Gæludýrafóður Fiskur er oft grunnefnið, en hjá Arctic-Pet, í Garðinum, er það kjúklingur.
Gæludýrafóður Fiskur er oft grunnefnið, en hjá Arctic-Pet, í Garðinum, er það kjúklingur. — Morgunblaðið/Kristján
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Ítalski gæludýrafóðurframleiðandinn SANYpet, sem þekktastur er fyrir gæludýrafóðrið FORZA10, hefur stofnað dótturfyrirtæki hér á landi, Arctic-Pet, í Garðinum á Suðurnesjum.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Ítalski gæludýrafóðurframleiðandinn SANYpet, sem þekktastur er fyrir gæludýrafóðrið FORZA10, hefur stofnað dótturfyrirtæki hér á landi, Arctic-Pet, í Garðinum á Suðurnesjum. Þar hefur verið sett upp verksmiðja og hafin er framleiðsla á gæludýrafóðri fyrir hunda og ketti. Stefnt er að því að framleiða um 1.000 tonn á ári, einkum til útflutnings. Fjárfesting fyrirtækisins hér á landi er um ein milljón evra, eða í kringum 155 milljónir króna og munu 5-10 manns hafa vinnu í verksmiðjunni, þegar framleiðsla er komin í fullan gang.

Helsta nýmæli Arctic-Pet í framleiðslunni, er að sem grunnefni í gæludýrafóðrið sem framleitt er í Garðinum, er það sem fellur til í kjúklingasláturhúsum, við slátrun kjúklinga, ekki fiskúrgangur, eins og svo algengt er við gæludýrafóðurframleiðslu.

Sveinn V. Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls, staðfesti í samtali við Morgunblaðið að Arctic-Pet væri byrjað að kaupa hráefni úr sláturhúsinu hjá þeim, sem fellur til við slátrun kjúklinga. Nokkrar sendingar, einhver tonn, hafi þegar farið í Garðinn.

Framkvæmdastjóri Arctic-Pet í Garðinum, Alessandro Cernuzzi, hefur ekki viljað veita viðtal um starfsemina, sagði einungis að framleiðslan væri á tilraunastigi.

Morgunblaðið sneri sér til höfuðstöðva SANYpet á Ítalíu og lagði nokkrar spurningar fyrir forstjórann, Massimo Parise:

Kjöraðstæður á Íslandi

- Hvers vegna valdi SANYpet Ísland fyrir þessa framleiðslu?

„Á Íslandi eru kjöraðstæður, þar sem hreinleiki og frábært hráefni standa okkur til boða til þess að framleiða hollt gæludýrafóður fyrir hunda og ketti,“ sagði Parise.

- Hversu stór er fjárfesting SANYpet á Íslandi og hversu margir munu fá starf við framleiðsluna hjá ykkur?

Þúsund tonn á ári

„Fjárfesting okkar er einhvers staðar í kringum eina milljón evra (um 155 milljónir króna, innsk. blm.), sem er einkum fjárfesting í hátæknibúnaði, sem svona framleiðsla krefst. Þegar verksmiðjan verður komin í full afköst, reiknum við með því að starfsmenn verði á bilinu 5 til 10.“

Parise segir að þegar verksmiðjan verður komin í full afköst, sem verði einhvern tíma með vorinu 2015, verði framleidd um 1.000 tonn á ári, allt til útflutnings, a.m.k. fyrst um sinn

- SANYpet hefur um langa hríð starfað með IFEX í Þorlákshöfn, þar sem gæludýrafóður, þar sem fiskur er grunnefnið, er framleitt. Hvers vegna viljið þið nú framleiða fóður úr kjúklingum?

„Við teljum einfaldlega að kjúklingurinn sé ákjósanlegur í fóður fyrir hunda og ketti og góður valkostur á móti fisknum. Við munum sömuleiðis skoða hvort við eigum kost á hráefni úr íslenskum svína- og lambasláturhúsum þegar fram líða stundir. “

FORZA10 þekktast

Sergio Canello, ítalskur lyfjafræðingur, er stofnandi og helsti eigandi SANYpet. Hann stofnaði fyrirtækið árið 1996.

Fyrirtækið hefur smám saman fært út kvíarnar og er nú með starfsstöðvar víða um heim. Höfuðstöðvar þess eru í litlum ítölskum bæ, Bagnoli di Sopra, í grennd við Padova.

Þekktasta gæludýrafóður SANYpet hingað til er FORZA10, en innan þeirrar framleiðslulínu eru allmargar fóðurtegundir. Meðal annars hafa hundaeigendur, sem láta hunda sína keppa í sleðaferðum, við erfiðar aðstæður, nærast á FORZA10. SANYpet hefur um nokkurra ára skeið átt í samstarfi við IFEX í Þorlákshöfn, sem einnig framleiðir gæludýrafóður, en hjá þeim er grunnurinn fiskur, ekki kjúklingur.

Á heimasíðu SANYpet kemur fram að miklar vísindarannsóknir í þróunarsetri SANYpet séu helsta ástæða þess hversu góðum árangri fyrirtækið hefur náð við markaðssetningu á FORZA10.