Vilhjálmur Hjálmarsson fæddist 20.9. 1914. Hann lést 14.7. 2014. Útför Vilhjálms fór fram 25. júlí 2014.

Með söknuði kveðjum við starfsmenn Héraðsskjalasafns Austfirðinga Vilhjálm Hjálmarsson. Fyrir um það bil öld var hann í heiminn borinn á Brekku í Mjóafirði og átti þar sitt ævistarf sem bóndi og barnakennari, auk þess að vera þingmaður um árabil og að lokum ráðherra menntamála.

Þegar starfi á sviði stjórnmála lauk og flestum hefði þótt mál að setjast í helgan stein hóf Vilhjálmur að skrifa bækur og urðu þær vel á annan tuginn. Drjúgur hluti þeirra fjallaði um heimahagana þar sem sögð var saga fólksins sem byggt hafði Mjóafjörð á 19. og 20. öld og stundum seilst lengra aftur tímann ef góðrar sögu var von. Þegar Vilhjálmur hafði lokið við að skrifa byggðasöguna tók hann til við að gera umhverfi Mjóafjarðar skil, t.d. fengu furður og fyrirbæri sitt rúm og fjallaskörð og fornar leiðir voru færðar til bókar. Munu fá byggðarlög eiga sögu sína skráða jafn ýtarlega.

Inn á milli skrifaði Vilhjálmur ævisögur manna eða gerði skil minningum sínum frá stjórnmálaferlinum. Handrit bóka sinna færði hann Héraðsskjalasafninu til varðveislu ásamt heimildasöfnum og ljósmyndum. Einnig mikið safn einkabréfa og mynda úr eigu fjölskyldu og frændgarðs og afrit embættisbréfa frá stjórnmálaferlinum. Vilhjálmur tók aldrei tölvutæknina í þjónustu sína en rithöndin var glögg og áferðarfalleg, nánast aldrei var strikað yfir orð og allur frágangur skjala hans þannig að hreinasta unun var að vinna við skráningu þeirra.

Síðustu æviárin dvaldi Vilhjálmur yfir vetrartímann á Egilsstöðum og vann að ritstörfum. Hann var þá tíður gestur á Héraðsskjalasafninu þar sem hann fékk myndir skannaðar og handrit ljósrituð áður en hann sendi þau til vélritunar. Vilhjálmur var maður hlýr og skemmtilegur og minnumst við hér á safninu margra góðra stunda frá heimsóknum hans. Síðustu tvö æviárin var líkamlegri heilsu hans þannig farið að annaðhvort kom hann í fylgd ættingja að reka erindi sín eða hann hafði samband og bað mig að koma við hjá sér í Hlymsdölum. Þar hitti ég hann síðast fyrir nokkrum vikum glaðan og hressan á leið á Mjóafjörð. Hann var þeirrar gerðar að fólk dróst að honum og þar sat öldungurinn í góðum hópi, silfurhærður með glettnisglampa í augum og sagði sögur. Þannig mun ég varðveita minningu hans.

Fyrir hönd starfsmanna Héraðsskjalasafns Austfirðinga,

Arndís Þorvaldsdóttir.