Sigurgeir Helgi Guðmundsson fæddist 18. ágúst 1932. Hann lést 22. júlí 2014. Útför Sigurgeirs fór fram 30. júlí 2014.

Þegar sólin byrjaði aftur að skína eftir langvarandi rigningar kvaddi Geiri þessa jarðvist við að þvo bílinn sinn fyrir utan húsið í Hamravík þar sem hann bjó.

Hann var aldrei öðrum háður, alltaf sjálfum sér nægur með bát og bíl, var vinmargur og skemmtilegur.

Þegar ég minnist Geira kemur fyrst upp í hugann hversu frásagnir hans frá gamalli tíð urðu ljóslifandi með leikrænum háttum hans, með raddblæ og hreyfingum. Hann var sögumaður í góðra vina hópi. Geiri fór ekki mikið frá Drangsnesi utan nokkurra vertíða sem hann fór á suður með sjó. Hann átti vörubíl sem hann vann á í vegagerð í mörg ár. Bátarnir hans voru hans líf og yndi, að fara á grásleppu og handfæri. Fyrst á Valda, svo á Hamravíkinni sem hann lét smíða fyrir sig í Bátalóni. Það var mikil stemning á fyrstu grásleppuvertíðinni á Hamravíkinni hjá Geira þegar hans besti vinur, Friðgeir, var með honum og minntist hann þess oft hve drift Friðgeirs væri mikil.

Geiri var góður hagyrðingur og kunni að koma samtímanum í ljóð, en auk þess kunni hann mikið af vísum. Harmonikkan var alltaf við höndina og oft var tekið í hana á síðkvöldum. Hin síðari ár þegar aldurinn fór að færast yfir seldi hann bátinn og naut þess að keyra um á Bensinum sínum og passa upp á að allt væri í lagi. Hans eina embætti var að fara og taka á móti Grímseynni þegar vinir hans voru að koma að bryggju.

Hann átti góða vini úr Vegagerðinni sem oft var vitnað í. Fjölskylda Magnúsar bróður hans var honum mikils virði og gat hann alltaf leitað til þeirra þegar eitthvað var.

Ég vil að endingu þakka öllum sem hafa stutt hann nú hin síðari ár, bæði fjölskyldu og vinum. Blessuð sé minnig Geira í Hamravík.

Arinbjörn, Sigríður

og fjölskylda.