troðið inn í söguþráðinn, bæði mennskri og dýrslegri, enda varla hægt að berja Hollywood-mynd augum án þess að verða vitni að ástarflækju í einhverjum búningi.

Söguþráðurinn viðheldur athygli áhorfandans ágætlega þrátt fyrir að spennan nái aldrei virkilegum hæðum. Hundurinn liggur þar að stórum hluta grafinn í persónusköpun þeirri er finna má í myndinni. Persónurnar eru allar margtuggnar og lítið sem kemur þar á óvart. Að sama skapi mistekst aðstandendum myndarinnar að fá áhorfendur til að fjárfesta tilfinningalega í persónum myndarinnar en slíkt er nauðsynlegt ef tilfinningaþrungið samband á að myndast á milli persóna og áhorfenda. Nokkrum sinnum er reynt að glæða persónurnar lífi með bakgrunnssögum og misdjúpum vinklum en það er illa framkvæmt og ætíð nokkuð augljóst til hvers leikurinn er gerður.

Úrelt kynhlutverk

Þess skal þó getið, og þá ber helst að þakka Boulle, að hvorki mönnum né öpum er stillt upp sem hinu illa afli kvikmyndarinnar. Sú barátta góðs og ills sem einkennir flestar dýrar kvikmyndir fær þannig á sig nýjan blæ og er það til eftirbreytni. Áherslan er fremur lögð á einstaklinginn, það er að segja að kyn, kynþáttur eða tegund ákvarði ekki gæði viðkomandi heldur sé slíkt óháð ytra atgervi. Þetta rímar vel við það fjölmenningarsamfélag sem við búum við í dag og er boðskapurinn um að kveða niður millitegundarfordóma góður. Kvikmyndin elur þó á þeirri staðalímynd að til séu sannar andhetjur, á borð við apann Koba (Toby Kebbell) og manninn Carver (Kirk Acevedo), en slíkt verður að teljast óraunsætt og þröngsýnt enda í flestum tilfellum afstætt.

Kynhlutverk persóna kvikmyndarinnar eru að sama skapi fremur úrelt og í raun móðgun við persónufrelsi sem ætti að vera óháð kyni. Kvenhlutverkin eru aðeins tvö, af rúmlega tuttugu, og virðast eingöngu ganga út á að vera hækjur sterkari karlmanna. Hlutverk kvenkyns persónunnar í hópi manna, Ellie (Keri Russell), er til að mynda að vera ástkona aðalsöguhetjunnar, Malcolms (Jason Clarke). Jafnframt sinnir eina kvenkyns persóna apanna, Cornelia (Judy Greer), einungis því hlutverki að vera eiginkona Sesars og kórónar það með því að fæða honum unga á meðan hann berst um völd.

Góður leikur

Framvinda sögunnar er nokkuð auðmelt og áhorfendur þurfa lítið að leggja sig fram við að skilja kvikmyndina. Klipping og frágangur er að sjálfsögðu til fyrirmyndar og sviðsmyndin, rústir San Fransisco-borgar, vel útfærð en Golden Gate-brúin fær þar að njóta sín. Tónlistin er að sama skapi metnaðarfull þrátt fyrir að hún hafi á köflum dregið úr spennu með ótímabæru og hádramatísku tónaflóði.

Leikarar kvikmyndarinnar standa sig flestir með prýði og ber þar helst að nefna Jason Clarke og Gary Oldman. Báðir tveir, þá sérstaklega Oldman, eru virkilega reyndir leikarar og virðast varla færir um að stíga feilspor. Sú tækni sem notuð er til að kvikmynda apana, sama tækni og var notuð við gerð Gollris í Hringadróttinssögu, heppnast vel og hreyfingar þeirra virka nokkuð raunverulegar. Þó má deila um samskiptamáta apanna sem virðist oft heldur of einfaldur til að koma því til skila sem textinn gefur til kynna að fari þeirra á milli. Þá eru tæknibrellur mjög flottar og greinilegt í hvað allur framleiðslupeningurinn fór.

Inn um annað og út um hitt

Dawn of the Planet of the Apes er í heild ágætis afþreying sem þó fer inn um annað eyrað og út um hitt. Það hefði mátt eyða meira púðri í handrit og persónusköpun myndarinnar á kostnað sprenginga og bardagaatriða. Að sama skapi virðist um hálfgert millibilsástand síðustu og næstu myndar að ræða en lokaatriði kvikmyndarinnar ber þess merkis.

Davíð Már Stefánsson